Launakjör alþingismanna

149. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 11:25:06 (6653)

     Fyrirspyrjandi (Lilja Rafney Magnúsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir hans svör. Þau voru mjög fróðleg og kannski að sumu leyti eins og ég reiknaði með og vissi að einhverju leyti. En ég geri mér fulla grein fyrir því að auðvitað eiga alþingismenn eins og aðrir þjóðfélagsþegnar frí og geta spilað á gítar eða skrifað bækur eða eitthvað sem þeim líkar á þeim tíma. En mín spurning tók fyrst og fremst til þess vinnutíma sem við teljum vanalegan, frá klukkan átta til fimm.
    Þessi fsp. var fyrst og fremst ætluð til að vekja athygli á mismunandi aðstöðu launþega til að auka tekjur sínar. Stærsti hluti launafólks verður að láta sér duga einfalda dagvinnu og yfirvinnu ef hún býðst í þeim samdrætti sem ríkir. Ég lít svo á að laun alþingismanna séu síst of há fyrir ábyrgðarmikil störf sem oft eru vanmetin. En ég tel siðferðislega rangt að þeir séu í starfi annars staðar í þjóðfélaginu á meðan Alþingi situr að störfum og ég tel að þingmannsstarfið sé fullt starf og ég vona að fleiri þingmenn taki undir það sjónarmið hjá mér.
    Hins vegar, virðulegi forseti, tel ég nauðsynlegt að alþingismenn haldi góðum tengslum við atvinnulífið og nýti þinghlé og önnur þau tækifæri sem gefast til að kynna sér hin ýmsu störf úti í þjóðfélaginu. En ég vil bara biðja þingmenn í lokin að skoða þessi mál og velta fyrir sér hvað sé eðlilegt í þessum efnum.