Vegaframkvæmdir í Vestur-Barðastrandarsýslu

149. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 10:46:39 (6637)


     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Um leið og ég þakka þessa fsp. og svar hæstv. ráðherra þá vil ég vekja athygli á því að einmitt nú í sumar verður unnið að stórátaki í vegamálum á sunnanverðum Vestfjörðum með því að lokið verður uppbyggingu vegarins yfir Hálfdán. Hér er auðvitað um að ræða gríðarlega breytingu fyrir allt þetta svæði. Þetta undirstrikar hins vegar líka nauðsyn þess að við höldum síðan áfram við það að byggja upp veginn yfir Kleifaheiði og á Barðaströnd. Og eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda þá er býsna mikil umferð einmitt á þessum vegi. Ég vil vekja athygli á því að samkvæmt því sem fram kom í máli hennar þá aka 90 bílar alla daga ársins að meðaltali um þennan veg þrátt fyrir að hluta úr árinu er þessum vegi ekki haldið opnum nema hluta af vikunni. Það segir okkur að á mörgum tímum ársins, t.d. yfir sumarið er þarna gífurlega mikil umferð og þess vegna mikil nauðsyn að laga núna á næstu sumrum þá stuttu kafla en slæmu sem eru núna farartálmar á veginum. Ég geri mér grein fyrir að nokkur bið verður á því að hægt verði að leggja þarna varanlegt slitlag en nauðsynlegt er að hraða þess vegna á þeim tíma endurbótum og viðhaldi eins og hægt er af því fé sem við höfum til ráðstöfunar til þess arna.