Vinna ungmenna á vínveitingastöðum

149. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 12:30:26 (6679)

     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. svör hennar og fagna því að nú á að verða hér bragarbót á og ekki vanþörf á. Mér finnst það íhugunarefni að slík mál skuli ekki hafa komið til kasta barnaverndarnefndar eða barnaverndarráðs, kærur og þess háttar í ljósi þeirrar umræðu sem varð hér í haust, en þar kom m.a. fram mjög glögglega hjá forsvarsmönnum Félags starfsfólks í vínveitingahúsum að það hafi verið einhver dæmi þess að unglingar hafi beinlínis leiðst út í óreglu í kjölfarið á slíkri vinnu. Og auðvitað er mjög erfitt að sætta sig við að það skuli verið að skapa sérstakar aðstæður til þess að kannski setja unglinga í aukna áhættu. Það hafa einnig verið brögð að því að greitt hafi verið fyrir vinnu í vínveitingahúsum með áfengi sem út af fyrir sig er brot á sjálfsagt mörgum lögum, en það er mjög alvarlegt þegar það er jafnframt staðreynd að ungir og óharðnaðir unglingar hafi verið við störf á slíkum veitingastöðum þannig að ég held að það sé full ástæða til þess að fylgja þessum lagaákvæðum barnaverndarlaga fast og vel eftir og ég fagna því að mér heyrist á hæstv. félmrh. að hún hafi fullan hug til þess.