Staða brotaþola við meðferð kynferðisbrotamála

147. fundur
Þriðjudaginn 30. mars 1993, kl. 17:48:36 (6586)

     Flm. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hv. 2. þm. Suðurl. fyrir góðar undirtektir við þessa tillögu. Ég get sannarlega verið sammála honum um að aðalatriði í þessum málum hlýtur að vera að draga úr tíðni þessara afbrota og almennt hljótum við að geta sameinast um að það sé mjög brýnt mál að draga úr ofbeldi í samfélaginu í hvaða mynd sem það birtist. Þingmaðurinn gat þess að ég hefði sagt að orsökin væri langoftast áfengisneysla. Reyndar voru það ekki mín orð heldur las ég það upp úr svari Rannsóknarlögreglu ríkisins við fyrirspurn sem ég bar fram í fyrra um heimilisofbeldi. Það var mat Rannsóknarlögreglunnar að þar væri áfengisneysla mjög oft undirrótin. Ég veit að það er rétt. Áfengisneysla er einn orsakaþátturinn í þessu en alls ekki sá eini. Þar kemur fleira til og því miður er það allt of algengt að menn sem a.m.k. eiga að heita allsgáðir beiti ofbeldi og þá er ég ekki síst að tala þar um heimilisofbeldið.
    Þá virðast ofbeldismenn líka koma úr öllum stéttum og hópum þjóðfélagsins öfugt við það sem margir álíta að óathuguðu máli. Flestir álíta að ofbeldismennirnir séu fyrst og fremst úr lægstu stéttum þjóðfélagsins eða þeim stéttum þar sem við mikil vandamál er að stríða en það er ekki svo. Þetta kom m.a. fram í Ríkisútvarpinu 8. mars sl. í viðtali sem var við starfsmann Stígamóta. Þar segir, með leyfi forseta: ,,Þolendur og gerendur koma úr öllum stéttum og hópum þjóðfélagsins. Athygli vekur að gerendur eru í sumum tilfellum mjög ungir, jafnvel allt niður á grunnskólaaldur.`` --- Þá er verið að tala um nauðgunarmál. --- ,,En miðað við erlendar rannsóknir má ætla að fjölmörg mál af þessu tagi liggi í þagnargildi en þær benda til að á milli 10 og 20% kvenna verði fyrir kynferðisofbeldi á ævinni. Þá er talið að um fjórðungur fórnarlamba kynferðisofbeldis séu karlar en aðeins tæp 6% þeirra sem leituðu til Stígamóta í fyrra voru karlar.`` Svo virðist sem karlar sem verða fyrir kynferðisofbeldi, og þá eru það sjálfsagt oftast ungir drengir, eigi sér einhvern veginn ekkert athvarf í þessum málum eða lítið skjól. Mér segir svo hugur að að hluta til geti það stafað af því hvernig farið er með þessi mál í réttar- og dómskerfinu. Þar sé brotaþolum í slíkum málum ekki sýnd nægileg tillitssemi.
    Svo ég nefni eitt dæmi enn um það hvernig þessum málum er háttað þá er sláandi að lausleg skoðun sýnir að nú þegar hafa komið jafnmargar konur í Kvennaathvarfið það sem af er þessu ári og nánast allt árið 1990 og ekki er liðinn nema fjórðungur þessa árs. Ég ætla ekki að fara með neinar tölur í þessu sambandi en þetta virtist fljótleg skoðun sýna hver svo sem ástæðan er fyrir því. Ekki eru til skýringar á því hvað veldur, hvort sem það er sú kreppa sem við eigum við að etja núna eða meiri umræða. Auðvitað er mjög alvarlegt mál ef það er svona mikið ofbeldi í samfélaginu sem hefur þá í rauninni verið dulið um nokkurn tíma.