Staða brotaþola við meðferð kynferðisbrotamála

147. fundur
Þriðjudaginn 30. mars 1993, kl. 17:44:54 (6585)

     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Ég þakka flm. þessarar tillögu fyrir að hreyfa þessu máli á Alþingi. Það er að sjálfsögðu mikilvægt að gera sér grein fyrir og vekja athygli á því hversu mikið vandamál þarna er um að ræða og þörfin brýn að reyna að bæta úr því. Næg er ógæfa þeirra sem í þessu lenda þó að allt sé gert sem í mannlegu valdi stendur til að draga úr afleiðingunum eftir því sem kostur er. Hins vegar hljótum við öll að vera sammála um að það verður aldrei bætt fyrir það tjón sem hefur orðið í þessum tilvikum þó að reynt verði að draga úr afleiðingunum eins og ég sagði. Að í mínu mati hlýtur það að vera langmikilvægast að gera allt sem í mannlegu valdi stendur til þess að draga úr tíðni þeirra hörmulegu atvika sem oft má segja að verði í þessum málum.
    Það kom fram hjá hv. frsm. að orsökin er langoftast áfengisneysla. Hér er því einu sinni enn vakin athygli á því á Alþingi hversu dýrkeypt hún er fyrir þjóðfélagið og hversu margar og slæmar afleiðingar hún hefur. Því tel ég það skyldu Alþingis og ríkisvalds að gera það sem í þeirra valdi stendur til að draga úr áhættunni. Það verður að sjálfsögðu aðeins gert á þann eina hátt að sýna það í verki að menn telji að þarna sé um mikla vá að ræða.
    Eins og ég sagði áður er aldrei hægt að bæta að fullu fyrir þann skaða sem verður við ofbeldisatburði, hvers eðlis sem þeir eru. Ég vil því, um leið og ég endurtek þakklæti mitt til flm. fyrir að vekja athygli á þessu máli og skyldu þjóðfélagsins að reyna að bæta fyrir afleiðingarnar, nota tækifærið að brýna fyrir okkur öllum, flm. þessarar tillögu eins og öðrum, að leggja sitt lóð á vogarskálarnar til þess að draga úr áhættunni að svona atburðir gerist og fækka þeim eins og kostur er.