Norræni fjárfestingarbankinn

150. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 14:39:47 (6701)


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 14. þm. Reykv. stuðning við þetta frv. Ég vil taka það skýrt fram að leiðarljós fyrir norræna aðstoð við þessi lönd eins og fyrir aðstoð Evrópska endurreisnar- og þróunarbankans er að sjálfsögðu að aðstoða þessi ríki við umbreytinguna frá miðstýrðum áætlunarbúskap --- með valdboði að ofan --- til markaðsbúskaparhátta til að efla framfarir fyrir alla þegna landanna í samfélagi lýðræðis og réttarríkis, þar sem mannréttindi eru virt. Þetta er allt skrifað inn í stofnskrá Evrópubankans með mjög óvenjulegum og skýrum hætti. Þess vegna er samstarfið við hann í aðstoðaráætluninni við Eystrasaltsríkin ákaflega mikilvægt. Ekki svo að skilja að Norðurlöndin þurfi einhvern sérstakan þrýsting utan að

til þess að virða þau sjónarmið sem ég hef nú nefnt; þau hafa jafnan verið málsvarar þeirra á alþjóðavettvangi og verða það enn --- og að sjálfsögðu líka í samskiptum við þessi ríki.