Rannsóknir og þróun fiskeldis fram til aldamóta

150. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 15:25:44 (6708)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég vildi fyrst og fremst færa flm. og hv. málshefjanda þakkir fyrir að hefja umræðu um þessi efni í þinginu. Það er sannarlega svo að við höfum orðið fyrir vonbrigðum á undanförnum árum með fiskeldið og hvernig það gekk til en við höfum lagt grunn að því að geta byggt upp öfluga atvinnugrein og eigum að geta lært af þeim mistökum sem gerð hafa verið. Við okkur blasir sú staðreynd eins og fram hefur komið að eldisfiskar verða æ stærra hlutfall af framboði á fiski á heimsmörkuðum og engum vafa undirorpið að ef við ætlum að halda stöðu okkar á mörkuðunum þá þurfum við að eiga hlutdeild í auknu framboði á eldisfiski. Við höfum, eins og hér hefur verið bent á, verið að ná verulegum árangri á ýmsum sviðum. Það hefur verið mjög ánægjulegt að fylgjast með lúðueldi Fiskeldis Eyjafjarðar og af hversu miklum myndarskap þar hefur verið staðið að verki. Ég tek undir með hv. flm. að um margt er það fyrirtæki góður vitnisburður um samstarf einkaaðila og opinberra aðila um tilraunastarfsemi á þessu sviði.
    Ég held að þess vegna sé ærin ástæða fyrir okkur að leggja línur fyrir framtíðina í þessum efnum og efla fyrst og fremst nauðsynlegt rannsóknastarf. Það orkar alltaf tvímælis hvort og í hversu ríkum mæli menn eiga að gera áætlanir um atvinnuuppbyggingu en hér sýnist mér vera alveg augljóst að við þurfum að efla rannsóknir og treysta grundvöll fyrir atvinnustarfsemi af þessu tagi. Hún mun geta haft mikla þýðingu og er nauðsynlegur þáttur í framleiðslu okkar á fiski og stöðu okkar á erlendum mörkuðum.
    Ég vildi fyrst og fremst koma þessum sjónarmiðum á framfæri og þakka flm. fyrir að hafa hreyft þessu máli og treysti því að þingið fjalli um þetta viðfangsefni á málefnalegan hátt og við í þröngri fjárhagsstöðu getum sinnt þessum verkum svo sem vera ber.