Rannsóknir og þróun fiskeldis fram til aldamóta

150. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 15:17:10 (6705)

     Flm. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta er alveg rétt varðandi stjórnskipulega stöðu fiskeldisins sem þarna kom fram og þess vegna m.a. hefur það verið fjárveiting Alþingis til sérstaks verkefnis í gegnum sjútvrn. sem hefur verið stuðningur við lúðueldið fyrir norðan.
    Varðandi rannsóknaþáttinn þá er þetta alltaf mikið matsatriði. Þar eru náttúrlega eitt grunnrannsóknir og annað eldisrannsóknir sem í raun geta ekki farið fram nema samhliða því sem eldið er að byggjast upp. Þess vegna er mikið til í því sem hv. þm. sagði að fjárfestingin hefði kannski frekar farið fram úr því sem menn voru tilbúnir að gera á hverjum tíma.
    Varðandi bleikjueldið þá held ég að ég standi við það eftir mínum upplýsingum að þar hafi kannski farið nokkuð samhliða eldisrannsóknirnar og uppbyggingin. Þar á ég vel að merkja við eldisrannsóknirnar því þar hafa menn verið að þreifa sig áfram og komist að því að þarna er um að ræða mjög mismunandi tegundir og það er verið að fikra sig áfram hvernig á að standa að eldinu til þess að ekki komi til ótímabærs kynþroska, hvaða tegundir eru bestar og hvaða skilyrði henta best. Þessar upplýsingar liggja orðið nokkuð fyrir. Væntanlega, eins og nú hefur komið fram, þá liggja þær nokkuð fyrir einnig í laxeldinu. Þetta eyðir vonandi að einhverju leyti þeim misskilningi sem kann að hafa verið á milli mín og hv. þm.