Ábyrgðir á lífeyrisgreiðslum Sambandsins

148. fundur
Miðvikudaginn 31. mars 1993, kl. 14:40:07 (6608)

     Árni M. Mathiesen :
    Frú forseti. það mál sem hér er til umræðu er einungis einn lítill angi af miklu stærra vandamáli sem er vandi lífeyrissjóða landsmanna allra. Þetta er meira að segja ómerkilegur angi en hann er þó táknrænn þar sem valdamenn innan Sambandsins hafa verið að koma sér undan þeim vanda sem á öðrum hefur brunnið. Vandinn hefur að sjálfsögðu verið fólginn í því hversu lélega ávöxtun lífeyrissjóðirnir gátu unnið sér inn á verðbólguárunum, sem við vonum að nú séu liðin, þegar neikvæðir raunvextir rýrðu þann sparnað sem launamenn lögðu fyrir í lífeyrissjóði sína.
    Hér er einnig um að ræða hinn gríðarlega mikla rekstrarkostnað þess fjölda lífeyrissjóða sem í landinu eru vegna skylduaðildar launamanna að sjóðum í vörslu verkalýðsfélaga. Síðast en ekki síst er vandinn fólginn í misræmi á lífeyrisréttindum þeirra sem starfa

hjá hinu opinbera og þeirra sem starfa á almennum markaði.
    Við þingmenn Sjálfstfl. höfum látið okkur þessi mál nokkuð varða á þessu þingi og flutt um það nokkur þingmál. Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson og fleiri þingmenn fluttu þáltill. um það að afnumin yrði tvísköttun á lífeyrissjóðsiðgjöldum. Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson o.fl. hafa flutt frv. um það að lífeyrissjóðsréttindi verði hjúskapareign hjóna og ég hef sjálfur ásamt hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni flutt um það þáltill. að starfandi mönnum sem greiða í lífeyrissjóði verði heimilt að velja um það í hvaða sjóði þeir greiða og jafnframt verði opnað á þann möguleika að aðrar fjármálastofnanir, svo sem bankar, sparisjóðir og tryggingafélög, geti veitt sömu þjónustu og lífeyrissjóðir veita nú. Hv. þm. Guðni Ágústsson, þingmaður Framsfl., o.fl. hafa flutt frv. sama efnis.
    Ég held að lausnar á þessum mikla lífeyrissjóðsvanda sem við sjáum fyrir okkur sé að leita á grundvelli þessara þingmála sem ég hef hér nefnt. Ég vona, hæstv. forseti, að sú umræða sem hv. 14. þm. Reykv. hefur hér upp vakið leiði til þess að þessi þingmál fái bæði skjóta og vandaða meðferð á yfirstandandi þingi.