Bókaútgáfa á vegum ríkisins

149. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 11:37:12 (6658)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Það er spurt:
  ,,1. Hversu margar bækur voru gefnar út á vegum ríkisstofnana á síðasta ári?

    2. Hversu margar þessara bóka voru boðnar út til útgáfu?``
    Samkvæmt upplýsingum frá Landsbókasafni Íslands voru 395 rit gefin út á vegum ríkisstofnana á síðasta ári. Þessi tala er þó kannski ekki fullkomlega nákvæm því að meðal þeirra stofnana sem Landsbókasafnið flokkar sem ríkisstofnanir eru nokkrar sem einungis njóta fjárframlaga frá ríkinu en eru ekki beint stofnanir þess. Ég nefni þar sem dæmi Slysavarnafélag Íslands. Á móti kemur að enn er eftir að flokka um það bil 100 rit sem komu út á síðasta ári og meðal þeirra gætu verið nokkur sem ríkisstofnanir hafa gefið út.
    Námsgagnastofnun, Háskólaútgáfan og ýmsar stofnanir háskólans stóðu fyrir bróðurpartinum af þeirri útgáfu sem hér um ræðir eða um það bil 290 rita. Ráðuneytin gáfu út samtals 51 bók, þar af fimm í samvinnu við Námsgagnastofnun. Aðrar stofnanir gáfu út eina til þrjár bækur. Þess má einnig geta að þriðjungur af útgáfu ríkisstofnananna voru rit upp á 5--48 síður.
    Hvað varðar seinni lið fsp., hversu margar þessara bóka voru boðnar út til útgáfu, þá er því nokkuð vandsvarað. Ef hv. þingkona á við útboð þar sem allir þættir útgáfunnar eru með taldir er naumast hægt að tala lengur um útgáfu viðkomandi stofnunar. Ef hins vegar er átt við útboð þar sem einstakir þættir útgáfunnar, svo sem prentun, dreifing, skrif eða þess háttar eru boðnir út, þá er ógerlegt að svara því nema óska eftir skýrslu um hverja einustu bók. Mér er þó kunnugt að ríkisstofnanir hafa í auknum mæli leitað eftir tilboðum í prentun, bókband og þess háttar til að halda kostnaðinum niðri. Aukið aðhald í rekstri ríkisstofnana hefur sjálfkrafa leitt til þess að forstöðumenn þeirra leita hagkvæmustu leiða, einnig í þessum málum.
    Í svari Háskólaútgáfunnar við þessari fsp. segir að það megi heita ófrávíkjanleg regla að leitað sé tilboða í allt prentverk sem unnið er á vegum eða fyrir tilstilli útgáfunnar. Í svari Námsgagnastofnunar við sömu fsp. segir að af 197 titlum af endurútgáfu prentaðs máls var 121 titill unninn að undangengnu útboði.
    Nákvæmar get ég því miður ekki svarað spurningum hv. þingkonu.