Umboðsmaður barna

149. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 12:20:46 (6676)

     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir jákvæð svör við fsp. minni og það er auðvitað ekki við hana að sakast. En kyndugt er það að nú eru liðin fimm þing síðan þetta mál var fyrst flutt og það hlýtur auðvitað að koma flm. undarlega fyrir sjónir að nú fyrst skuli hafa verið ráðist í af dómsmrn. að safna svo einföldum gögnum sem upplýsingum um þessi embætti á næstu Norðurlöndum. Hefðu þeir nú verið svo góðir að hringja í mig hefði ég getað lánað þeim þessi gögn og það hefði tekið stuttan tíma.
    Vegna orða hæstv. ráðherra get ég upplýst að umboðsmaður Alþingis hefur fyrir lifandi löngu látið í ljós álit sitt á þessu máli og mælti eindregið með því að embætti umboðsmanns barna yrði stofnað svo að varla þarf að vera að angra hann með frekari bréfaskriftum.
    Það liggja fyrir í þessu máli miklar og margar umsagnir og langflestar mjög jákvæðar. Og hér var auðvitað aldrei um neitt annað að ræða en hvort áhugi væri fyrir hendi að stofna þetta embætti eða ekki. Við leituðum til Fjárhags- og hagsýslustofnunar á sínum tíma og létum reikna út hvað þetta nýja embætti mundi kosta. Ég held að það séu tvö eða þrjú ár síðan, þá var talað um 5 millj., ekki var það nú meira og er nú ýmislegt kostnaðarsamara gert í þessu landi.
    Mergurinn málsins er sá að ég held að það sé alveg nauðsynlegt að koma þessu embætti á laggirnar. Það eru teknar of margar ákvarðanir hér á landi án minnsta tillits til velferðar barna og það er einmitt það sem þessi embættismaður á að annast. Og ég vænti þess nú að gagnaöflun sé lokið í málinu. Það má mjög svo gjarnan ræða við norska umboðsmanninn, enda var þetta frv. að verulegu leyti byggt á norsku lögunum. Thorgeirsen, umboðsmaður barna í Noregi, var hér á ferð fyrir ári síðan á vegum Barnaheilla og hélt ráðstefnur og fyrirlestra. Hans síðustu orð voru þau að hann vonaði að þetta frv. ætti eftir að verða að lögum og ég treysti því nú að hæstv. ráðherra vinni að því.