Greiðsluerfiðleikalán

149. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 12:34:56 (6681)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Þann tíma sem Húsnæðisstofnun ríkisins hefur veitt lánafyrirgreiðslu vegna greiðsluerfiðleika eða frá 1985 hafa samtals verið veitt 7.200 greiðsluerfiðleikalán. Heildarfjárhæðin er um 5,8 milljarðar á núverandi verðlagi. Þessi langvinni greiðsluvandi íbúðakaupenda varð til þess að sérstakt mat á greiðslugetu var sett sem skilyrði fyrir fyrirgreiðslu í húsbréfakerfinu þegar það var tekið upp árið 1989. Á sama hátt var greiðslumat gert að skilyrði fyrir möguleikum á kaupum á félagslegri íbúð þegar lög um félagslegar íbúðir voru samþykkt á Alþingi 1990. Þannig er mat á greiðslugetu í dag algert skilyrði fyrir lánafyrirgreiðslu í húsnæðiskerfinu.
    Höfuðmarkmið greiðslumatsins er að draga úr líkum á að íbúðakaup leiði til greiðsluvanda. Enginn dregur í efa að greiðslumatið á rétt á sér og hefur oft forðað fólki frá greiðsluvandræðum. Greiðslumatið getur hins vegar aldrei verið örugg trygging gegn vanskilum. Það er byggt á upplýsingum á tekjum á þeim tíma sem matið fer fram, en forsendur geta breyst.
    Ráðgjafarstöð Húsnæðisstofnunar sem hefur allt frá 1985 veitt almenningi ráðgjöf varðandi íbúðafjárfestingu og aðstoðað fólk í vanda við að endurmeta íbúðakaup. Ráðgjafar stofnunarinnar hafa því langa reynslu og yfirgripsmikla þekkingu á þessu máli. Athuganir ráðgjafanna benda til að jafnan séu mikil skammtímalán, aðallega hjá bönkum og sparisjóðum, helsta ástæða greiðsluvanda frekar en lán byggingarlánasjóðanna og sama gildir nú, enda hefur fyrirgreiðsla stofnunarinnar vegna greiðsluerfiðleika að stórum hluta hafnað í bankakerfinu. Úttekt sem gerð var á afgreiðslu greiðsluerfiðleikalána á árunum 1988 og 1989 leiddi í ljós að rúmlega helmingur eða 55% útborgaðra greiðsluerfiðleikalána fóru til greiðslu á vanskilum íbúðaeigenda og öðrum skuldum hjá bönkum og sparisjóðum. Um 10--20% fóru til greiðslu á vanskilum hjá Húsnæðisstofnun og svipað hlutfall til greiðslu vegna krafna frá lögfræðingum.
    Á undanförnum mánuðum hefur verið aukin ásókn í ráðgjöf hjá Húsnæðisstofnun ríkisins. Þá má greina að skilin á greiðslum til byggingarlánasjóðanna eru aðeins lakari en áður. Ef athuguð er staða hjá Byggingarsjóði ríkisins miðað við gjalddaga lána í febrúar sl. voru skilin 2% lakari en fyrir ári síðan. Um 63% afborgana höfðu skilað sér í febrúarlok saman borið við 65% í fyrra.
    Í árslok 1991 námu langtímaútlán Byggingarsjóðs verkamanna tæpum 20 milljörðum. Vanskil voru ríflega 1% af þeirri fjárhæð. Í árslok 1992 voru útlánin orðin ríflega 25 milljarðar og vanskilin aðeins hærri en áður eða 1,5% af útlánum. Sé hins vegar litið til þess hve margir eru í vanskilum við byggingarlánasjóðin miðað við 1. ágúst í fyrra eða fyrr kemur í ljós að 2.054 lántakendur hjá Byggingarsjóði ríkisins hafa ekki greitt af lánum sínum, þ.e. nærri 5% lántakenda.
    Hjá Byggingarsjóði verkamanna voru 651 lántakandi í vanskilum eða sem næst 14% lántakenda. Ég hef óskað eftir því að fram fari sérstök úttekt á ástæðum þessara vanskila hjá byggingarsjóðunum. Áður en gripið er til aðgerða er nauðsynlegt að athuga eðli og umfang þess vanda sem nú er við að etja og gaumgæfa vel möguleg úrræði. Ég tel ekki ástæðu til að grípa til almennra aðgerða varðandi greiðsluerfiðleika eins og áður hefur verið gert og ekki rétt að gefa tilefni til væntinga um það úti í þjóðfélaginu. Ég

tel hins vegar mjög mikilvægt að skoða sérstaklega strax hvaða aðgerðum má beita til að aðstoða fólk sem er í miklum greiðsluvanda vegna atvinnuleysis og mjög sérstakra erfiðleika. Á vegum félagamála-, fjármála- og viðskiptaráðuneytis er nú verið að athuga stöðu þessara mála og til hvaða aðgerða unnt er að grípa.
    Hjá Húsnæðisstofnun er nú unnið að greiningu á vanskilum lántakenda hjá byggingarlánasjóðunum og þróun þeirra. Lítið er vitað um vanskil einstaklinga hjá bönkum vegna íbúðalána en þau eru talin hafa aukist undanfarið. Athuga þarf hvernig hægt er að koma ráðum til fólks í vanda vegna tekjusamdráttar eða atvinnuleysis og auðvelda því að komast í minna og ódýrara húsnæði. Möguleikar til slíkra aðgerða eru betri nú með tilkomu húsbréfanna en var áður.
    Mikilvægt er að komið verði á samráði milli Húsnæðisstofnunar, banka og lífeyrissjóða um skuldbreytingar og endurskipulagningu fjármála hjá þeim sem verst eru settir vegna til að mynda atvinnuleysis og mikils tekjubrests. Þá þarf að kanna nánar þær aðferðir sem Norðmenn hafa notað til að greiða úr greiðsluvandamálum og kynntar voru hér á landi nýlega. Fleiri leiðir þarf að kanna til hlítar, t.d. hvort hægt er að fresta vanskilainnheimtu og koma í veg fyrir gjaldþrotameðferð meðan leitað er lausna á greiðsluvandanum. Fleiri atriði geta komið til skoðunar sem ástæðulaust er að tíunda nánar fyrr en niðurstaða liggur fyrir um færar leiðir til lausnar á þeim erfiðleikum sem blasa við íbúðakaupendum í dag.