Ábyrgðir á lífeyrisgreiðslum Sambandsins

148. fundur
Miðvikudaginn 31. mars 1993, kl. 15:44:46 (6617)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég byrja að gera örstutta athugasemd varðandi málsmeðferð. Það hefur verið vaninn ef umræður utan dagskrár skv. seinni mgr. 50. gr. hafa verið takmarkaðar þá hafi ræðutíma milli stjórnmálaflokka verið skipað í upphafi og í það minnsta tilkynnt í upphafi umræðu að svo yrði. En í upphafi þessarar umræðu var ekkert tilkynnt annað en að þessi umræða færi fram skv. 2. mgr.
    Ég hafði ekki hugsað mér að blanda mér mikið inn í þessa umræðu. Ég geri það þó af tilefni ræðu hv. 3. þm. Reykv., Björns Bjarnasonar, áðan. Ég leyfi mér að varpa þeim spurningum til þingmannsins hvað hann eigi við með því þegar hann lýsir undrun sinni á því að ekki skyldi hafa verið tekin til umræðu fyrr á Alþingi sú uppstokkun sem átt hefur sér stað hjá Sambandi ísl. samvinnufélaga á síðustu tveimur árum. Sú uppstokkun sker sig að mínu mati nánast ekki á nokkurn hátt frá mörgu öðru sem verið hefur að gerast í okkar atvinnulífi á síðustu mánuðum. Menn hafa verið að breyta um félagsform og setja rekstur í hlutafélög sem áður voru á aðalrekstri Sambandsins. Það er að vísu mín skoðun og ég hef haldið því fram alla tíð eftir að ég fór að mæta á aðalfundi Sambandsins að það sé nokkuð sem menn hefðu átt að vera búnir að gera fyrir löngu og í rauninni allt of seint gripið til þeirra aðgerða.
    Einnig nefndi hv. þm. að það væri eðlilegt að hér ræddu menn skuldbindingar sem af þessu uppgjöri hlytust og kæmu beint á skattborgara. Það er mjög eðlilegt að spyrja hv. þm. hvað hann eigi við með þeim ummælum.
    Einnig ræddi þingmaðurinn að störf 400 manna í væru upplausn vegna hugsanlegrar breytingar á rekstri Miklagarðs. Það er engin nýlunda hér á síðustu mánuðum og allra síst eftir að sú ríkisstjórn sem hv. þm. styður að atvinnuleysi fari stórvaxandi vegna þess hvernig staðið er að atvinnulífinu. Væntanlega er það svo að ef þörf er á þeim verslunarrekstri öllum sem nú er á höfuðborgarsvæðinu þá muni einhverjir aðrir taka við þeim rekstri (Forseti hringir.) og þeir aðilar sem þarna missa vinnuna fá þá vinnu annars staðar.
    Virðulegur forseti. Nú spyr ég hvers vegna klingir bjallan? ( Forseti: Forseti hefur tekið fram að um það var samið að þessari umræðu lyki um kl. 16 og við það verður að standa. Málshefjandi á rétt á því að tala í lok umræðunnar og sá ráðherra sem er í forsvari og hv. þm. sér að þar mun tímanum verða lokið.) Virðulegur forseti. Nú hlýt ég að spyrja eftir hvaða grein þingskapa hv. þingforseti slær í bjöllu hjá ræðumanni. ( Forseti: Hv. þm. veit að það er mjög algengt að samið sé um það þrátt fyrir að leyft sé að tala utan dagskrár skv. 2. mgr. þessarar greinar þá er eigi að síður samið um það ljúka umræðu fyrir tiltekinn tíma og svo var gert nú.) Ég hlýt að minna virðulegan forseta á að þegar þessi umræða hófst var ekkert tilkynnt annað en hún færi fram skv. 2. mgr. 50. gr. þingskapa. Engin tilkynning var gefin um skiptingu ræðutíma milli þingflokka eins og ætíð hefur verið gert ef samið er um skerðingu ræðutíma. Ég mun hins vegar, virðulegur forseti, ljúka máli mínu. ( Forseti: Forseti fer eigi að síður fram á við hv. þm. að hann hraði ræðu sinni

og ljúki henni.) Það mun ég gera en ég hlýt, virðulegur forseti, að lýsa yfir að hér er um afar sérstök vinnubrögð hjá forseta að ræða sem ég þekki ekki önnur dæmi um þann tíma sem ég hef setið á Alþingi.
    Virðulegur forseti. Ég átti ekki mikið eftir af minni ræðu, ég varpaði þessum spurningum til hv. 3. þm. Reykv. og ég vænti þess að hann svari þeim. ( BBj: Ég hef ekki tök á því, því miður. ) Hv. þm. þarf ekki . . .   ( Forseti: Hv. þm. fær ekki heimild til þess.) Virðulegur forseti, þá hlýtur maður eiginlega að spyrja til hvers þessi umræða fari fram? Ég hlýt að biðja virðulegan forseta að hugleiða mjög vandlega þau vinnubrögð sem hér eru höfð í frammi. Ef takmörkun ræðutíma við slíka umræðu á að koma eingöngu niður á þeim ræðumönnum sem síðast kveðja sér hljóðs þá eru það algerlega óviðunandi vinnubrögð.
    En að lokum til hv. 3. þm. Reykv. Væntanlega þyrfti þá að fara hér fram umræða um æðimörg fyrirtæki og æðimarga starfshætti í þjóðfélaginu ef svo ætti að vera í hvert skipti sem rekstur er stokkaður upp eða lendir í vandræðum. Ég man ekki betur en fyrirtæki á fyrirtæki hafi ofan komist í þrot og ýmist verið hlaupið undir bagga og bjargað til að bjarga kannski mannorði manna. Bókaútgáfur hafa verið komnar á hausinn þegar farið hefur verið af stað með víðtæka björgunaraðgerð. Það væri því víða hægt að koma við ef hv. þm. vill fara í þessa umræðu í þeim tón sem hann gaf upp áðan.