Málaferli vegna kjarasamninga

149. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 11:06:19 (6647)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Á undanförnum árum hefur komið berlega í ljós að samskipti ríkisvaldsins og starfsmanna ríkisins hafa þróast mjög til hins verra enda er launakerfi ríkisins handónýtt. Nægir þar að minna á verkfall BSRB 1984, útgöngu kennara í Hinu íslenska kennarafélagi 1985, verkfall BHMR 1987 og síðast en ekki síst sex vikna verkfall BHMR 1989 sem lauk með samningi sem síðan var numinn úr gildi með bráðabirgðalögum í júlí 1990. Við þennan lista bætast mörg mál, bæði einstaklinga og stéttarfélaga sem endað hafa í hnút ef ekki fyrir dómstólum. Til að fá mynd af þeim samskiptum ríkisvaldsins og starfsmanna ríkisins sem komið hafa til kasta dómstóla spyr ég hæstv. fjmrh. eftirfarandi spurninga á þskj. 695:
  ,,1. Hversu mörg mál voru rekin fyrir dómstólum (þar með talinn félagsdómur) af hálfu ríkisins eða gegn ríkinu vegna kjarasamninga á árunum 1985--1992?
    2. Í hve mörgum tilvikum tapaði ríkið málum sem snerta kjarasamninga fyrir dómstólum, hvaða mál var um að ræða og á hvaða dómstigi féllu þeir dómar?
    3. Hversu mikið fé hefur ríkið orðið að greiða vegna dóma í kjarasamningamálum á tímabilinu 1985--1992,
    a. í málskostnað,

    b. til leiðréttingar launa?``