Ábyrgðir á lífeyrisgreiðslum Sambandsins

148. fundur
Miðvikudaginn 31. mars 1993, kl. 14:31:08 (6607)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að hreyfa þessu máli. Það er vissulega full þörf á því að ræða lífeyrissjóðsmál þjóðarinnar almennt. Það sýna jafnframt öll þau mál sem hafa komið inn í þingið um bæði lífeyrissjóðsmál hinna ýmsu stétta og eftirlaun og nú liggja óafgreidd í þinginu. Þetta mál brennur því vissulega á mörgum.
    Hún gat þess hér í upphafi að staða þjóðarbúsins væri erfið og hér væri um stórar fjárupphæðir að ræða sem e.t.v. tengdust því framlagi sem ríkissjóður mun hugsanlega leggja af mörkum til Landsbanka Íslands. Ég held að það sé óhætt að trúa því sem hér hefur komið fram að Landsbankinn hefur ekkert með það að gera og það tengist ekki því framlagi sem ríkissjóður mun husanlega leggja fram sem verður kannski ekkert framlag heldur pappírsframlag, ef svo má segja. Eins og hæstv. fjmrh. upplýsti hér áðan er fyrirhugað að það verði skuldabréf sem þurfi að greiða í framtíðinni og virðist hæstv. ríkisstjórn því vera að búa hér til fortíðarvanda fyrir framtíðina.
    Þeir samningar sem við höfum verið að ræða hér í sambandi við lífeyrissjóðsmál sambandsforstjóra eru bundnir samningum sem gerðir voru fyrir 12 árum. Í grein Sigurðar Markússonar í Morgunblaðinu 25. mars segir að þeir hafi verið gerðir samkvæmt því sem þá tíðkaðist og eftir fyrirmyndum úr ríkiskerfinu, eins og hann segir. Raunar segir hæstv. fjmrh. að honum sé ekki kunnugt um það en einhverjar fyrirmyndir virðast þó hafa

verið við gerð þessara samninga. Nú er ég ekki ein af þeim sem legg til að við gerða samninga sé ekki staðið þannig að meðan þessir samningar gilda er trúlega ekkert annað að gera en standa við þá. Þeim hefur ekki verið rift á lögformlegan hátt.
    Eins og ég sagði í upphafi, þá hafa lífeyrissjóðamál oft verið til umræðu í þjóðfélaginu og misskipting lífeyrisþega í framhaldi af því. Misskipting lífeyrisþega í þjóðfélaginu er geysilega mikil. Sumir þjóðfélagshópar hafa bæði allsæmilegan lífeyri og eftirlaun aðrir hafa lítið og enn aðrir ekki neitt. Ég nefni einn hóp í þjóðfélaginu sem engin lífeyrisréttindi hefur og það er heimavinnandi fólk. Það hefur engin lífeyrisréttindi og enn hefur ekki verið á því tekið hvernig með þau mál skuli fara í framtíðinni. Tel ég nauðsynlegt fyrir hið háa Alþingi að ræða það einnig í tengslum við þá umræðu um lífeyrissjóðamál sem hér verður á næstu vikum.
    Hvað varðar þessi lífeyrissjóðsmál að öðru leyti, sem hv. frsm. gerði hér að umtalsefni, þá er mér kunnugt um að þegar Landsbankinn keypti Samvinnubankann voru 100 millj. til í sjóði hjá Samvinnubankanum til að standa undir greiðslum vegna eftirlauna og þegar bankinn var keyptur var bætt við 100 millj. kr. til viðbótar til þess að þær skuldbindingar sem Samvinnubankinn hefði á þeim tíma væru örugglega nægilega hátt metnar. Margir forsvarsmenn Samvinnubankans voru reyndar ekki sáttir við þetta. Þeir töldu þetta ofmetið þegar Landsbankinn keypti Samvinnubankann En allt um það, þá var þetta jafnvirði 200 millj. kr. á þeim tíma.
    Það hefur nokkuð verið til umræðu að starfsmenn Samvinnubankans gengju inn í Lífeyrissjóð Landsbanka Íslands en það hefur þó ekki gerst enn þá. Þeir eiga sín réttindi í Samvinnulífeyrissjóðnum og hafa síðan fengið lífeyrissjóðsréttindi í Lífeyrissjóði bankans eftir að þeir byrjuðu þar störf. Þeirra réttindi eru því metin á hverjum stað fyrir sig.
    Þegar Sambandinu var breytt í þau mörgu fyrirtæki sem gert var þegar það var stokkað upp var Mikligarður skilinn eftir, þ.e. Mikligarður fylgdi ekki með þeim fyrirtækjum sem Landsbankinn tók upp í skuldir, eins og hægt er að kalla það. Eins og við vitum er mikið rætt um það nú að Mikligarður sé jafnvel kominn til gjaldþrotaskipta. Ég er ekki alveg með það á hreinu hvort það er orðin staðreynd en alla vega er það í umræðunni að loka og búið að segja þar upp starfsfólki. Hins vegar á Landsbankinn húsið sem Mikligarður starfar í, þ.e. Holtagarðana, vegna þess að Landsbankinn fékk fyrirtækið Regin í þessum kaupum og Reginn á húsið, bæði Holtagarða og eins húsnæðið uppi á Höfða.
    Ég held, eins og ég sagði, að það sé gott að ræða hér um hversu mikil misskipting er í þjóðfélaginu í lífeyrismálum yfirleitt og nauðsyn þess að samræma lífeyrissjóðina og skoða þau réttindi sem menn hafa áunnið sér og hvernig hægt er að fara með lífeyrissjóðina til framtíðar. Því eitt er það sem við á Alþingi munum þurfa að skoða líka í framtíðinni og það er Lífeyrissjóður ríkisstarfsmanna sem mun vera með hundruð milljóna skuldbindingar ef allt væri reiknað upp. Hins vegar, eins og hæstv. fjmrh. sagði hér áðan, þá er mjög erfitt að reikna upp skuldbindingar lífeyrissjóða því að þá er náttúrlega um leið verið að gera því skóna hvað hver og einn lífeyrisþegi muni lifa lengi sem á að fá úr þeim lífeyrissjóði. Ég hugsa þess vegna að það sé mjög erfitt að setja lífeyrissjóðsskuldbindingar inn í ríkisreikning og yfirleitt inn í reikninga fyrirtækja.