Ábyrgðir á lífeyrisgreiðslum Sambandsins

148. fundur
Miðvikudaginn 31. mars 1993, kl. 14:42:59 (6609)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Þau svör sem hæstv. ráðherrar hafa gefið hér í þessari umræðu eru nokkuð sérkennileg. Í fyrsta lagi hefur það komið fram hjá hæstv. fjmrh. að það sé ekki ljóst nú hvernig verði farið með stuðning ríkisins við Landsbankann eftir að þingið hefur samþykkt lög um það efni. Engu að síður hefur það komið fram í blöðum, að ég held í gær, að bankaráð Landsbankans og hæstv. viðskrh. hafa undirritað ársreikning bankans fyrir árið 1992. Hvað ætli það hafi oft verið sagt hér í umræðum af hæstv. ráðherrum að það væri ekki hægt að ganga frá ársreikningum Landsbankans fyrir en árið 1992 fyrr en það lægi ljóst fyrir með hvaða hætti ríkið mundi ganga til liðsinnis við bankann? Nú er það upplýst í þessum umræðum að hæstv. viðskrh. er búinn að undirrita ársreikningana fyrir 1992, bankaráðið er búið að ganga frá þeim en fjmrh. veit ekki enn þá í hvaða formi aðstoð ríkisins við Landsbankann verður. Það segir mér a.m.k. að það hlýtur að vera afar sérkennilegur frágangur á ársreikningum Landsbankans fyrir árið 1992 og væri mjög fróðlegt að fá nánari upplýsingar um það hvernig hefur verið gengið frá ársreikningunum. Kannski hefur það verið gert með því að vísa til einhverra hugsanlegra aðgerða á árinu 1993. Það kemur satt að segja mjög á óvart að búið sé að ganga frá ársreikningum Landsbankans og taka tillit til aðstoðar ríkisins en fjmrh. veit ekki enn þá í hvaða formi hún er.
    Í öðru lagi er það nokkuð sérkennilegt að hæstv. fjmrh. segir hér að Landsbankinn hljóti að hafa vitað um þessar lífeyrisskuldbindingar og eftirlaunaskuldbindingar þegar gengið var frá yfirtöku hlutabréfa sem Sambandið fór með í hinum ýmsu fyrirtækjum. Það er nokkuð sérkennilegt að hæstv. fjmrh. virðist ekki hafa rætt það beint við Landsbankann eða beðið viðskrh. að ræða það beint við Landsbankann hvort bankinn hafi gert sér grein fyrir þessu og þá með hvaða hætti. Einkum og sér í lagi í ljósi þess að fyrir skömmu voru samþykkt lög á Alþingi þar sem stendur í 6. gr. að fjmrh. fái heimild til þess að setja ýmis skilyrði og skilmála fyrir aðstoð við bankann.
    Ég nefni þetta hér vegna þess að nýlega kom fram að þær upplýsingar sem Landsbankinn hafði um fyrirsjáanlegt rekstrartap á einu af þessum hlutafélögum, Samskipum hf., reyndist vera allt annað fáeinum vikum síðar en bankanum var sagt þegar hlutabréfin í Samskipum voru metin. Sagt er að það skakki nokkur hundruð milljónum á því hverjar voru hinar endanlegu tölur og þær sem Landsbankanum voru látnar í té fáeinum vikum áður. Ef upplýsingarnar um rekstrarstöðu Samskipa voru svo óáreiðanlegar sem raun bar vitni við matið á hlutabréfunum, þá vekur það a.m.k. upp spurningar hvort allt hafi verið lagt á borðið varðandi eftirlaunaskuldbindingarnar. Og það er rangt hjá hæstv. ráðherrum að eftirlaunaskuldbindingarnar hafi engin áhrif á stöðu Landsbankans. Ég vil rökstyðja það með eftirfarandi hætti:
    Landsbankinn er nú meginhluthafi nokkurra hlutafélaga þar sem þessar eftirlaunaskuldbindingar eru inni. Auðvitað hlýtur það að hafa áhrif á markaðsgildi hlutabréfanna í þessum hlutafélögum hverjar skuldbindingarnar eru þannig að sá aðili sem hyggst kaupa

þessi hlutabréf af Landsbankanum hlýtur að meta það hvaða skuldbindingar fylgja í kaupunum. Og þegar ljóst er að a.m.k. eitt af þessum fyrirtækjum hefur skilað mun meira tapi en Landsbankinn mat þegar hann yfirtók hlutabréfin þá er alveg ljóst að hlutfallslegt vægi þessara skuldbindinga í hugsanlegu endursöluvirði hlutabréfanna frá Landsbankanum hefur aukist. Hins vegar er það rétt að enginn getur fullyrt hve mikið. Það er alveg ljóst. En það er ekki hægt að standa hér af hálfu hæstv. ráðherra og segja að þessar skuldbindingar komi ekkert við stöðu bankans. Auðvitað hljóta þær að gera það. Það er a.m.k. mjög hæpið fyrir ráðherra að segja það þegar þeir fyrir fáeinum dögum báðu þingið um heimild til þess að styrkja bankann út á mat endurskoðenda á hugsanlegu tapi í framtíðinni af lánum til nokkur hundruð aðila. Sú afgreiðsla, sem var hér í þinginu, var ekki byggð á því að Landsbankinn hefði tapað 4 millj., alls ekki. Hún var byggð á mati um það hvað kynni að gerast í framtíðinni.
    Þess vegna get ég ekki séð hvernig hægt er að líta fram hjá því að með einum eða öðrum hætti hljóta þessar skuldbindingar að koma til álita þegar eignarvirði og markaðsvirði hlutabréfa Landsbankans í þessum fyrirtækjum er metin. Landsbankinn yfirtók þessi hlutabréf á tilteknu verði. Ef endursölumöguleikar bankans eru slíkir að hlutabréfin hljóta að seljast á lægra verði, þá er alveg ljóst að bankinn mun tapa einhverjum fjármunum vegna þess. Og af því að lífeyrisskuldbindingar hljóta að koma inn í markaðsmatið, þá tengjast þær með einum eða öðrum hætti markaðsmatinu og þar með hugsanlegu tapi bankans ef endursöluverð hlutabréfanna verður minna en kaupverðið. Ég verð þess að vegna að segja alveg eins og er að ég bara skil ekki hvernig ráðherrarnir geta fundið það út að þetta komi stöðu Landbankans ekkert við.
    Hitt er svo annað mál að það getur enginn fullyrt hér og nú hvað það er mikið í upphæðum. Það getur verið lítið en það getur líka verið töluvert.
    Það má vel vera að endursöluverð Landsbankans á hlutabréfunum verði hærra en matsverðið á sínum tíma þannig að bankinn styrki stöðu sína við að hafa yfirtekið hlutabréfin í þessum fyrirtækjum Sambandsins, svo ég nefni nú líka þann möguleika. Aðalatriðið er að með því að yfirtaka þetta hlutafé eru eftirlaunaskuldbindingarnar orðinn þáttur í stöðu Landsbankans að einhverju leyti. Og það er held ég nauðsynlegt að ræða þetta, virðulegu ráðherrar, vegna þess að það er gert ráð fyrir því í væntanlegri lagasetningu á Alþingi að heimila viðskiptabönkunum að yfirtaka fyrirtæki með rýmri hætti en þeim hefur verið heimilað áður. Þar með hljóta lífeyrisskuldbindingar einkafyrirtækja við forstjóra sína og stjórnendur að hafa þannig áhrif á hugsanlega yfirtöku viðskiptabankanna á hlutafélögum og einkafyrirtækjum á næstu árum ef lagaheimildir verða samþykktar eins og ríkisstjórnin hefur lagt til og stuðningur er við á Alþingi í öllum flokkum. Svo málið er ekki einstakt heldur getur leitt til margvíslegra annarra hliðstæðra dæma á næstu árum.
    Í þriðja lagi skil ég ekki alveg orðanotkun hæstv. fjmrh. þegar hann segir að hann kannist ekki við hliðstæð dæmi í stjórnkerfinu. Nú er það að vísu þannig að það er hægt að skilgreina hugtakið stjórnkerfi þannig að það eigi eingöngu við ráðuneytin og aðrar opinberar stofnanir í þrengri merkingu. En ef við skilgreinum stjórnkerfið í víðtækri merkingu sem þann vettvang þar sem ríkið er afgerandi aðili, þá er hægt að telja til stjórnkerfisins ríkisbankana, opinbera lánasjóði, sem eru að meiri hluta til í eigu ríkisins, Seðlabankann, Landsvirkjun og fyrirtæki eins og t.d. Íslenska aðalverktaka þar sem ríkið er nú meirihlutaaðili. Það er alveg ljóst að í flestum ef ekki öllum þessum stofnunum eða fyrirtækjum sem ríkið á að einhverju eða öllu leyti og ég hef hér nefnt hafa tíðkast lífeyrisskuldbindingar sem eru úr takt við það sem gerist hjá almennum starfsmönnum ríkisins og hafa verið notaðar sem fordæmi einkaaðila eins og Sambandsins við að ákveða skilmála af þessu tagi. Það hefur komið fram að forsvarsmenn Sambandsins hafa vísað til þess að í viðskiptabönkunum, sem þá voru allir opinberir bankar og allir ríkisbankar, hafi tíðkast skilmálar sem þeir hafi tekið sem fordæmi.
    Ég vil líka nefna það hér að það hefur verið sagt að innan Íslenskra aðalverktaka hafi tíðkast og tíðkist kannski enn mjög ríflegar ákvarðanir varðandi eftirlaun bæði stjórnarformanns Íslenskra aðalverktaka og forstjóra. Það væri a.m.k. mjög fróðlegt að fá það upplýst hverjar hafa verið lífeyrisskuldbindingar og eftirlaunaskuldbindingar Íslenskra aðalverktaka gagnvart stjórnarformönnum og forstjórum þess fyrirtækis og hvort þær hafa tekið breytingum við að ríkið varð meirihlutaaðili í þessu fyrirtæki. Ég reikna kannski ekki með því að hæstv. fjmrh. eða viðskrh. geti svarað því hér og nú en það væri a.m.k. mjög fróðlegt að fá það til samanburðar. Þess vegna finnst mér að þau svör sem hæstv. ráðherrar hafa gefið hér, sem hafa, ef maður dregur þau saman í eina setningu, nánast verið á þann veg að vísa málinu frá sér, ekki vera alveg með réttum hætti.
    Þetta mál snertir stjórnkerfið með margvíslegum hætti. Það snertir stöðu Landsbankans með einhverjum hætti. Enginn veit að vísu með hve miklum og það er alveg ljóst að fordæmin fyrir þessum gjörningi innan Sambandsins hafa verið sótt á vettvang þar sem ríkisvaldið er afgerandi ákvörðunaraðili. Ég held að það væri þess vegna mjög þarft verk að láta gera yfirlit yfir það hverjar eru skuldbindingar t.d. allra fyrirtækja sem skráð eru á verðbréfamarkaði hvað eftirlaunaskuldbindingar snertir. Nú eru þó nokkur fyrirtæki sem hafa skráð sig á verðbréfamarkaði. Þar með ætti það að vera réttur hluthafa að fá opinberar upplýsingar um það hvaða skuldbindingar af þessu tagi hafa verið gerðar. Við þekkjum það t.d. að innan viðskiptabankanna tíðkaðist það löngum að færa ekki til útgjalda framlög sem bankinn ætti með réttu að leggja í sjóði til þess að geta staðið undir lífeyrisskuldbindingum starfsmanna sinna í framtíðinni. Nú hefur að vísu sem betur fer orðið þar breyting á en það tíðkaðist ekki hér áður fyrr. Það eru því fjölmörg dæmi þess að ekki hefur verið gerð glögg grein fyrir því, annaðhvort á aðalfundum gagnvart hluthöfum eða í reikningum, með hvaða hætti einkafyrirtæki eða opinber fyrirtæki hafa tekið að sér eftirlaunaskuldbindingar af því tagi sem hér eru til umræðu.