Þungaskattur á dísilbifreiðar

149. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 11:28:17 (6655)


     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Eins og kunnugt er hefur ríkissjóður talsverðar tekjur af því að skattleggja bifreiðar sem nota dísilolíu. Skattlagningin byggir á lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar með síðari breytingum. Um er að ræða þungaskatt sem er annaðhvort innheimtur sem fast gjald eða eftir því hve marga kílómetra viðkomandi bifreið er ekið.
    Það fyrirkomulag sem í dag gildir við skattlagningu dísilbifreiða hefur sætt talsverðri gagnrýni. Af þeirri ástæðu hef ég falið starfshóp að taka til athugunar hvort æskilegt sé að leggja niður innheimtu þungaskatts samkvæmt mælum en í stað þess verði tekið fast gjald af dísilbifreiðum og að auki gjald á hvern lítra af dísilolíu sem notuð er á bifreiðar. Starfshópnum er einnig ætlað að kynna sér möguleika á því að taka tillit til mengunar við skattlagningu eldsneytis. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili tillögum sínum nú í sumar og einnig er ráð fyrir því gert að unnt verði að leggja fram frv. um þær breytingar á haustþingi 1993 og stefnt að því að breytt fyrirkomulag geti komið til framkvæmda á árinu 1994, vonandi um mitt ár.
    Til að nefna það hvaða upphæðir eru hér í húfi skal sagt frá því að það er áætlað að á þessu ári

innheimtist 1,9 milljarðar, tæpir 2 milljarðar, af þungaskatti þegar árgjald og kílómetragjald er lagt saman.
    Það þarf ekkert að ræða hér um það vandamál sem skapast af innheimtunni eins og hún er og einnig hvers vegna þessum málum hefur ekki verið breytt en ástæðan er sú að dísilolían er skattlögð á bílum en ekki þegar sams konar olía er notuð við húshitun eða til þess að knýja áfram skip. þess vegna er talsverð hætta á misnotkun og hætta á því að sú olía sem ekki er skattlögð lendi í vitlausum tanki. Því getur komið til greina við lausn þessa máls að endurgreiðslur verði notaðar þannig að öllum eða svo til öllum verði gert skylt að greiða, þ.e. þeim þar sem hætta er á að landamerki séu heldur óskýr en endurgreiðslur síðan notaðar. Til þess að hægt sé að framkvæma þetta verður að vera gott samstarf við olíufélögin og eftir því samstarfi hefur verið leitað.
    Ég vil að lokum geta þess að nýlega breyttu Norðmenn sínu fyrirkomulagi frá því að vera svipað því sem er hér á landi yfir í það að vera gjald beint á olíuna og við getum að sjálfsögðu ýmislegt af því lært. Mér er kunnugt um það, hæstv. forseti, að þetta er mikið áhugamál, ekki síst bifreiðastjóranna, sérstaklega þeirra sem stunda flutninga og aka stórum bílum því það getur verið mjög erfitt að eiga við greiðslur á þungaskatti sem safnast oft upp og oft hætta á því að slíkir fjármunir lendi í almennum rekstri og séu svo ekki til reiðu þegar greiða þarf viðkomandi skatt. Þá er gripið til róttækra aðgerða eins og t.d. þeirra, sem nú fara fram, að klippa númer af bílum en allir vita að tekjur manna sem stunda störf eins og þau að aka vöruflutningabifreiðum eru stopular og verkefnin oft með þeim hætti að greiðslur koma í stórum slumpum.
    Ég vonast til þess, hæstv. forseti, að þetta svar gefi það sterklega til kynna að unnið er að þessum málum og vonandi fáum við viðunandi lausn þegar á næsta ári.