Frumkvöðlar í atvinnulífinu

150. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 14:41:57 (6702)

     Flm. (Árni R. Árnason) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. nr. 313 hef ég lagt fram till. til þál., 244. mál þessa þings, um stuðning við frumkvöðla í atvinnulífinu og hljóðar tillagan þannig, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa og hefja stuðning við frumkvöðla í atvinnulífinu
    með námsframboði í framhaldsskólum og háskólum, svo og utan skóla,
    stofnun sérstakra eignarhaldsfélaga um nemendafyrirtæki í tengslum við frumkvöðlanám,
    stofnun sérstaks frumkvöðlasjóðs --- eða frumkvöðladeilda við þá sjóði er styðja atvinnuþróun og nýsköpun --- til að veita fjármuni til áhættufjármögnunar fyrirtækja þeirra,
    upplýsingamiðlun um hvar þeim veitist stuðningur.``
    Mikill samdráttur hefur orðið á síðustu árum í íslensku atvinnulífi og efnahagsstarfsemi og þegar litið er til baka og leitað orsaka verður deginum ljósara að í helstu tekjuaflandi starfsgreinum þjóðarbúsins hafa umsvif og tekjur minnkað um árabil. Við höfum dregist aftur úr grannþjóðum okkar, þeim þjóðum sem við berum okkur saman við um lífskjör og veraldleg gæði, um hagsæld og efnalega velferð. Við höfum þó ekki fyrr en á síðasta einu og hálfu ári eða svo staðið frammi fyrir umtalsverðu atvinnuleysi. Sú afleiðing minnkandi þjóðartekna kom ekki fram fyrr en þá vegna þess að fölskum kaupmætti og atvinnustigi hafði um árabil verið haldið uppi með erlendum lánum, með miklum lántökum ríkissjóðs til framkvæmda og til ríkisreksturs, með miklum halla á viðskiptum við útlönd, miklum lántökum til ríkisnýsköpunar í atvinnumálum, sem misfórst m.a. sökum grundvallarmistaka og vanundirbúnings, og með miklum erlendum lántökum til að breiða yfir afleiðingar slæmra rekstrarskilyrða útflutningsatvinnuvega. Erlendar lántökur voru því um árabil notaðar sem deyfilyf við versnandi afkomu burt séð frá því hverjar orsakirnar voru. En vímunni er að ljúka og verkirnir sækja að þjóðarlíkamanum. Samdráttur og atvinnuleysi er afleiðing fyrri stefnu og gerða.
    Fjárausturinn var gífurlegur í heild en ríkisnýsköpunin misfórst með öllu. Við sitjum eftir með sárt ennið. Skuldabyrðin náði nýjum hæðum en atvinnutækifærin eru færri. Ekki einasta færri en til var stofnað, heldur færri en áður.
    Undirstöðuatvinnugrein okkar, sjávarútvegur, hefur sætt og sætir enn gríðarlegum samdrætti og fækkar starfsfólki vegna rýrnandi afraksturs fiskstofna. Mikil nýsköpun og tækniþróun hefur orðið innan hennar og hefur leitt til aukinnar veiðigetu skipanna, til bættrar nýtingar hráefnis, til aukins verðmætis afurða en í senn til fækkunar starfsfólks. Nýsköpun hefur einnig orðið í öðrum greinum en ekki dugað til að mæta samdrættinum, enda er ævinlega mikill árangur nýsköpunar fólginn í hagræðingu og fækkun starfa með tæknivæðingu. Af þessum ástæðum þörfnumst við mjög þeirrar nýsköpunar sem leitast við að nýta viðskiptamöguleika sem enn eru ónýttir eða vannýttir. Við þörfnumst frumkvöðlastarfs.
    Ekki er öllum hent, virðulegi forseti, að gerast eða vera frumkvöðlar, jafnvel í hvorugri þeirri merkingu sem ég áður nefndi, þ.e. sem uppfinningamaður né heldur sem athafnamaður. Vaxandi hluti starfandi fólks byggir tilveru sína og tekjuöflun á fremur takmarkaðri starfsþekkingu, treystir á frumkvæði annarra í atvinnulífi og leitar í raun aðeins eftir launaðri vinnu, ekki að tækifærum til að aðhafast sjálft að eigin frumkvæði. Við grósku í atvinnulífi hefur það almennt næga vinnu, en þegar samdráttar gætir er þetta fólk á vonarvöl.
    Flest fyrirtæki í iðngreinum eru stofnuð af iðnaðarmönnum um iðn þeirra, flest í byggingargreinum. Nú gætir samdráttar í þeim sem öðrum, enda virðist þörfum okkar fyrir nýbyggingar hafa að mestu verið svarað a.m.k. að sinni. Byggingarfyrirtæki draga þá saman seglin, en fremur lítið er um að þau leiti sér annarra viðfangsefna sem gæti tengst þeirri starfs- og iðnþekkingu sem þau og starfsmenn þeirra búa yfir, t.d. með því að finna vörur til framleiðslu á sviði sinnar iðngreinar og taki skrefin frá viðgerðum á verkstæði eða frá byggingum á byggingarstað til framleiðslu tilbúinnar vöru. Þótt margir iðnaðarmenn kynnist notkun tilbúinna byggingareininga á öllum stigum húsbygginga virðist samt sem áður ekki liggja beint við að hefja gerð þeirra og markaðssetningu á heimamarkaði eða í grennd. Á sama hátt er athyglisvert í ljósi vaxandi atvinnuleysis að enn er hér stundaður útflutningur óunninna hráefna eða grófunninnar vöru sem er aðeins hráefni fullvinnsluverksmiðja, ekki aðeins í sjávarútvegi heldur og frá jarðefnanámum. Við flytjum inn mikið af vörum sem við gætum framleitt og markaðssett á samkeppnisfæru verði og getum jafnvel orðið útflytjendur að. Enn eru miklar eyður í þjónustu okkar og séríslenskum vörum fyrir ferðamenn

að ógleymdum heilsubótarferðum og afurðum hreinasta landbúnaðar á Vesturlöndum sem fullnægir flestum eða öllum kröfum um heilnæmt fæði. Við getum selt öðrum þjóðum þekkingu okkar í formi þjónustu á fjölmörgum sviðum og við getum selt þeim vörur annarra þjóða, haft milligöngu um viðskipti þeirra á milli líkt og grannþjóðir okkar gera og hafa verulegar tekjur og umsvif af.
    Meðal atvinnulausra er ekki aðeins að finna ófaglært verkafólk heldur og iðnaðarmenn, fólk með staðgóða þekkingu á ýmsum þjónustustörfum, sérfræðinga með menntun sem talin hefur verið henta vel til að stjórna fyrirtækjum og gerast athafnafólk sem reki eigin starfsemi. Velferð undanfarinna ára virðist hafa dregið úr því að fólk reyni fyrir sér sjálft með eigin rekstur, dregið úr því að það reyni að byggja upp og stýra fyrirtæki sem byggist á þess eigin viðskiptahugmyndum, eigin kunnáttu og getu. Því lengra nám sem stundað er í skólakerfi okkar, þeim mun minni líkur virðast vera á að námsmaður hefji eigin rekstur og á sama hátt þeim mun meiri líkur til að hann leiti einungis eftir starfi hjá opinberum aðilum. Af þessu má, virðulegi forseti, álykta að í skólakerfinu skorti á kynningu á atvinnulífinu, á hlutverki starfsgreina innan atvinnuvega, á samverkun framleiðslu- og þjónustugreina, á gagnkvæmum styrk þeirra og hugsanlegum starfsferli fólks, skorti á kennslu um auðlindir og aðstöðu sem byggja megi á framleiðslu eða þjónustu, kennslu um markaðssetningu, stjórnun, verkaskipti og samstarf, skorti á nám sem þroski frumkvæði og framtak sem leysir úr læðingi þörf til sjálfstæðra athafna, þá eiginleika sem eru sterkastir hjá frumkvöðlum í hvaða grein sem þeir svo hasla sér völl.
    Niðurstaða þessara hugleiðinga er að langskólanám okkar, menntun rannsóknir og vísindastörf hafi ekki skilað þjóðinni efnalegum framförum að því marki sem búast hefði mátt við. Til þess skortir frumkvæði hinna menntuðu og þátttöku þeirra í atvinnulífinu sem frumkvöðlar, sem athafnafólk, sem stjórnendur. Aflvaki atvinnulífs og gróðursproti nýrra atvinnutækifæra er stofnun nýrra fyrirtækja á sem fjölbreyttustu sviði athafna, framleiðslu, þjónustu, markaðssetningu og sölu. Við þær aðstæður sem ég hef lýst er tímabært að auka stuðning og hvatningu við frumkvöðla og við starf þeirra á öllum stigum þess, svo og að vakin sé athygli ungs fólk á möguleikum til að vinna sjálft að eigin hugmyndum og skapa sjálfu sér og öðrum atvinnu fyrir eigin framtak. Nýsköpun, þróun nýrra hugmynda allt til starfsemi, fer fram á vegum og innan starfandi fyrirtækja en einnig með starfi einstaklinga sem ekki hafa slíkan bakhjarl ellegar fyrirtæki þeirra eru lítils megnug. Þeir hafa stundum ófullnægjandi vitneskju um hvar stuðnings er að leita og eru oft uppfinningamenn fremur en athafnamenn eða stjórnendur. Öllum þessum aðilum þarf að veita stuðning og að beina þeim til þeirra sem hann geta veitt. Mikilvægt er að beina saman í farveg úrlausn hugmyndar og framboði þekkingar. Þá er okkur brýn nauðsyn að beina námsfólki í framhaldsnámi og háskólanámi að atvinnulífinu svo menntun nýtist víðar en í opinberum störfum eða störfum að hagsmunagæslu.
    Um þessar mundir, virðulegi forseti, er að verða áherslubreyting í stuðningi við rannsókna- og vísindastörf með auknum fjárveitingum og einbeittum fyrirætlunum um að halda þannig áfram, svo og með þátttöku í og aðgangi að rannsókna- og vísindastarfi Evrópubandalagsins. Þá koma um þessar mundir fleiri sjóðir til móts við fleiri fyrirtæki sem vinna að nýsköpun t.d. við tæknivæðingu eða nýjar aðferðir. Tryggja þarf að stuðningur þessara aðila nái einnig til hins almenna manns sem ætlar að stofna og reka eigið fyrirtæki, gerast athafnamaður. Án þess að slíkur frumkvöðull taki að sér að koma hugmynd í framkvæmd verður lítið úr því að niðurstöður rannsókna nýtist. Stuðningur við frumkvöðla er oftast bundinn við það eitt að um tækninýjung sé að ræða en gildi viðskiptahugmyndar sjálfrar er sjaldan metið eða veittur stuðningur út á hana, enda ekki um veðhæfan hlut að ræða. Frumkvöðlar, athafnamenn þroska með sér ákveðna hæfileika. Mér er það vafalaust að unnt er að móta námsefni og kennslu sem beinir nemendum á þá braut og mjög mikilvægt að skólarnir hafi einmitt þessi áhrif. Okkur skortir fólk sem notar niðurstöður rannsókna og þróunarstarfsemi, mótar nýjar hugmyndir til að afla viðskipta og skapar þannig atvinnutækifæri.
    Mikils er um vert að nýtt fyrirtæki geti aflað áhættufjár sem nægir til þess að frumkvöðlar reisi sér ekki hurðarás um öxl og að góð hugmynd fái raunhæft tækifæri til að standast eðlilegar kröfur og samkeppni. Stuðningur við frumkvöðla, sá sem tillagan fjallar um, gæti verið með ýmsum hætti.
    Ein leið er upplýsingamiðlun um hvar stuðnings er að leita, hvar aðstoðar við úrvinnslu er að vænta, hvar ráðgjafar t.d. um markaðsathuganir eða aðrar áætlanir um stofnun fyrirtækis og fjármögnun svo að nokkuð sé nefnt.
    Önnur leið er stuðningsaðgerðir og námsframboð utan skólakerfis fyrir þá sem eru þegar á vinnumarkaði eða hafa lokið hefðbundinni skólagöngu.
    Þriðja leið er námsframboð innan skólakerfisins sem hentar ungmennum sem e.t.v. munu eða hafa þegar afráðið að gerast frumkvöðlar, athafnamenn og stjórnendur eigin starfsemi eða á vegum annarra. Skólanám á þessu sviði hentar einnig til þess að hafa jákvæð áhrif á viðhorf uppvaxandi kynslóða til atvinnuþátttöku. Það mun auka traust ungs fólks á eigin frumkvæði til atvinnusköpunar og áhuga til að kynnast atvinnulífinu og innviðum þess, auðlindum, landkostum, aðstæðum, samgöngum og öðrum þáttum sem gefa möguleika til fjölbreyttrar starfsemi.
    Fjórða leið er að með bóklegu námi innan og utan skóla fari verklegt nám sem nái til úrvinnslu hugmyndar og til þess að koma henni áleiðis til framkvæmdar og í starfsemi með leiðsögn og ráðum reyndra manna.
    Fimmta leið er að beina fjármunum til áhættufjármögnunar í formi eignarhluta eða lána án verðtrygginga á vegum sérstaks frumkvöðlasjóðs eða sérstakra frumkvöðladeilda í starfandi sjóðum sem styðja atvinnuþróun og nýsköpun með viðeigandi skilyrðum.
    Það er segin saga og kynni þeirra sem að starfa að atvinnuþróun og iðnráðgjöf sýnir fram á það að margir frumkvöðlar sem fram koma hafa ekki langa skólagöngu að baki. Rík tilhneiging til atvinnulegs og efnalegs sjálfstæðis leiðir oft til þess að fólk fer snemma út á vinnumarkaðinn og treystir fremur lítið á bóklegt nám. Þessir frumkvöðlar hafa oft mikla þörf fyrir stuðning í formi hagnýtra leiðbeininga og æfinga sem tengir námið sjálft beinni úrvinnslu þeirra hugmynda sem þeir eru að fást við. Það gerir námið raunhæft á öllum stigum og sérstaklega raunhæft fyrir fólkið sem hefur af einhverjum ástæðum afráðið að treysta ekki skólanum eða náminu sem hann býður. Við slíkt nám leggur væntanlegur frumkvöðull mat á sjálfan sig, á getu og vilja til að framkvæma. Hann skoðar viðskiptahugmyndir og metur gildi þeirra. Þá er að sjálfsögðu eftir tilraununum metið hvort skuli kaupa tilbúið fyrirtæki, kaupa leyfi til framleiðslu, sérleyfi eða stofna nýtt fyrirtæki út frá þessari eða annarri viðskiptahugmynd.
    Nú þegar býðst ýmsum frumkvöðlum ráðgjöf, aðstoð við að útfæra hugmyndir og nokkuð úrval námsefnis utan skóla, t.d. með fjölbreyttum námskeiðum skóla Stjórnunarfélags Íslands, með ráðgjafaverkefnum Iðntæknistofnunar Íslands eða rannsóknaþjónustu háskólans. Þeim býðst veruleg aðstoð við leit að upplýsingum og öflun hugmynda eða viðskiptasambanda í gegnum upplýsingaþjónustu háskólans og iðnráðgjafar og atvinnuþróunarfulltrúar um landið veita ráðgjöf og aðstoð af þessu tagi. Ýmsir fleiri hafa komið að þessari aðstoð en hún er enn fremur lítt skipulögð og við Íslendingar höfum fengið ýmsar ábendingar frá erlendum aðilum sérfróðum á þessu sviði um að það kerfi sem við viðhöfum sé flókið, sé ekki skilvirkt. Það gæti átt við um miklu stærri þjóðfélag, en til þess að það nýtist þyrfti miklu þéttari samgöngur. Á þessu kerfi okkar eru ýmsir vankantar og það virðist ekki með öllu sniðið fyrir þjóð sem býr í dreifbýlu landi við miklar vegalengdir og fremur lítið þéttbýli.
    Mikið starf er óunnið til þess að hægt sé að sinna þörfum fólks sem hefur vilja og getu til þess að verða frumkvöðlar og til að veita því hvatningu og þar með að fjölga frumkvöðlum verulega. Sjálf frumkvöðlafræðin, ef það orð er rétt, eru vanþróuð hér á landi. (Forseti hringir.)
    Virðulegi forseti. Ég heyri á bjöllunni að tími minn er á þrotum. Ég vænti þess að umræðan megi fram halda síðar, en að þessu sinni legg ég til að tillögunni verði vísað til síðari umræðu og til hv. allshn. til frekari umfjöllunar og athugunar.