Staðsetning björgunarþyrlu

147. fundur
Þriðjudaginn 30. mars 1993, kl. 16:58:47 (6578)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð í þessa umræðu sem mér finnst aðeins hafa byggst á misskilningi. Mér finnst hv. þingmenn hafa talað eins og einungis yrði áfram um eina þyrlu að ræða ef ný þyrla yrði keypt en það er auðvitað algjör misskilningur. Væntanlega verður þyrlan sem þegar hefur verið notuð árum saman við ótrúlegar aðstæður og með ótrúlegum árangri, notuð áfram þannig að þar með eykst auðvitað möguleikinn á því að hafa þyrlu annars staðar en í Reykjavík. Fyrir utan það mundi auðvitað öll aðstaða batna að því leyti að hin nýja þyrla sem menn horfa einkum til er búin afísingarútbúnaði þannig að þá þyrftu menn ekki lengur að reyna að krækja fyrir landið meðfram ströndinni til þess að forðast ísingu ef flogið er yfir hálendið eins og hingað til hefur þurft á þeirri þyrlu sem nú er notuð. Þess vegna er fullkomlega eðlilegt að minna á með þessari tillögu að það sé e.t.v. sjálfsagt að reyna að hafa aðstöðu utan Reykjavíkur einnig því það leiðir af sjálfu að því styttra sem er á slysstað því betra og því víðar á landinu sem aðstaða er fyrir björgunarsveitir, því betra að sjálfsögðu.
    Hæstv. forseti. Ég vildi að ég væri eins sannfærð um að það væri verið að gera eitthvað til þess að láta verða af því að fara að heimild í fjárlögum og kaupa þyrlu. Ég hef engar sannanir fyrir því, það má vel vera að aðrir hafi þær, að verið sé að gera eitthvað í þessu máli. Það er svo sannarlega von mín að hæstv. ríkisstjórn sé þegar komin í samningaviðræður um kaup á þyrlu, en vegna orða hv. 5. þm. Austurl. vil ég aðeins segja þetta:
    Ég held að hæstv. ríkisstjórn ætti sem allra minnst að ákvarða það sjálf hvaða þyrla verði keypt. Ég hygg að þeir menn sem hafa stundað björgunarstörf hér viti manna best um það. Og á fundum sem við höfum átt með Landhelgisgæslunni er enginn efi í huga manna hvaða þyrlugerð mundi henta best. Ég held að menn gerðu best í því að fara að þeim ráðum. Ég hygg að ekki sé um svo mikinn verðmun að ræða og jafnvel þó svo væri þá er auðvitað töluvert mikið borgandi fyrir það að þessir menn þurfi nánast ekki að hætta lífi og limum í hvert skipti sem þeir bjarga mannslífum.
    En ég hlýt auðvitað að styðja þessa till. til þál. og þá hugsun sem þar kemur fram að aðstaða sé víðar en á Stór-Reykjavíkursvæðinu en það er auðvitað ekki hægt nema um sé að ræða fleiri en eina vél og von okkar er jú sú sem fluttum frv. og höfum verið að garfa í þessum málum að þetta verði viðbót en ekki vél í staðinn fyrir þá sem fyrir er.

    Frú forseti. Ég vona svo sannarlega að yfirstjórn þingsins gangi eftir því að margyfirlýstum vilja þingsins verði sinnt og ríkisstjórnin krafin um að hefja nú þegar, ef það er ekki þegar hafið, að semja um kaup á björgunarþyrlu í samráði við Landhelgisgæsluna. Það held ég að sé undirstöðuatriði.