Staða brotaþola við meðferð kynferðisbrotamála

147. fundur
Þriðjudaginn 30. mars 1993, kl. 17:32:49 (6584)

     Flm. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 794 um að styrkja stöðu brotaþola við meðferð kynferðisbrotamála. Tillagan er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að leggja fyrir Alþingi frv. til laga um breytingu á lögum nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, sem styrki stöðu brotaþola við meðferð kynferðisbrotamála.``
    Flm. ásamt mér eru þingkonurnar Ingibjörg Pálmadóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Margrét Frímannsdóttir, Þórhildur Þorleifsdóttir, Valgerður Sverrisdóttir, Guðrún Helgadóttir, Anna Ólafsdóttir Björnsson, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir og Kristín Ástgeirsdóttir.
    Tillaga þessi er flutt til að freista þess að reka smiðshöggið á vinnu svokallaðrar nauðgunarmálanefndar sem skipuð var árið 1984 af Jóni Helgasyni, þáv. dómsmrh., í kjölfar samþykktar Alþingis á þál. frá þingkonum Kvennalistans. Átti nefndin að kanna hvernig háttað væri rannsókn og meðferð nauðgunarmála og gera tillögur til úrbóta í þeim efnum. Skilaði nefndin greinargóðri skýrslu um málið árið 1989 og gerði þar mjög ákveðnar og afmarkaðar tillögur. Af því sem framkvæmt hefur verið af tillögum nefndarinnar má nefna að á síðasta þingi voru gerðar umtalsverðar breytingar á þeim kafla hegningarlaganna sem fjallar um kynferðisbrot og þann 8. mars sl. var opnuð neyðarmóttaka fyrir fórnarlömb kynferðisbrota og annarra ofbeldisbrota. Í tengslum við hana var starfsfólki slysadeildar og Rannsóknarlögreglu boðið upp á þjálfun í meðferð slíkra mála. Er þetta hvort tveggja vissulega fagnaðarefni þó að því verði ekki á móti mælt að aðdragandinn hafi verið ansi langur.
    Um fræðsluþáttinn, sem nefndin lagði mikla áherslu á, er það að segja að þar má gera mun betur, sérstaklega í grunnnámi heilbrigðisstarfsfólks og lögreglumanna þó að aukin umræða í samfélaginu um kynferðislegt ofbeldi af ýmsu tagi, innan sem utan heimilis, hafi aukið talsvert almenna þekkingu á þessum málum og breytt viðhorfum margra. Er það ekki síst að þakka frjálsum félagasamtökum kvenna sem hafa tekið þessi mál föstum tökum, svo sem Samtökum um kvennaathvarf og Stígamót. Því miður hefur þeim þó ekki enn tekist að uppræta þá fordóma sem herja á menn sem eiga að teljast sæmilega upplýstir og eru jafnvel í forsvari fyrir áhrifamiklar stofnanir svo sem Rannsóknarlögreglu ríkisins.
    Þetta segi ég m.a. með tilvísun til skriflegra svara sem mér bárust á síðasta þingi frá Rannsóknarlögreglu ríkisins við fyrirspurn minni um heimilisofbeldi, en mörkin milli þess og kynferðisofbeldis eru oft mjög óljós. Í því sambandi má geta þess að samkvæmt upplýsingum sem konur gefa þegar þær koma í Kvennaathvarfið, þá er nauðgun í hjónabandi ástæða fyrir komu í 84 tilvikum, sem eru 23% af skráðum komum. Hjá Stígamótum liggja fyrir upplýsingar um að þegar um nauðgun er að ræða er gerningsmaður í helmingi tilvika vinur eða kunningi og í 15% tilvika eiginmaður eða sambýlismaður. Í því sambandi verða viðhorf Rannsóknarlögreglu ríkisins að skoðast en í fyrrnefndu svari Rannsóknarlögreglunnar um heimildisofbeldi segir, með leyfi forseta:
    ,,Niðurstaðan er sú að vandamálið samfara þessum brotum er ekki refsiréttarlegs eðlis heldur öllu fremur félagslegs eðlis. Þannig kemur í ljós að mál þessi tengjast langflest misnotkun áfengis, afbrýðisemi og félagslegum vandamálum af ýmsu tagi. Flest þessara mála teljast upplýst, þ.e. ljóst er hver sakborningur er. Hins vegar ganga mál þessi mjög á tíma og fé sem lögregla hefur til ráðstöfunar hverju sinni og væri betur varið í alvarlegri og brýnni verkefni``, segir í svari frá Rannsóknarlögreglunni.
    Af þessum viðhorfum leiðir að lögregla og aðrir rannsóknaaðilar virðast ekki líta á ofbeldi á heimili, hvort sem það telst kynferðislegt eða ekki, eins alvarlegum augum og annað ofbeldi. Það er með öðrum orðum þriðja flokks og þar af leiðandi eru þau mál teljandi á fingrum annarrar handar þar sem ákæruvaldið hefur gefið út kæru í slíkum málum og farið með þau að hætti opinberra mála. Þarna er ég að tala um heimilisofbeldið.
    Án efa yrðu slík mál fleiri ef fórnarlömbin nytu þeirrar lögfræðiaðstoðar sem þau þurfa svo nauðsynlega á að halda til að þekkja sinn rétt og tryggja góða meðferð sinna mála. Nauðgunarmálanefndin svokallaða lagði einmitt ríka áherslu á að koma þyrfti á þeirri nýskipan að fórnarlömb kynferðisbrota ættu fortakslausan rétt til þess að njóta endurgjaldslausrar aðstoðar löglærðs talsmanns allt frá upphafi rannsóknar og þar til meðferð málsins lýkur. Um slíkan löglærða talsmann segir m.a. í skýrslu nefndarinnar:
    ,,Er hér ekki einungis átt við þær brotategundir sem nauðgunarmálanefnd fjallar um`` --- þ.e. nauðgun og önnur brot gegn kynfrelsi kvenna --- ,,heldur einnig önnur alvarleg kynferðisbrot, einkum sifjaspell og hvers konar brot gegn börnum. Í tengslum við þetta nýmæli er æskilegt að heimila jafnframt skipun talsmanns með sömu kjörum og að framan greinir í málum vegna líkamsárása og brota gegn frjálsræði manna og friðhelgi einkalífs.``
    Og þeir segja: ,,Lögfesta þarf nýjan kafla í lög nr. 74/1974 um bæði þessi atriði.`` En það eru lögin sem þá voru í gildi. Svo segir:
    ,,Lögfræðiaðstoð sú sem hér um ræðir er endurgjaldslaus, þ.e. þóknun talsmanns yrði greidd af ríkinu. Hins vegar er það álitamál hvort eðlilegt sé að innheimta hana af sakborningi með öðrum sakarkostnaði. Gera þarf bæði lögreglu og neyðarmóttöku skylt að benda brotaþola eða konu á rétt sinn til að fá löglærðan talsmann í síðasta lagi áður en formleg skýrslutaka af henni fer fram.``
    Þetta er úr skýrslu nauðgunarmálanefndar.
    Nú vil ég taka undir þessi orð og gera það raunar að aðalatriði míns málflutnings að þetta fyrirkomulag sem þarna er lýst verði tryggt í lögum um meðferð opinberra mála. Ég legg áherslu á að það nýtist ekki aðeins fórnarlömbum nauðgana heldur ekki síður þeim sem verða fyrir heimilisofbeldi af ýmsu tagi og í málum sem tengjast sifjaspellum og þar sem börn eiga fyrst og fremst í hlut.
    Önnur atriði sem nefndin gerði tillögur um varðandi lög um meðferð opinberra mála varða m.a. frjálst sönnunarmat, hvenær falla megi frá málssókn, rétt brotaþola til að með mál verði farið fyrir luktum dyrum, fréttabann á persónulegar upplýsingar af brotaþola, skýrslutöku án þess að hinn brotlegi sé nálægur og að brotaþola verði tryggð greiðsla þeirra bóta sem honum eða henni eru dæmdar. Um sönnunarmatið segir m.a. í skýrslu nauðgunarmálanefndar:
    ,,Ekki er mælt með því að hrófla mikið við grundvallarreglum íslensks réttar um sönnun, þ.e. um sönnunarbyrði ákæruvaldsins og frjálst sönnunarmat ákæruvalds og dómstóla. Hér er þó gerð tillaga um frávik frá frjálsu sönnunarmati varðandi fyrri kynferðishegðun brotaþola að fyrirmynd margra annarra ríkja, sbr. t.d. 2. mgr. 185. gr. dönsku réttarfarslaganna. Er sönnunarfærsla um fyrri kynhegðun brotaþola þar yfirleitt útilokuð nema hún teljist hafa verulega þýðingu í máli sem til umfjöllunar er.``
    Um meðferð mála hjá ríkissaksóknara segir að nefndin telji æskilegt að skilgreina betur í lögum heimildir ríkissaksóknara til niðurfellingar mála. Nefndin segir reyndar að lagaákvæðin þurfi að vera almenn og taka til allra brotategunda og síðan segir:
    ,,Enn fremur leggur nefndin til að ákæruvaldinu eða ríkissaksóknara verði gert skylt að rökstyðja niðurfellingu mála út af ætluðum hegningarlagabrotum og alvarlegum refsilagabrotum og kynna kæranda eða brotaþola niðurstöðu málsins.``
    Um heimildir til málsmeðferðar fyrir luktum dyrum segir að þær séu reyndar til staðar en um notkun þeirra allra fer eftir ákvörðun dómara: ,,Veita þarf brotaþola eða talsmanni hans í kynferðisbrotamáli skýlausan rétt til að krefjast þess að með mál verði farið fyrir luktum dyrum. Telja verður afar mikilsvert að brotaþoli geti frá upphafi treyst því að um lokað réttarhald sé að ræða og það sjónarmið eigi að ganga framar grundvallarreglunni um opinbera málsmeðferð.``
    Þá er hér lögð áhersla á að setja heimild í lög um skýrslutöku af brotaþola án návistar hins brotlega. Síðan segir líka um fréttabann að það eigi að setja fortakslaust fréttabann á persónulegar upplýsingar brotaþola nema knýjandi nauðsyn sé til að birta slíkar upplýsingar opinberlega.
    Um tryggingu bótagreiðslna segir: ,,Nauðsynlegt er að mati nefndarinnar að tryggja það með einhverjum hætti að brotaþoli, kona, fái þær bætur sem dómstólar dæma henni. Sársaukaminnsta aðferðin fyrir brotaþola er sú að ríkið taki á sig að greiða slíkar bætur og endurkrefja síðan dómþola.``
    Síðar segir að það sé sanngjarnt að ríki taki á sig þetta aukaómak í stað þess að gera brotaþola eða konu þá auðmýkingu að þurfa að rekast í innheimtu bóta og með þessari tilhögun sýni samfélagið ákveðna viðurkenningu á því að brotið hafi verið alvarlega gegn henni og það vilji stuðla að því í verki að hún haldi reisn sinni.
    Eftir að nefndin sendi þetta frá sér voru lögin um meðferð opinberra mála endurskoðuð, eða árið 1991, en því miður var ekki tekið nægilegt mið af tillögum nefndarinnar við þá endurskoðun. Þannig er nú tilgreint í lögum hvenær falla megi frá saksókn en ekki gerð krafa um annan rökstuðning en þann að í tilkynningu ákæranda skuli tiltekið við hvaða lagagrein ákvörðun um niðurfellingu styðjist. Dómari getur líka ákveðið að dómþing skuli haldið fyrir luktum dyrum, m.a. til hlífðar brotaþolum. Hann getur bannað opinbera frásögn af atriðum sem fram koma í þinghaldi. Hann getur vikið sakborningi úr þinghaldi en brotaþoli á enga kröfu eða rétt á slíkri tillitssemi samkvæmt þessum lögum. Mjög mikilvægt er að skilgreina þennan rétt með skýrum hætti í lögum svo að brotaþoli upplifi ekki dómsmeðferð málsins eins og nauðung eða andlegt ofbeldi, sem því miður eru allt of mörg dæmi um.
    Virðulegur forseti. Það er mat mitt og flm. þessarar tillögu að hér sé afar brýnt mál á ferðinni sem ætti þó að vera einfalt að leysa ef vilji er fyrir hendi hjá Alþingi og ríkisstjórn. Má segja að miðað við það hversu langt er síðan nauðgunarmálanefnd skilaði sínum skýrslum, þá hafi það dregist úr hömlu.

    Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.