Staðsetning björgunarþyrlu

147. fundur
Þriðjudaginn 30. mars 1993, kl. 17:02:54 (6579)

     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Hæstv. forseti. Ég fagna auðvitað þessari tillögu og vona að hún fái greiðan aðgang og greiða umferð í þinginu og verði samþykkt. Það eru orðin æðimörg ár og áratugir sem ég hef stigið í þennan stól og margsinnis á hverju þingi til þess að krefjast þess nánast að Landhelgisgæslan yrði styrkt. Við gætum ekki verið þekktir fyrir annað en að reyna að varðveita þá stórkostlegu eign sem við eigum í hafinu okkar hér í kring. Það er eiginlega ekki lengra komið en það að menn eru enn þá að tala um einhverjar 200 mílur, að það sé okkar fiskveiðilandhelgi, menn vilja ekki skilja það hversu oft sem á því er hamrað að við eigum eftir réttum lögum hafréttarins 350 mílur á Reykjaneshrygg og við erum heldur betur minnt á það nú hvað við erum að gera þar, að hrekja ekki erlenda ránsmenn af þessum miðum og nýta þau sjálfir í staðinn fyrir að horfa upp á þau ósköp að það sé verið að moka upp sjaldgefinni fisktegund, kannski rányrkja svo ekki verði bætt það tjón. Þetta heyrum við á hverjum degi og það er varla að menn depli auga. Því er nú miður. Það eru hverfandi peningar sem við þurfum til þess að styrkja Landhelgisgæsluna þannig að hún geti ekki einungis varðveitt miðin sem við eigum, 350 mílur á Reykjaneshrygg, heldur eigum við líka 600 mílur á Hatton-Rockall bankanum og þar er fiskur af öllum mögulegum og ómögulegum gerðum. Það hefur verið margreynt og sannað. Það er enn þá minna hugsað um að varðveita þessi gífurlegu auðæfi okkar og þó er sagt að það sé kreppa vegna þess að það sé aflabrestur. Við eigum kannski jafnmikið af fiski á öðrum miðum en þeim sem nýtt eru ef að því er gáð. Því miður er það ekki gert og menn ætla kannski að velta þessu máli eitthvað fyrir sér, ég vona að það verði ekki lengi gert.
    Hæstv. forsrh. lýsti því yfir fyrir skömmu, eins og allir vita, að þyrla yrði keypt á næstu vikunum, ég skildi það svo, ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðherra hafi talað fyrir ríkisstjórn sína alla. Þar með væri þá komin ný þyrla á þessu ári. Og auðvitað er það alveg hárrétt sem síðasti ræðumaður sagði að það á ekki að selja aðrar þyrlur í staðinn, það á auðvitað að vera viðbót og það þarf auðvitað að hafa fleiri varðskip. En menn halda að það sé miklu erfiðara og það hefur verið hamrað á því hér á Alþingi og var gert þegar við fórum út í 12 mílur og aftur í 50 mílur að við gætum ekki varið þessa stækkun sem fyrirhugað var í tvígang. Sannleikurinn er sá að það er auðveldara að verja stórt hafsvæði en lítið, að hindra veiðarnar á því bæði með flugvélum og eins varðskipum, einfaldlega vegna þess að með nútímatækni er hægt að fylgjast með öllum fleyjum sem eru á ferðinni úr fjarsýnartækjum og þess vegna betra að fylgjast með erlendum flotum og geta gert sér það í hugarlund a.m.k. að þessi floti sé ekki að þvælast þarna í gamni sínu heldur halda til veiða og þannig væri hægt að taka á móti honum strax og hann kæmi að mörkunum, hvort sem það eru 600 mílna mörk eða 350 mílna mörk. Það er miklu auðveldara að verja stóra landhelgi heldur en litla, en það kveður alltaf við: Við getum þetta ekki, við höfum ekki peninga til þess. Við eigum ekki að vera að ónáða útlendinga. Við eigum að vera í góðu bandalagi sem allt vill fyrir okkur gera eins og dæmin sanna.
    Þetta er fullveldismál Íslands að verja landhelgina og náttúrlega fullveldismál líka að fara réttum höndum um þessi EES-mál öllsömul. Við eigum þetta svæði og við eigum að nýta það og verja það, líka fyrir offjölgun. Þetta ætti að vera það sem við þingmenn allir sem einn værum að vinna að af því að ég veit að mönnum býr öllum það sama í brjósti hvar í flokki sem þeir standa.
    Ég vona að þessi litla tillaga verði til þess að flýta fyrir að svo fari.