Ábyrgðir á lífeyrisgreiðslum Sambandsins

148. fundur
Miðvikudaginn 31. mars 1993, kl. 13:54:56 (6604)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Það er hafið yfir allan vafa og allt pólitískt karp að ástandið í þjóðfélaginu hefur ekki um langan aldur verið jafnválegt og nú. Það kom fram á fundi með hæstv. fjmrh. á Hótel Borg á dögunum að þegar fyrsti þriðjungur ársins er liðinn vantar um fjóra milljarða í ríkissjóð til þess að fjárlög fái staðist. Þá á eftir að koma í ljós hvað yfirstandandi kjarasamningar koma til með að kosta. Og þegar ástandið er orðið á þennan veg er áframhaldandi skriða óumflýjanleg en sú umræða á eftir að fara fram undir öðrum dagskrárlið því að ljóst er að þingið getur ekki farið heim fyrr en fjáraukalög hafa verið afgreidd.
    Nýlega hljóp ríkisstjórnin til og styrkti stöðu Landsbanka Íslands með 4 milljörðum kr. Samkvæmt upplýsingum fjmrn. er enn óafgreitt í hvaða formi þessar greiðslur skuli vera og hvernig eða hvort þessir milljarðar komi fram á fjár- eða fjáraukalögum. Alla vega batnar fjárlagahallinn sem nú er um 10 milljarðar ekki við það. Ekki hafði þetta fyrr verið gert en fréttir komu fram á Stöð 2 um skuldbindingar Lífeyrissjóðs samvinnumanna og Sambands ísl. samvinnufélaga upp á 800 millj. kr. vegna eftirlauna og örorkubóta 20 forstjóra og framkvæmdastjóra sambandsfyrirtækja.
    Ranglætið og ójöfnuðurinn í samfélagi okkar ættu engum að koma á óvart, ekki heldur starfsmönnum Sambandsins sem hljóta 18--20 þús. kr. að loknum áratuga starfsdegi. ( Forseti: Hljóð í salnum.) Og það er víst fullkomlega leyfilegt að stöndug fyrirtæki bjóði slíkan fögnuð þreyttum forstjórum, frá 529 þús. kr. á mánuði og niður í 330 þús. kr. En varla verður með sanngirni sagt að Lífeyrissjóður samvinnumanna né SÍS séu stöndug fyrirtæki enda segir Bjarni Þórðarson tryggingafræðingur í úttekt sem Sambandið lét gera á stöðu lífeyrissjóðsskuldbindinga sinna svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ég tel hins vegar fullvíst að sjóðurinn verði að grípa til slíkra ráðstafana, þ.e. skerðingar lífeyris, í framtíðinni en ekki er ljóst hve mikil sú skerðing verður. Raunar voru réttindi maka skert með breytingu á reglugerð á síðasta aðalfundi samvinnulífeyrissjóðsins en skerðing á lífeyri í sjóðnum þýðir einfaldlega að þyngri byrðar leggjast á SÍS og

hlutafélögin.``
    En af hverju er verið að ræða vandamál SÍS á Alþingi?
    Í umræddri frétt sem birtist á Stöð 2 sagði Hallur Hallsson fréttamaður svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Samkvæmt okkar heimildum þá er fyrirmyndin að flóknum og metnaðarfullum lífeyrisréttindum SÍS-toppanna héðan úr Landsbankanum. Einsýnt þykir að Landsbankinn tapi milljónum á upplausn SÍS sem sjálft heyrir sögunni til eftir milljarða taprekstur síðustu ára og þarf nú að standa skil á lífeyri til toppanna fyrir hundruð milljónir.``
    Hann sagði enn fremur: ,,Þessar 800 millj. rúmar falla í hlut 20 manna, tveggja forstjóra og átján framkvæmdastjóra. Fyrir utan að borga í Lífeyrissjóð SÍS eins og sambandsfólk almennt voru toppunum tryggð lífeyrisréttindi upp á tugi milljóna í tilviki hvers og eins. Þessum skuldbindingum var dreift á þau hlutafélög sem stofnuð voru þegar Sambandið var leyst upp, fyrirtæki eins og Íslenskar sjávarafurðir og Olíufélagið, sterk félög eignalega og svo önnur veikari eins og Miklagarð, Jötun og Samskip. Móðurfélagið SÍS tók á sig 150 millj., en hlutafélögin 300 millj. Vandséð er hvernig staðið verður í skilum við toppana og jafnvel má búast við að einhverjir missi spón úr aski sínum. Því fyrir utan að SÍS standi illa þá eru sum hlutafélögin sem tóku á sig byrðar veikburða félög eins og t.d. Mikligarður og skráð var á núllvirði í síðustu ársskýrslu. Þá má til að mynda nefna Jötun þar sem hlutabréf eru skráð undir nafnverði.``
    Þetta sagði fréttamaðurinn Hallur Hallsson í umræddri frétt.
    Hér er sem sagt fullyrt að verulegur hluti þessara ævintýralegu skuldbindinga vegna eftirlauna 20 manna falli hugsanlega á Landsbanka Íslands við yfirtöku bankans á hlutafélögum sem stofnuð voru þegar Sambandið leystist upp. Því hlýt ég að spyrja: Voru milljarðarnir sem Alþingi samþykkti Landsbankanum til styrktar fyrir fáeinum vikum kannski að hluta til til þess að halda þessum fáránlegu greiðslum úti? Það kynni að vera áhugavert fyrir landsmenn að vita það. Gæti það ekki verið forvitnilegt fyrir starfsmennina 500 sem nú hefur verið sagt upp störfum hjá Miklagarði að vita hvað Landsbankinn er að fjármagna þegar þeir leita fyrirgreiðslu bankans vegna húsnæðisskulda sinna?
    Hæstv. forseti. Það skal skýrt tekið fram að ég er ekki að halda því fram að Landsbankinn eða aðrir bankar séu með þessar ábyrgðir á herðunum. Það hljóta hæstv. ráðherrar hins vegar að vita. Ég reyndi að afla mér þessara upplýsinga hjá Landsbanka, Seðlabanka og bankaeftirliti, og vísaði þar hver á annan. Enginn vissi neitt. Það þætti tæpast góð fjármálastjórn á venjulegu heimili að yfirtaka skuldir frá öðrum án þess að vita hversu miklar þær eru en í ríkiskerfinu er öll vanþekking leyfileg. Í hvert sinn sem reynt er að afla upplýsinga um fjármálasukkið í þessu landi smjúga menn eins og álar í djúpan hyl og hver vísar á annan og milljarðasukkið heldur áfram á sama tíma og 4 milljarðar kr. eru greiddar í ár úr ríkissjóði í atvinnuleysisbætur ef svo fer sem horfir.
    Hæstv. forseti. Hversu lengi getur lítið samfélag eins og okkar búið við það fáránlega ranglæti sem við horfum hér framan í? Hvað á einn maður að gera við 6,8 millj. á ári í eftirlaun? Og hvað átti hann reyndar að gera við 10 millj. meðan hann var í starfi? Varla var það bónus fyrir að skila blómlegu búi?
    En heyrum hvað Sigurður Markússon segir í grein í Morgunblaðinu 25. þessa mánaðar, með leyfi hæstv. forseta. Hann hefur grein sína á þessum orðum:
    ,,Stöð 2 hefur nýlega gert að umtalsefni eftirlaunasamninga við framkvæmdastjóra og forstjóra Sambands ísl. samvinnufélaga. Öllum má ljóst vera að hér hefur sjónvarpsstöðin tekið til umfjöllunar trúnaðarskjöl sem komið hefur verið á framfæri í þeim tilgangi einum að skaða Sambandið og gera tortryggilega þá einstaklinga sem hér eiga hlut að máli. Að dómi Stöðvar 2 hafa þessir einstaklingar það til sakar unnið að hafa sett nöfn sín undir samninga sem eiga sér fyrirmyndir á fjölmörgum sviðum þjóðlífsins, svo sem í stjórnsýslu hins opinbera, í bankakerfinu og í viðskiptalífinu.``
    Það kynni þá að vakna sú spurning hversu víða í stjórnkerfinu samningar um slíkar eftirlaunagreiðslur tíðkast. Ég geri ráð fyrir að Sigurður Markússon þekki nokkuð til og hafi þar eitthvað til síns máls. Það væri svo sannarlega áhugavert að vita hvaða höfðingjar njóta þessara sérréttinda sem engum öðrum réttindum eru lík í þessu samfélagi.
    En síðar í grein sinni lýsir Sigurður tilurð þessara sérkennilegu samninga og hann segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þeir eftirlaunasamningar, sem nú eru í gildi, voru gerðir í nóvember 1981. Var þar um að ræða endurskoðun á fyrri samningum sem rekja má til ársins 1975. Þá kom það nýmæli inn í kjör framkvæmdastjóra að þeim var gert að hætta störfum við 65 ára aldur og hefur þetta haldist svo síðan. Nú verður sá fyrir verulegri skerðingu lífeyris úr almennum lífeyrissjóði sem hættir störfum 65 ára í stað 70 ára og má vel vera að sérstakur eftirlaunasamningur hafi verið boðinn af fyrirtækisins hálfu til að bæta þann vanda. Samkvæmt fyrri samningunum (1975) tók 35 ár að ávinna sér hámarksréttindi, sem voru 75% af launum, en samkvæmt seinni samningunum (1981) styttist tíminn í 15 ár en prósentan hækkaði úr 75 í 80%. Mér hefur verið tjáð, að við gerð beggja þessara samninga hafi verið stuðst við fyrirmyndir úr ríkiskerfinu, en eflaust hefur það einnig haft sín áhrif að samningar af þessu tagi eru vel þekktir í einkageiranum. Þeir samningar, sem gerðir hafa verið við nýja framkvæmdastjóra eftir 1981 en fyrir skipulagsbreytingu Sambandsins um áramót 1990--1991, hafa verið samhljóða samningunum frá 1981.``
    Allt er þetta hið sérkennilegasta mál og væri fróðlegt að vita í hvaða ríkisfyrirtæki þessi fyrirmynd Sambandsins er sótt.
    Um skuldbindingar Sambandsins í árslok 1991 segir Sigurður Markússon, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í árslok 1991 telur Bjarni Þórðarson tryggingafræðingur að heildarskuldbindingar gagnvart 20 samningshöfum séu 688 millj. kr. Þar af koma 228 millj. kr. í hlut Samvinnulífeyrissjóðsins en 460 millj. kr. í hlut Sambandsins og fyrirtækja þess. Í ársreikningi Sambandsins fyrir árið 1991 er raunar talað um 450 millj. kr. og stafar mismunurinn, 10 millj. kr., af skuldbindingum sem falla á aðra lífeyrissjóði en Samvinnulífeyrissjóðinn. Af fjárhæðinni 460 millj. kr. sitja 147 millj. kr. eftir hjá Sambandinu en 313 millj. kr. færast yfir til átta fyrirtækja.``
Því hlýtur næsta spurning að vera: Hvar eru þau fyrirtæki niður komin nú, hver hefur tekið þessar skuldbindingar að sér?
    Sigurður Markússon á augljóslega í erfiðleikum með að verja þessar gerðir og ég vil, úr því að ég hef verið að lesa úr grein hans í Morgunblaðinu, leyfa mér að lesa lokaorð hans svo öll sanngirni sé sýnd. Hann segir þar, hæstv. forseti:
    ,,,,Tímarnir breytast og mennirnir með`` segir gamall málsháttur. Eftirlaunasamningar Sambandsmanna á árinu 1975 voru afurð síns tíma og slíkt hið sama má segja um samningana frá árinu 1981. Það hvarflar ekki að mér að nokkur vinnuveitandi á samvinnusviði mundi bjóða upp á hliðstæða samninga í dag og það hvarflar heldur ekki að mér að nokkur launþegi mundi í dag skrifa undir eftirlaunasamning sem ekki teldist bærilega tryggður með árlegum iðgjöldum. Ég hef lýst því verklagi sem samvinnumenn vilja stefna að í þessum efnum, þ.e. hóflegri kjör og tryggari greiðslur. Sú spurning hlýtur að vakna hvort þjóðfélagið í heild sé reiðubúið til að ráðast í þann uppskurð á lífeyriskerfum fortíðarinnar sem löngu er orðinn tímabær.``
    Þetta segir Sigurður Markússon 25. mars sl. en í Morgunblaðinu 30. mars, fimm dögum síðar, er fyrirsögn sem hljóðar svo: ,,Útlit er fyrir að erfiðleikar Miklagarðs rýri eignarhlut Sambandsins.`` Og fyrirsögnin er: ,,Engar tryggingar fyrir eftirlaunasamningum.``
    Þar vill Sigurður Markússon stjórnarformaður Sambandsins ekkert tjá sig um þetta mál að öðru leyti en því að leggja áherslu á að allir þeir sem eigi þessi réttindi sitji við sama borð ef það komi á daginn að eignir hrökkvi ekki fyrir öllum eftirlaunaskuldbindingum.
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki lengja mál mitt meira, ég vænti þess að hæstv. fjmrh. geri hér grein fyrir því hvort eitthvað af þessu mikla fjármagni, 20 mönnum til handa, hafi dæmst á Landsbanka Íslands og einnig væri áhugavert að vita í hvaða forgangsröð slíkar skuldbindingar fara við gjaldþrot þeirra fyrirtækja sem tekin eru í gjörgæslu bankans. Þessar spurningar hljóta að vera eðlilegar með hliðsjón af því að milljarðar kr. hafa

verið teknir til hjálpar Landsbanka Íslands og það hlýtur að vera réttur hvers einasta Íslendings að fá að vita hvort eitthvað af því fjármagni verður notað til að halda uppi þessum fáránlegu eftirlaunakröfum 20 manna.