Héraðsskólar

149. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 12:02:01 (6668)

     Fyrirspyrjandi (Jörgína Jónsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. á þskj. 853 til hæstv. menntmrh. svohljóðandi:
  ,,1. Hverjar eru framtíðarhorfur héraðsskólanna?
    2. Er það stefna ráðherra að leggja þá niður?
    3. Ef svo er, kemur 10. bekkur grunnskólans sjálfkrafa inn í grunnskólana þar sem 10. bekkur er ekki nú þegar?``
    Þegar Héraðsskólanum í Reykjanesi var lokað mjög skyndilega urðu nokkrar umræður á Alþingi um framtíð skólans og ætti þingheimi að vera í fersku minni því þessi aðgerð snerti illþyrmilega okkur Vestfirðinga. Þá vorum við á engan hátt sátt við framgöngu þessa máls. En það þýðir lítið fyrir lítilmagnann að deila við dómarann. Rekstri skólans var hætt og nefnd sett á laggirnar sem gera átti tillögu um framtíðarnýtingu mannvirkja á staðnum sem eru hreint ekki svo lítil.
    Ég ætla ekki að rifja þessa umræðu neitt sérstaklega upp en það kom fram í umræðum á sínum tíma að yrði það niðurstaða nefndarinnar að þarna skuli skólahald hefjast að nýju þá verður það skoðað sérstaklega með tilliti til fjölda nemenda. En það má auðvitað segja að með þessum aðgerðum var rekstrargrundvelli kippt undan skólastarfi Héraðsskólans í Reykjanesi fyrir fullt og allt og það má ljóst vera að þegar aðgerðir sem þessar ganga eftir þá veikir það stöðu skólans meðal nemenda og þeir leita að sjálfsögðu annað. Lá þá beinast við að nemendur sæktu 10. bekk og framhald að Núpi í Dýrafirði. En einhverra hluta vegna skiluðu nemendur sér ekki þangað þannig að Núpsskóla var einnig lokað sl. haust. Þá er staðan þannig að enginn heimavistarskóli sem býður upp á 10. bekk er starfræktur á Vestfjörðum.
    Það má kannski segja að héraðsskólar í þeirri mynd sem þeir voru séu búnir að renna sitt skeið, en ég tel það alvarlegar aðgerðir að loka þessum skólum án þess að neitt annað komið til. Þá á ég við það að 10. bekkur komi inn í grunnskólana þannig að nemendur geti stundað sitt skyldunám í sinni heimabyggð því víða í hinum fámennari skólum hefur 10. bekkur ekki verið starfræktur. Það kostar að sjálfsögðu fleiri kennara í þá skóla því námsframboð í 10. bekk eykst töluvert samkvæmt námsskrá.
    Þetta tel ég vera heilmikið byggðamál og ég tala ekki um réttlætismál. Allir íbúar landsins ættu að hafa jafnan rétt til náms, hvar sem þeir eru staðsettir. Það er bara því miður ekki svo, a.m.k. ekki enn þá, en það hlýtur að vera stefna ráðuneytisins að framtíðin sé sú.