Samkeppnisráð

149. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 10:54:40 (6642)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Hæstv. forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr hverjar séu helstu ástæður þess að ég hafi kosið að skipa framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambands Íslands, Þórarin V. Þórarinsson lögfræðing, einn fimm aðalmanna í samkeppnisráði. Einnig er spurt hvort ráðherra óttist ekki að álitamál kunni að rísa um hæfi framkvæmdastjórans, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna þess efnis að ráðsmenn skulu vera óháðir fyrirtækjum eða samtökum sem lögin taka til.
    Því er fyrst til að svara að við skipun hins nýja samkeppnisráðs var að sjálfsögðu reynt að finna til starfa í því einstaklinga sem eru til þess fallnir að marka hinu nýja ráði virðingu og áhrif í okkar samfélagi um leið og þeir væru óháðir fyrirtækjum eða samtökum sem lögin taka til. Þórarinn V. Þórarinsson er án alls efa slíkur maður. Hann sat í verðlagsráði og hefur átt mikinn þátt í þeirri jákvæðu þróun sem orðið hefur í starfsemi þess á síðustu árum með aukinni áherslu á eftirlit með samkeppnisþættinum í stað beinna verðlagsafskipta en hin nýja skipan samkeppnisráðs og Samkeppnisstofnunar er einmitt rökrétt framhald af þeirri þróun.
    Ég legg áherslu á það að Þórarinn er ekki fulltrúi þeirra samtaka sem hann starfar hjá í samkeppnisráði. Ég bendi líka á fortakslaus ákvæði 2. gr. laganna þess efnis að samkeppnislögin fjalla ekki um laun eða starfskjör launþega samkvæmt kjarasamningum sem er helsta verkefni Vinnuveitendasambandsins ásamt viðsemjendum þess. Því hefur verið haldið fram að störf Þórarins fyrir Vinnuveitendasambandið geri hann vanhæfan til setu í samkeppnisráði. Ég fellst alls ekki á þá skoðun. VSÍ er í forsvari í launasamningum fyrir nánast öll einkafyrirtæki á landinu með beinum eða óbeinum hætti. Þessi fyrirtæki eiga að sjálfsögðu í margvíslegri samkeppni sín á milli og samtökin gætu því ekki tekið afstöðu með einu fyrirtæki fremur en öðru án þess að gera þar upp á milli félagsmanna sinna eða aðila og lenda því í erfiðri aðstöðu gagnvart hluta þeirra. Ég nefni líka að VSÍ tók eindregna afstöðu með nýju samkeppnislögunum sem vafalaust eiga eftir að auka skilvirkni í okkar atvinnulífi og þar með styrk þeirra fyrirtækja sem samtökin gera kjarasamninga fyrir. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið veitir einnig hérlendum samkeppnisyfirvöldum möguleika til að vinna gegn erlendum samkeppnishömlum sem bitna á íslensku atvinnulífi. Framkvæmdastjórastaðan gerir Þórarin alls ekki vanhæfan til setu í ráðinu. Ég fellst ekki á þær röksemdir sem ég hef heyrt þar að lútandi. Það hefur m.a. verið vísað til nýuppkveðins dóms Hæstaréttar um vanhæfi fulltrúa heilbr.- og trmrn. í ákvörðun um lyfjaverð sem er til þess fallin að lækka kostnað ríkissjóðs á lyfjakaupum. Það er mjög erfitt að hugsa sér sambærilega afstöðu sem gæti komið upp í þessu tilfelli.
    Vinnuveitendasamband Íslands er ekki í samkeppni um sölu á vöru eða þjónustu nema þá að hér kæmi upp nýtt vinnuveitendasamband sem reyndi að laða til sín umbjóðendur með lægri félagsgjöldum og betri þjónustu. Komi slík dæmi upp verður að sjálfsögðu að fjalla um það. Ef samkeppnisráð þyrfti að fjalla um slíka samkeppni eða málefni fyrirtækis þar sem einhverjir ráðsmanna eða honum nákominn aðili ætti mikilla hagsmuna að gæta, þá væri að sjálfsögðu sá ráðsmaður vanhæfur í því sérstaka máli og mundi þá víkja úr sæti í því.
    Ég vil að lokum nefna það, hæstv. forseti, að eitt af verkefnum samkeppnisráðsins er einmitt að fylgjast með samkeppnishömlum sem felast í ýmiss konar sérlöggjöf eða stjórnarfyrirmælum og vekja athygli á þeim. Ég tel að sú einokun og samkeppnishömlur sem hér er um að ræða geti ekki síður verið skaðlegar einstaklingum og fyrirtækjum en þær samkeppnishömlur sem venjulega er fjallað um á opinberum vettvangi. Ég hafði þetta m.a. í huga við val á Þórarni í samkeppnisráðið að hann væri réttur maður til að vera þar á varðbergi. Við val manna í samkeppnisráðið reyndi ég að finna kraftmikla einstaklinga með þekkingu og reynslu, einstaklinga sem munu móta starf ráðsins á grundvelli hinna nýju laga, nýrra viðhorfa og tilkomu sameiginlegs markaðar EES sem Ísland verður brátt aðili að. Hver þessara einstaklinga var valinn með það í huga að hann væri líklegur til þess að leggja sig fram í starfi og leggja þar fram sína sérþekkingu og reynslu. Ég tel að það hafi tekist vel og veit að starf ráðsins mun verða til farsældar og vinna að framgangi bættra samkeppnishátta á Íslandi.