Endurskoðun laga um Þjóðleikhús

149. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 11:46:48 (6661)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Það er spurt hvort einhver áform séu uppi um að endurskoða lög nr. 58/1978, um Þjóðleikhús. Einfalt svar við þessari fsp. er já en ég bæti því við að undirbúningur að endurskoðun laga um Þjóðleikhús hefur staðið yfir um nokkurt skeið í ráðuneytinu.
    Það er ætlunin að endurskoða þjóðleikhúslögin í samhengi við lög um Sinfóníuhljómsveit Íslands og einnig Íslenska dansflokkinn og hugsanlega einnig í sambandi við Íslensku óperuna. Þótt hún sé ekki ríkisfyrirtæki, þá er um verulegan stuðning ríkisins við óperuna að ræða eins og kunnugt er.
    Ég bæti því einnig við að leiklistarlögin þarfnast endurskoðunar og um þessar mundir er verið að skipa nefnd til að endurskoða þau. Frá því að þau voru sett, árið 1977, hafa orðið miklar breytingar á leiklistarlífi hér á landi einkum vegna þess að atvinnuleikhópum hefur fjölgað mjög. Þess vegna tel ég rétt og nauðsynlegt að skoða þau mál í ljósi breyttra aðstæðna.
    Eins og málum er nú háttað er ljóst að það er ekki ráðlegt að skoða leiklistarlögin, þjóðleikhúslögin og starfsemi sinfóníuhljómsveitar, dansflokksins og óperunnar sem einstök lög hver fyrir sig heldur í samhengi með það fyrir augum sérstaklega að greiða fyrir samstarfi og samvinnu þessara aðila.
    Það mætti auðvitað nefna ýmis ákvæði í þjóðleikhúslögunum sem sérstaklega ætti að líta á í sambandi við endurskoðunina. Ég nefni þar stjórnskipan Þjóðleikhússins sem hv. fyrirspyrjandi nefndi reyndar í sinni ræðu, ráðningartíma þjóðleikhússtjóra, heimildir leikhússins til að leggja niður eða fjölga deildum og heimildir leikhússins til að afla tilboða í einstaka verkþætti og svo ýmis ákvæði sem eru í gildandi lögum en eiga ekki lengur við eins og raunar líka kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda.