Umboðsmaður barna

149. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 12:14:39 (6674)

     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir) :
    Hæstv. forseti. Þegar frv. um stofnun embættis umboðsmanns barna var fyrst flutt á 109. löggjafarþingi voru flm. Guðrún Helgadóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, Kristín S. Kvaran og Hjörleifur Guttormsson. Síðan var þetta frv. flutt fjórum sinnum og að lokum vísað til ríkisstjórnarinnar á þinginu 1992. Þá hafði þáv. hæstv. dómsmrh. og reyndar núverandi hæstv. sjútvrh. góð orð um að hann mundi beita sér fyrir því að þetta embætti yrði stofnað, en nú hefur það gerst með lögum um vernd barna og ungmenna, nr. 58/1992, að þessi málaflokkur heyrir ekki lengur undir dómsmrn. eins og þá var heldur hæstv. félmrh. Spurning mín er því einföld:
    Nú þegar hæstv. félmrh., sem var meðflm. minn á hinu upphaflega frv., er í þeirri stöðu að ráða hvað gert verður í þessu máli, vil ég spyrja hana og hef gert það hér á þskj. 772 eftirfarandi spurningar, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hyggst félmrh. beita sér fyrir stofnun embættis umboðsmanns barna en frv. þess efnis var vísað til ríkisstjórnarinnar 15. maí 1992?``
    Ég ætla ekki að fara að eyða hér tíma með því að rekja enn einu sinni ástæðuna fyrir áhuga mínum á þessu máli. Ég held að við vitum öll allt of vel hver þörf er fyrir styrkingu á málefnum barna í landinu og ég mun einhvern tíma seinna gera betri grein fyrir því, en spurning mín er sem sagt einföld: Stendur til að stofna þetta embætti?