Staðsetning björgunarþyrlu

147. fundur
Þriðjudaginn 30. mars 1993, kl. 17:08:27 (6580)

     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil eins og aðrir þakka hv. flm. fyrir þessa tillögu þó ég leyfi mér í sjálfu sér að efast um að hún sé þörf en mun engu að síður styðja hana. Ég tel að slík könnun hljóti að fara fram, það liggur í hlutarins eðli að ráðuneytið og þeir sem með þessi mál fara hljóti að leggja það niður fyrir sér hvar á að staðsetja björgunarþyrlurnar. Og ég tala um björgunarþyrlur því auðvitað verða þær tvær eftir að nýja þyrlan kemur.
    Ég vil benda á það að í tillögutextanum er talað um staðsetningu björgunarþyrlu þar sem ætti auðvitað að standa staðsetningu björgunarþyrlna af því að við erum að tala um tvær þyrlur og hef reyndar rætt það við 1. flm. og það er einnig skilningur hans og mun þá tillögutexta væntalega verða breytt í nefnd.
    Mér þykir tillögumenn vera snemma á ferðinni og það er kannski gott að menn séu það. Við trúum allir yfirlýsingu hæstv. forsrh. að innan fárra vikna verði gengið til samninga um kaup á nýrri björgunarþyrlu. Þessi yfirlýsing var gefin fyrir fáum vikum þannig að það styttist óðum í að sá tími verði liðinn og ný björgunarþyrla keypt eða kaupsamningur um nýja björgunarþyrlu verði gerður. En ég segi að menn séu tímanlega á ferðinni vegna þess að afgreiðslutími á nýrri björgunarþyrlu er talinn vera eitt og hálft ár, átján mánuðir upp í tvö ár. Miðað við þann tíma þá væri þessi nýja þyrla ekki komin til landsins fyrr en í ársbyrjun 1995 og þess vegna segi ég að menn séu nokkuð tímalega á ferðinni. Mér þykir þessi tillaga hins vegar bera vott um það að eins og ég þá trúa menn því að nú eigi virkilega að láta til skarar skríða og að björgunarþyrlan verði keypt.
    Ég tel eðlilegt að umræða fari fram um hvar eigi að staðsetja björgunarþyrlu en ég held hins vegar að hagsmunaaðilar eigi að hafa mest með það að gera eins og hér hefur komið fram og þá kannski einna helst Landhelgisgæslan. Ég tel eðlilegt að önnur þyrlan sé staðsett þar sem meginfiskveiðifloti landsmanna er hverju sinni en ætla að öðru leyti ekkert að tjá mig um það hvar það er nema helst það að auðvitað má marka þá stefnu að önnur þyrlan verði staðsett á landsbyggðinni, hvar svo sem það verður og hvort það verður með einhverju róterandi kerfi eða hvernig sem því verður við komið.
    Ég vil aðeins fá að leiðrétta framsögumann og hv. 5. þm. Austurl., Gunnlaug Stefánsson, því þeir tala um flugtíma og það þurfi sýknt og heilagt að fljúga með ströndinni þegar það þarf að fara á slysstað. Þá tala þeir eins og við séum að kaupa þyrlu af sömu gerð og sömu stærð og sú sem við erum að reka í dag. En það er ekki málið. Höfuðkosturinn við nýju þyrluna, sem við erum að tala um, fyrir utan burðargetu er hið mikla og aukna flugþol þyrlunnar og hins vegar, sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir kom inn á, afísingarbúnaðurinn. Þetta tvennt mun gera það að verkum að nýja þyrlan getur flogið hvert á land sem er, hvar sem er á Íslandi. Hún þarf því ekki að skríða með ströndum eins og sú þyrla sem við erum að reka í dag. Mér fannst þarna gæta örlítils misskilnings og vildi þess vegna fá að leiðrétta hann.
    Virðulegur forseti. Einhver hafði áhyggjur af því áðan að málið væri kannski ekki í fullri vinnslu en ég vil fullvissa þingheim um að eftir stutt spjall við dómsmrh., sem ég ætla ekki að skýra frá að öðru leyti, hef ég fullvissu fyrir því að málið er í fullri vinnslu. Það er sérstök nefnd í gangi sem ég hygg að sé kölluð kaupnefnd. Hún mun væntanlega skila sínum niðurstöðum innan ekki langs tíma. Ég hef þess vegna þá trú að við þá yfirlýsingu sem forsrh. gaf fyrir nokkrum vikum síðan verði staðið og að þjóðin eignist nýja björgunarþyrlu innan örfárra vikna.