Ábyrgðir á lífeyrisgreiðslum Sambandsins

148. fundur
Miðvikudaginn 31. mars 1993, kl. 15:36:34 (6615)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Hæstv. forseti. Ég ætla hér að gera þrennt að umtalsefni. Í fyrsta lagi vegna orða hv. 8. þm. Reykn. vil ég gera nokkra grein fyrir því hvernig staðið verður við eflingu eiginfjárstöðu Landsbanka Íslands. Það mátti skilja hv. þm. svo að honum væri ekki ljóst hvernig að þessu væri staðið. Ég vil fullvissa hann um að það er með öllu ljóst hvernig að þessu verður staðið.
    Ég rifja það upp að með lögum nr. 16/1993, sem samþykkt voru fyrir rúmlega tíu dögum, voru samþykktar ráðstafanir til þess að efla eiginfjárstöðu innlánsstofnana. Þar var ríkissjóði sérstaklega heimilað að treysta eiginfjárstöðu Landsbankans. Landsbankinn skrifaði svo viðskrn. 24. þessa mánaðar og óskaði eftir því að heimild Alþingis yrði nýtt. Ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun um þetta mál og kynnt hana Landsbankanum. Það var gert með bréfi 26. þessa mánaðar. Með leyfi hæstv. forseta, ætla ég að lesa þau atriði bréfsins sem hér skipta mestu máli og hefst þá sú tilvitnun:
  ,,1. Ríkisstjórnin hefur samþykkt að veita Landsbankanum 2.000 millj. kr. fjárhagsaðstoð. Hún verður innt af hendi með skuldabréfi til 20 ára sem ber vexti. Samið verður um nánari kjör á bréfinu. Skuldabréfið verður gefið út á sama tíma og undirritaður verður samningur viðskrh. og fjmrh. annars vegar og Landsbankans hins vegar um það til hvaða ráðstafana bankinn skuldbindur sig að grípa í því skyni að bæta afkomu sína og eiginfjárstöðu. Er stefnt að því að samkomulag þetta verði undirritað í apríl 1993.
    2. Þá mun Landsbankinn óska eftir því við stjórn Tryggingarsjóðs viðskiptabanka að sjóðurinn veiti bankanum víkjandi lán í því skyni að efla eiginfjárstöðu hans. Komi tilmæli um það frá stjórn sjóðsins mun ráðherra samþykkja lánveitingu að fjárhæð allt að 1.000 millj. kr. að fullnægðum þeim skilyrðum sem lög mæla fyrir um.
    3. Viðskrh. mun beina því til Seðlabankans að víkjandi lán hans til Landsbankans að fjárhæð 1.250 millj. kr. verði óbreytt þar til nánara samkomulag hefur tekist milli bankanna um endurgreiðslu. Náið samráð verður haft við fjmrn. og Seðlabankann um frekari framgang þessa máls.``
    Hér lýkur tilvitnun minni í bréf viðskrn. Ég vil láta þess getið að undirbúningur og framkvæmd þessa máls er í góðum farvegi. Það er á þessum grundvelli sem endurskoðendur Landsbankans og ríkisendurskoðandi staðfestu það með áritun sinni að eftir þessar ráðstafanir nemi eiginfjárhlutfall Landsbankasamstæðunnar 9,33%.
    Með þessu vona ég að ég hafi svarað hv. 8. þm. Reykn. og upplýst að ekkert er óljóst í málinu og allt gert á grundvelli þeirra laga sem Alþingi hefur nýlega samþykkt.
    Í öðru lagi vil ég víkja að því sem einnig kom fram í máli hv. 8. þm. Reykn. þar sem hann enn leiðir orð að því að eftirlaunasamningarnir, sem við erum hér að ræða, muni á einhvern hátt lenda á Landsbankanum. Þar vil ég aðeins endurtaka og ítreka að Landsbankinn hefur ekki yfirtekið þessa eftirlaunasamninga. Hann viðurkennir þá ekki sem forgangskröfu og þann veg hefur verið litið á þá í því mati sem fram hefur farið þegar bankinn yfirtekur hlutabréfin og þar með í mati á verðgildi þeirra. Kjarni málsins er að sjálfsögðu sá, frá þessu þrönga sjónarmiði, að bankinn viðurkennir þá ekki sem forgangskröfu. Þetta er alveg hreint og skýrt, getur ekki skýrara verið.
    Hvað það varðar hver áhrif slíkir samningar hafi á verðgildi þeirra hlutabréfa sem mynda félögin sem slíka samninga bera þá hefur verið tekið tillit til þess í þeim samningum sem Landsbankinn hefur gert. Hins vegar mun að sjálfsögðu síðar reyna á hvort tveggja, hvernig markaðsverð verður fyrir slík hlutabréf og hvað þessar framtíðarskuldbindingar munu þýða sem í eftirlaunasamningunum felast. Aðalatriðið er þetta: Þetta eru ekki forgangskröfur. Landsbankinn hefur ekki yfirtekið þessa samninga.
    Ég vík svo í þriðja lagi að því sem skiptir einna mestu máli í umræðunni, hvert sem upphaf hennar er, og það er þörfin fyrir ítarlegar umræður, athuganir og tillögur um samræmt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn þar sem reynt verði að sameina sanngjörn eftirlaun og valfrelsi fólks til að velja sér lífeyrissparnaðarform um leið og hugað er að því mikilvæga hlutverki sem lífeyrissjóðirnir gegna, ekki bara fyrir mannréttindi fólks heldur líka á fjármagnsmarkaðnum sem mikilvægasta uppspretta peningalegs sparnaðar í okkar landi.
    Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að það hefur sóst afar hægt að koma fram heillegum umbótum á þessu sviði. Það störfuðu að þessu máli lengi stórar nefndir, m.a. ein svokölluð sautján manna nefnd sem starfaði á árunum 1976--1986. Ég var nokkuð við það starf riðinn, sat í þessari nefnd og var reyndar varaformaður hennar og formaður undirnefndar hennar, nefndar sem henni var tengd, svokallaðrar átta manna nefndar sem einkum starfaði með Alþýðusambandinu, Farmanna- og fiskimannasambandinu og tengdum félögum. Það var ávöxtur þessa starfs að fram kom lífeyrissjóðafrv. á árinu 1987. Það fól í sér samræmdar starfsreglur fyrir lífeyrissjóði sem ekki eru til eins og er. Það fól líka í sér ákveðnar kröfur um ávöxtun sjóðanna og samræmda réttindamyndun. Ég held að ekki sé ofmælt að segja að þar hafi verið lögð fram góð og gild heildartillaga í málinu. Hins vegar togast þarna á margvíslegir hagsmunir og eftir nokkurt árabil, að mig minnir á árinu 1990, e.t.v. var það ekki fyrr en á árinu 1991, skipaði þáv. fjmrh., hv. 8. þm. Reykn., enn stærri nefnd til að fjalla um þetta mál, 25 manna hagsmunaaðilanefnd. Þessi nefnd hefur því miður ekki skilað neinum árangri í sínu starfi. Ég held reyndar að sú hugmynd að

mynda stórar nefndir í þessu máli þar sem allir hagsmunaaðilar eru með fulltrúa muni ekki skila árangri.
    Það má ekki úr því draga hversu mikilvægt það er að við tökum á þessu máli. Það er allt í senn að þetta margbrotna lífeyrissjóðakerfi er of dýrt, réttindamyndunin er ekki samræmd eða sanngjörn og ávöxtun sjóðanna er ekki sú sem vera þyrfti. Það er þarna mörg brotalöm sem mikilvægt er að verði úr bætt. Ég held að það sé mjög mikilvægt, eins og hér hefur komið fram, ekki síst hjá hv. 11. þm. Reykn. og málshefjanda, hv. 14. þm. Reykv., að þetta er mál sem sannarlega er þörf á að löggjafinn láti til sín taka.