Ráðherraábyrgð

148. fundur
Miðvikudaginn 31. mars 1993, kl. 18:43:06 (6627)


     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Mér finnst sjálfsagt að nefnd skoði það mál vandlega sem hér hefur verið mælt fyrir. Mér fannst hv. þm. gefa ráðherrum fullmikið svigrúm þegar hann sagði að menn gætu að sjálfsögðu farið frjálslega með sannleikann hér eftir sem hingað til á fundum og í fjölmiðlum heima og erlendis. Ég held að við hljótum nú öll að gera ráð fyrir að menn leitist við af fremsta megni að fara sæmilega rétt með, bæði þingmenn og ráðherrar. Reyndar er það svo að það eru ekki margar starfsstéttir sem hafa meira aðhald en einmitt ráðherrar um að skjöplast ekki og segja satt vegna þess að þingmenn halda ráðherrum jú við efnið og fjölmiðlar nútímans halda mönnum stíft við efnið. Það er leikur sjónvarpsmanna að taka setningar eftir ráðherrum til að mynda sem sagðar eru á tilteknum tíma og spila þær hlið við hlið við hinar nýrri setningar og geta menn farið illa út úr því stundum.
    Þá er einnig rétt að hafa í huga að ráðherrar geta orðið að lúta pólitískri ábyrgð. Þeir þurfa stuðning í þinginu. Og auðvitað er það svo að ef ráðherrar væru margoft uppvísir að því að fara rangt með og vera ósannorðir mjög þá mundi menn ekki fýsa að styðja þá. Þó láta menn sér eitt og annað duga í þeim efnum og ég vitna til þess að hæstv. málshefjandi sagði í ræðu um tiltekinn ráðherra, sem hann studdi með ráðum og dáð, 11. febr. 1991, með leyfi forseta.
    ,,Frú forseti. Hér hefur nú hæstv. fjmrh. vaðið elginn með ósannindum og fúkyrðum í hátt á annan klukkutíma.``
    Og aftur: ,,Ég er búinn að þekkja þennan hæstv. ráðherra í 20 ár. Sem betur fer hefur hann ekki verið ráðherra nema skamman tíma af þeim tíma. Ég er þaulvanur að hlusta á ósannindin í honum.``
    Hv. þm. hélt áfram að styðja þennan farsæla ráðherra sem svo hafði talað í 20 ár með samfelldan vaðal af ósannindum og lét sig ekkert muna um það í herrans mörg ár þar á eftir.