Staðsetning björgunarþyrlu

147. fundur
Þriðjudaginn 30. mars 1993, kl. 17:28:30 (6583)

     Guðmundur Hallvarðsson :
    Frú forseti. Ég tel að hér sé athyglisverðu máli hreyft, einkum þegar haft er í huga hve sjálfsagt það er að skoða þessa hluti og gera sér betur grein fyrir hagkvæmni notkunar þessa björgunartækis og á seinni stigum þarf auðvitað að skoða hagkvæmni rekstrar. Við ætlum okkur að kaupa björgunarþyrlu sem á að vera það í orðsins fyllstu merkingu og þá er ekki óeðlilegt að það sé skoðað hvar slíkt öryggistæki er staðsett og hvar það kemur að bestum notum. Þótt tæki sé keypt dugar það ekki til eitt og sér. Það þarf líka að huga að rekstrinum en eins og ég sagði í upphafi þarf auðvitað að huga að því hvernig björgunarþyrla getur þjónað þeim tilgangi sem til er ætlast með sem hagkvæmustum og bestum hætti.
    Það er rétt hjá síðasta ræðumanni að hér er ekkert smáhafsvæði sem þarf að fylgjast með, nærri 800.000 ferkílómetrar. Það tekur sinn tíma að fylgjast með því svæði ef fljúga á yfir það, hvað þá heldur ef við ætlum varðskipum okkar að ná til þess að gæta þess hafsvæðis sem við viljum, bæði með tilliti til fiskveiðilögsögunnar og ekki síst öryggis sjófarenda á hafinu kringum Ísland. Við ætlumst til þess að íslenskir sæfarendur við strendur annarra landa fái þar þjónustu á því sviði sem við erum að ræða hér um og því er ekki óeðlilegt að til þess sama sé ætlast af okkur. Því get ég fyllilega tekið undir það með flm. að það er tímabært að úttekt sé gerð á staðsetningu björgunarþyrlu.
    Það er líka nokkurt umhugsunarefni fyrir okkur Íslendinga hvort við eigum ekki frekar að efna til alþjóðasamstarfs, eins og hér hefur komið fram, varðandi alþjóðabjörgunarsveit sem við ættum aðild að

vegna þess að það má ljóst vera að svo fámennri þjóð sem Íslendingum gæti reynst örðugt að fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru til okkar hvað áhrærir björgun mannslífa á hafinu á öllu því svæði sem við þurfum að hafa nánari gætur á.
    Ég ætla ekki að lengja umræðu um þetta en tel að þessi þáltill. sé hvorki of seint né of snemma fram borin. Svo mikilvægt er þetta mál og ekki eingöngu fyrir sæfarendur með tilliti til staðsetningar á einhverjum öðrum landshluta en á suðvesturhorninu vegna þess að vonandi næst gott samstarf við bandarísku sveitina á Keflavíkurflugvelli sem hefur á að skipa fjórum þyrlum eins og hér hefur komið fram áður. Það er umhugsunarefni hvernig þessum hlutum verður svo vel fyrir komið að gott þyki með tilliti til öryggis.