Bygging húsnæðis fyrir matvælaiðjubraut Menntaskólans í Kópavogi

149. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 11:57:16 (6666)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Það var gerður samningur, dags. 9. apríl 1991, milli menntmrn. og fjmrn. annars vegar og bæjarstjórnar Kópavogs hins vegar um byggingu skólahúsnæðis við Menntaskólann í Kópavogi fyrir matvælagreinar. Samkvæmt samningnum er gert ráð fyrir árlegum framlögum ríkisins til skólans að því tilskildu að fé fáist á fjárlögum til verkefnisins í samræmi við áætlunina. Fyrsta framlagið var greitt árið 1991, 16,1 millj. liðlega. Síðan er gert ráð fyrir árlegu framlagi 1992--2001 að báðum árum meðtöldum, að upphæð liðlega 48,5 millj. hvert ár á verðlagi í mars 1993. Samkvæmt þessu er hlutur ríkisins tæplega 502 millj. kr. í þessari áætlun en ríkissjóður greiðir alls um 77% byggingarkostnaðar. Þetta háa hlutfall er auðvitað til komið vegna þess að gert er ráð fyrir að Hótel- og veitingaskóli Íslands fái aðsetur í hinu nýja húsnæði, en þetta er sérskóli þar sem ríkissjóður greiðir stofnkostnað að fullu, sbr. 3. gr. laga 57/1988, um framhaldsskóla, með áorðnum breytingum.
    Til þess að svara fsp. beint þá er svar mitt það að ekki liggja fyrir áætlanir um að flýta byggingu húsnæðisins hvað hlut ríkisins varðar en ég vek athygli á 6. gr. samningsins þar sem segir: ,,Kjósi Kópavogskaupstaður að hraða ákveðnum þáttum framkvæmda umfram framkvæmdaáætlun sér hann um öflun þess viðbótarfjár sem til þess þarf og ber allan fjármagnskostnað af því.``
    Ráðuneytinu er ekki kunnugt um áform af hálfu Kópavogskaupstaðar um að hraða framkvæmdum samkvæmt þessu ákvæði samningsins. Framkvæmdir við skólahúsnæðið standa þannig að framkvæmdum við fyrsta áfanga, stjórnsýsluálmu, lýkur væntanlega á komandi sumri og áformað er að bjóða út framkvæmdir við annan áfanga, kennsluhúsnæði, áður en langt um líður.