Fjarskipti

150. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 14:07:39 (6691)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég hafði skrifað undir nál. samgn. með fyrirvara en gat því miður ekki verið við 2. umr. um málið. Mér finnst mér því skylt að gera grein fyrir þeim fyrirvara. Hann átti einkanlega við það sem er eftir 2. umr. c-liður 5. gr. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Samgönguráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um framkvæmd fjarskiptamála, eftirlit með þeim og annað er þar að lýtur.``
    Þetta hefði ég talið nægilegt í þessari grein en seinni málsliðurinn er:
    ,,Honum er heimilt að setja reglugerðir á sviði fjarskipta að því leyti sem það er nauðsynlegt vegna skuldbindinga er leiðir af samningnum um Evrópskt efnahagssvæði milli Efnahagsbandalags Evrópu, Kola- og stálbandalags Evrópu og aðildarríkja þess annars vegar og aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu hins vegar, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið.``
    Þetta er sígild klausa sem nú kemur iðulega fyrir í frv. sem við erum hér að ræða, þ.e. það er verið að heimila viðkomandi ráðherrum að setja reglugerðir á þessu sviði vegna skuldbindinga sem leiða af

EES-samningnum. Ég tel að í þessu frv. sé þetta alger óþarfi þar sem nefna má að t.d. í 2. mgr. 2. gr. segir: ,,Samgönguráðherra getur heimilað aðilum með staðfesturétti innan Evrópska efnahagssvæðisins, EES, að reka ákveðna tegund fjarskiptaþjónustu`` o.s.frv.
    Með þessu frv. er verið að gera ákveðnar breytingar um fjarskipti sem mjög margar eru til bóta en er þó verið að gera fyrst og fremst vegna þess að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði á að taka hér gildi á einhverjum næstu mánuðum sem ekki er vitað enn þá. Þetta frv. er fyrst og fremst sett fram til þess þó, eins og ég sagði áðan, margt í því sé mjög til bóta. Í umfjöllun nefndarinnar tókst að koma inn ýmsum þeim breytingum sem allir nefndarmenn voru sammála um.
    Ég tel hins vegar að þær opnu reglugerðarheimildir sem hér er iðulega verið að setja inn í lög sem tengjast þessum samningi, EES-samningnum, séu svo galopnar að ekki sé við það unandi að slíkar heimildir séu inni og því er ég ósammála. Hins vegar er hér búin að fara fram 2. umr. og atkvæðagreiðsla um þetta frv. og ég styð frv. í heild þrátt fyrir það að ég sé ekki sátt við að þetta ákvæði sé þarna inni.