Endurskoðun laga um Þjóðleikhús

149. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 11:43:14 (6660)

     Fyrirspyrjandi (Þórhildur Þorleifsdóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég hef beint þeirri fsp. til hæstv. menntmrh. á þskj. 810 hvort til standi að endurskoða lög um Þjóðleikhús. Kemur þá tvennt til. Núgildandi lög um Þjóðleikhús eru frá 1978 og þegar eru mörg ákvæði í þeim sem eru löngu hætt að vera í takt við tímann. Svo mikið hefur rekstrarfyrirkomulag Þjóðleikhússins breyst að þau lög eru morandi í ákvæðum sem löngu eru úrelt. Vil ég þá nefna t.d. ákvæði sem snerta listdans og óperu sem er að mestu leyti komið út fyrir húsið. Listdansflokkurinn er búinn að fá sín eigin fjárframlög, er sjálfstæð stofnun og er ekki inni í Þjóðleikhúsi lengur. Eðli málsins samkvæmt hefur óperuflutningur að mestu leyti lagst niður í Þjóðleikhúsinu vegna þess að sú starfsemi hefur verið rekin annars staðar.
    Ýmis stöðugildi eru tilgreind í sambandi við þessa starfsemi og fleira mætti telja. Einnig er í þessum lögum t.d. grein um að Þjóðleikhúsið eigi að taka þátt í stofnun og rekstri leikmunasafns. Það er einkennilegt að þessi grein er búin að vera í lögum í 14 ár og mér vitanlega hefur aldrei verið gerður nokkur skapaður hlutur til þess að vinna að þessu máli og er þá kominn tími til að annaðhvort gera það eða hreinlega fella þetta út.

    Eins má nefna að í þessum lögum eru ákvæði um það að Þjóðleikhúsið eigi svo fljótt sem auðið er að koma sér upp öðru leiksviði. Það er ekki einungis svo að Þjóðleikhúsið hafi komið sér upp öðru leiksviði heldur hefur það komið sér upp þriðja leiksviðinu þannig að þetta eru bara örfá dæmi um hversu úrelt þessi lög eru.
    Í annan stað má nefna það að allt stjórnarfyrirkomulag í þessari stofnun er mjög úr takt við tímann. Víða eru nú uppi alls konar áform innan fyrirtækja um valddreifingu, svokölluð gæðaátök eru mjög mikið í tísku og er þá gjarnan talað um að það sé gert í samráði við starfsfólk og sé ekki síst til þess að kalla fram frumkvæði og hugmyndir starfsfólks. Nú háttar því svo til í þeirri stofnun sem fyrst og fremst á að byggja á sköpun og frumkvæði að það nýtist sáralítið sem ekkert sökum þess hvernig stjórnunarfyrirkomulag þessarar menningarstofnunar er.
    Fyrir nokkrum árum, nánar tiltekið árið 1989, stofnaði þáv. menntmrh. nefnd til þess að endurskoða þessi lög og var henni einnig falið að gera tillögur um framtíðarstefnu varðandi íslenska óperu og listdansstarfsemi og húsnæði fyrir þessa þætti íslenskrar menningar. Árangur þessarar nefndar birtist svo í lagafrv. sem lagt var fram á Alþingi árið 1989. Nú er ég ekki að segja að þau drög sem þá voru lögð fram séu endilega þau sem ætti að leggja fram aftur, enda er athyglisvert að koma að þeim nokkrum árum seinna og þá sér maður að jafnvel á svo stuttum tíma hafa margar tillögur sem voru í þessum lagadrögum úrelst og sýnir þá enn betur hversu mikil þörf er á að endurskoða þessi lög.