Ábyrgðir á lífeyrisgreiðslum Sambandsins

148. fundur
Miðvikudaginn 31. mars 1993, kl. 15:07:08 (6611)

     Guðmundur Hallvarðsson :
    Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli í utandagskrárumræðu svo mjög sem það er nú í umfjöllun meðal almennings sem eðlilegt er.
    Það var athyglisvert að hlusta á síðasta ræðumann geta þess að verkalýðsforingjar og aðrir hefðu verið sofandi á verðinum og unnið með slíkum hætti sem raun ber vitni í sambandi við stöðu lífeyrissjóða almennt í landinu í dag. Hann hefði kannski átt að spyrja sjálfan sig að því: Hvaða umboð höfðu þessir stjórar SÍS til að gera slíka samninga varðandi lífeyrisréttindi þessara forstjóra Sambandsins sem raun ber vitni? Voru það einhverjir bændahöfðingjar sem sátu á rökstólum við þessa forstjóra og gerðu þessa samninga? Eða gerðu þeir þetta sjálfir?
    Það er annað líka sem er eðlilegt að taka í umræðunni og við skulum ekki fara langt frá kjarna málsins. Hann er kannski beint um stöðu Lífeyrissjóðs SÍS. Hvar stendur það fólk sem greiðir í þennan sjóð í dag? Ég veit t.d. að yfirmenn á kaupskipaflota fyrrverandi Sambandsins, sem nú heitir Samskip, greiða í þennan lífeyrissjóð en líklega er nokkuð af hans fjármunum núna í steinsteypu í húsi sem heitir Kirkjusandur. Hvernig ætlar sá lífeyrissjóður að standa við sínar skuldbindingar?
    Það hefur eflaust oft verið rætt um lífeyrissjóði í þessum sal í gegnum árin eins og hv. síðasti ræðumaður kom inn á. En mér er minnisstætt að í vetur var til umræðu mál í sambandi við Lífeyrissjóð sjómanna. Ég gat þess að stjórnarmenn þess sjóðs ætluðu og vildu starfa af ábyrgð og sjá svo um að sá lífeyrissjóður gæti staðið við skuldbindingar sínar. Ýmsar voru þá athugasemdirnar sem fram komu en þegar ég nefndi það að hér væru menn sem ekki þyrftu að hafa neinar áhyggjur af Lífeyrissjóði alþingismanna því hann kæmi úr vösum skattborgarans var gerð athugasemd við að ég skyldi vera að blanda því máli saman. En það er einn þátturinn í öllu þessu lífeyrissjóðskerfi að alþingismenn skuli vinna sér inn sama rétt á fjórum árum sem aðra opinbera starfsmenn tekur sex ár að vinna sér inn. Þetta vandamál er því ekkert utan veggja hér. Alþingismenn hafa forréttindi umfram aðra þjóðfélagsþegna og við skulum líta í okkar eigin barm. Ef menn á annað borð eru tilbúnir til þess að taka á þessum vanda, þá er eðlilegt að það sé gert alls staðar í þjóðfélaginu og ekkert undan skilið.
    Það sem er kannski eitt af aðalvandamálum lífeyrissjóðanna er sú skuldbinding sem þeir hafa tekist á hendur varðandi örorkubætur. Það eru lífeyrissjóðir, eins og Lífeyrissjóður sjómanna, sem standa frammi fyrir því að greiða jafnmikið í örorkubætur og hann greiðir í ellilífeyri. Þá hlýtur að koma upp í huga manna hvort það sé eðli lífeyrissjóðanna að greiða örorkubætur, hvort það sé ekki Tryggingastofnunar ríkisins.
    Það er ósköp eðlilegt að starfsfólk Sambandsins velti vöngum yfir því hvaða höfðingjar sátu við samningaborðið þegar samið var við forstjóra SÍS um skuldbindingar sem eru, að fréttir segja, 40--70 millj. Það er ósköp eðlilegt að fólk spyrji sjálft sig: Hvers vegna hef ég, almennur launamaður hjá Sambandinu, þessi kjör á móti þeim sem stjórnuðu? Hverjir sátu við samningaborðið? Hverjir höfðu umboð til að ganga frá svona samningi?
    Jú, málið er vont. Það ber öllum saman um. En sá lífeyrisréttur, sem fyrrverandi starfsmenn Sambandsins hafa og þeir sem jafnvel enn greiða í þann lífeyrissjóð, er vissulega áhyggjuefni. Það hlýtur að vera skylda ríkisstjórnarinnar að taka á þessu máli og skoða lífeyrissjóðsmál Sambandsins í heild sinni kannski fyrst og fremst, en á síðari stigum er eðlilegt að lífeyrissjóðskerfi landsmanna allra sé skoðað.
    Þegar menn eru að tala um að verkalýðsforingjar hafi sofið á verðinum og ekki hugað nóg að því að lífeyrissjóðir gætu staðið við skuldbindingar sínar þá vita menn miklu betur. Þeir vita betur en þeir eru að segja. Fortíðarvandi lífeyrissjóðanna er sá vandi sem blasir við. Það var á meðan menn héldu um stjórnvölinn og létu verðbólgubálið loga glatt. Það er sá vandi lífeyrissjóðanna sem við blasir.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að taka meiri tíma í þessar umræður en ég hlýt að ætla að þær skuldbindingar, sem hafa verið gerðar varðandi lífeyrisréttindi fyrrverandi stjóra SÍS, hljóti að standa. Ég trúi því ekki að það sé rétt að kröfur varðandi áunnin lífeyrissjóðsréttindi séu ekki forgangskröfur. Ef það er rangt hjá mér þá held ég að allir stjórnendur lífeyrissjóða í landinu og allir launþegar sem greiða í lífeyrissjóð séu í einhverri kórvillu. Ég hef alltaf verið þess fullviss að það sem ég og mínir hafa greitt í lífeyrissjóð sé forgangskrafa sé um vanefndir að ræða.
    Við skulum ekki fara langt frá kjarna málsins sem er sá sem snýr að fólkinu í landinu og snýr að því fólki sem um áratugaskeið hefur greitt í lífeyrissjóð Sambandsins, sem hugsanlega eru litlir peningar í til að standa við skuldbindingar sínar. Það er eitt stórt hús

sem heitir Kirkjusandur og nóg af steinsteypu líklega til þess að tryggja fyrrverandi starfsmönnum SÍS elliréttindi sín.