Ábyrgðir á lífeyrisgreiðslum Sambandsins

148. fundur
Miðvikudaginn 31. mars 1993, kl. 14:56:15 (6610)


     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að ræða mikið um þá 20 toppa í SÍS sem eru til umræðu undir þessum lið því að ég geri mér grein fyrir því að þeir eru spegilmynd þess samfélags sem við lifum í, þess samfélags sem hefur leyft sér í gegnum áratugi að byggja á miklum mismun á milli toppanna í þjóðfélaginu og alþýðunnar í landinu. Það væri kannski hollt undir þessum umræðum fyrir hv. alþm. að líta í spegil sinn og spyrja sig sjálfa að því hvað Alþingi Íslendinga hafi gert, t.d. á síðustu 15 árum, til þess að jafna þennan mismun sem ríkir í þjóðfélaginu. Nefnd eftir nefnd hefur skoðað lífeyrissjóðsmál landsmanna en allar tillögur sem frá þeim hafa komið hafa verið svæfðar og ekki náð fram hér á Alþingi. Það er vaxandi skilningur í þjóðfélaginu fyrir því að á þessu sviði er þjóðinni mjög misskipt. Forstjórarnir eiga sína sjóði. Þeir eiga sína eftirlaunasamninga og það getur oltið á því í framtíðinni hvort fyrirtæki lifa eða deyja hversu lengi þeir lifa í hárri elli. Þessi er staðan í íslensku samfélagi. Þarna er SÍS ekkert öðruvísi en hinir. Það er eitt dæmið um mismununina sem hér ríkir.
    Forstjórarnir eiga sína sjóði. Ráðherrarnir og alþingismenn eiga sína sjóði. Sjóðir alþingismannanna eru ekki digrir um þessa mundir. Þó er það svo að 118 millj. voru greiddar úr sjóðum alþingismanna og ráðherra á síðasta ári. Ríkisstarfsmenn búa við betri kjör en almúginn. Stór hluti landsmanna býr við þær aðstæður, og er að vakna upp við það, að þrátt fyrir að 10% af laununum renni til lífeyrissjóðanna, þá verða þeir gjaldþrota þegar að dyrunum er komið. Það verður ekki króna í mörgum sjóði ASÍ-félagans þegar hann ætlar að fá eftirlaunin sín. Og þrátt fyrir háar greiðslur er staðan sú að menn eru að fá úr lífeyrissjóðum 20--40 þús. á mánuði. Og það er enginn mismunur á milli mannsins sem hefur greitt til sjóðsins og hins sem hvergi hefur greitt í lífeyrissjóð því að Tryggingastofnun og ríkið sjá um að bæta mismuninn. Ávinningurinn virðist því enginn hafa verið.
    Alþingismenn hafa ekki tekið undir brtt. í þinginu. Verkalýðsforustan hefur sofið á verðinum. Atvinnulífið hefur sofið á verðinum og öllum er að verða ljóst að í lífeyrissjóðakerfinu er ekki bara mismunun, eins og blasir við í dag og er verið að ræða um hér í dag og hætta af þeim, heldur er innan þessa kerfis, ef það heldur svona áfram, ein mesta kjaraskerðingarsprengja sem mun skella á þessari þjóð innan skamms ef menn ekki taka

við sér og leiðrétta þennan mismun. Og það er ekki bara kjaraskerðingarsprengja sem þarna liggur fyrir heldur er einnig í lífeyrissjóðakerfinu vaxtasprengja.
    Lífeyrissjóðirnir hafa sjálfir sagt á hinum almenna markaði: Við þurfum ekki 10% af laununum til að standa við okkar skuldbindingar. Við verðum að fá 18--22% af laununum til þess að geta staðið við skuldbindingar okkar gagnvart félögum okkar. Þess vegna er þetta mál, sem við ræðum undir þessum lið, mjög stórt og ég blanda mér ekki mikið í þá umræðu En ég nota tækifærið til að harma þann svefndrunga sem hefur legið yfir þinginu í þessu máli.
    Ég minnist þess að þegar ég var að ræða lífeyrismál á síðustu árum var ekki þétt setinn bekkur í þessum sal. Þing eftir þing flutti ég þáltill. um eftirlaunasjóði einstaklinga og hvenær sem ég hóf máls tæmdist salurinn. ( GHelg: Þetta er alveg rétt.) Menn vildu ekki ræða þessi mál á þeim degi. En nú er sem betur fer bæði launafólkið, atvinnurekendurnir og alþingismennirnir að átta sig á að þarna er eitt stærsta mál sem þeim ber að taka á, ekki seinna en strax.
    Þess vegna fagna ég þeirri viðhorfsbreytingu sem orðið hefur í þessu þjóðfélagi. Mér finnst kannski að enginn hafi betur skýrt þann vanda sem blasir við í þessu samfélagi þegar hann ræðir um vaxtamál en Benedikt Davíðsson, forseti ASÍ. Hann gerir sér grein fyrir því að í lífeyrissjóðakerfinu er vaxtasprengja og hann hefur sagt: Ég geri mér grein fyrir því að lífeyrissjóðirnir hafa verið að reyna að bæta stöðu verðbólguáranna með því að krefja um háa vexti á síðustu 5--6 árum. Þetta gengur ekki upp, segir Benedikt Davíðsson, því að Ísland þarf atvinnulíf og unga fólkið þarf atvinnu og þess vegna þurfum við að hugsa og starfa öðruvísi.
    Nú vill svo til, og á það hefur verið minnst, að við þrír þingmenn Framsfl., hv. alþm. Finnur Ingólfsson og Halldór Ásgrímsson ásamt mér, höfum lagt hér fram mjög ítarlegt frv. til umræðu á næstu dögum í þinginu. Það er unnið með færustu mönnum og boðar miklar breytingar, mikið jafnræði og forðar þessu þjóðfélagi væntanlega, ef að lögum verður, frá þeirri vaxtasprengju sem liggur í eftirlauna- og lífeyrissjóðakerfinu og frá þeirri kjaraskerðingarsprengju sem í því liggur. Ég ætla ekki að ræða þetta mál við þessar aðstæður en vænti þess að frv. komi fljótlega á dagskrá. Það var mitt erindi að um leið og það er sjálfsagður hlutur að gera sér grein fyrir því hver staða Landsbankans er vegna þeirra erfiðleika sem þeir hafa átt í vegna fyrirtækja Sambandsins og eftirlauna, þá vildi ég vekja athygli á þetta er bara brot af okkar litla samfélagi. Þetta blasir hvarvetna við og það blasir við að forustufólkið í samfélaginu leyfir sér það á 15 ára tímabili að hafa samið um það á liðnum árum að ná 90% af rétti í einum lífeyrissjóði á fætur öðrum. Það er ömurlegt til þess að hugsa að stór hópur þessara forustumanna fær eftirlaun úr mörgum sjóðum um leið og þeir hætta að starfa. Þá fá þeir þessa upphæð sem hér er verið að ræða um að SÍS-forstjórarnir fái: 400, 500, 600 þús. kr.
    Alþýðan á Íslandi gerir þá kröfu nú að Alþingi þori að gera hreint fyrir sínum dyrum, þori að marka löggjöf og þori að taka á lífeyrissjóðunum í landinu, marka þeim farveg og skapa hagræðingu innan þeirra því að rekstur þeirra kostar í dag 650 millj. Þarna verður að vera hagræðing. Frv. liggur hér albúið og ég lýsi því yfir að ég hlakka til þeirrar umræðu þegar okkur alþingismönnum gefst þess kostur nú að taka langa umræðu um lífeyrissjóðsmál, en það munum við gera þegar frv. okkar framsóknarmanna verður rætt á næstu dögum.