Ráðstafanir til að efla fiskeldi

150. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 16:04:21 (6715)

     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Hæstv. forseti. Þetta er nú orðin svo ánægjuleg og nærri því spennandi umræða að ég gat nú ekki á mér setið að fá að taka aðeins þátt í henni þó að ég hafi ekki fram að færa neitt það sem hv. þm. sumir hverjir geta sagt um fiskeldið almennt vegna þess að þeir tala auðvitað af meiri þekkingu heldur en ég að því er alla líffræði og starfrækslu á þessum atvinnuvegi varðar. Hins vegar hef ég svona dálítið erfiða reynslu eins og menn vita af því þegar við ætluðum að spretta úr spori og verða fljótir að ná Norðmönnum í fiskeldi og sömdum við þá sérstaklega. Það er alkunn saga og ég er ekki að rekja hana, en vil þó láta þess getið að þegar Norðmennirnir voru hér í samfélagi við okkur Íslendinga lögðu þeir fram gífurlega mikið fjármagn, allt sitt helsta og besta lið. Meira og minna voru Norðmennirnir að hugsa um þrjár eldisstöðvar sem urðu samanlagt auðvitað þær stærstu á tímabili og Íslendingar reyndu að leggja fé á móti eftir öllum mætti og töpuðu auðvitað miklum fjármunum. En þá sögu er ástæðulaut að rekja að öðru leyti en því að til þess eru vítin að varast þau og hér hafa menn auðvitað bent á hver vítin eru. Við fórum of geyst. Það gerðu Norðmennirnir raunar líka, enda græddu þeir á tá og fingri á þessum fyrstu árum sínum þegar Norsk Hydro var orðinn aðaleigandi að Movi sem var stærsta fiskiræktarfélag Norðmanna og spýtti peningum í reksturinn.
    Sannleikurinn var sá að verðfall varð eins og hér hefur verið rakið og sagan auðvitað öll mjög vel rakin, sérstaklega af hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og raunar hv. þm. Árna M. Mathiesen og fleirum, og það er nauðsynlegt að við ræðum um það því að við höfum nú orðið alla þá þekkingu sem til er í heiminum hygg ég að því er varðar eldi á Atlantshafslaxinum sem er talinn vera konungur fiskanna og það er ekki nýtt, hann er kallaður það enn þá og við viljum auðvitað fylla okkar ár af fiski og þá ekki síst af laxi, þó að t.d. sjóbirtingur sé furðufiskur líka og ekki síður merkilegur. Ég ætla einmitt að fara að reyna að veiða nokkra af þeim á morgun eða hinn daginn og það er ævintýri sem getur gerst þar. Og þegar þetta ævintýri gerðist hér, þá voru ekki ómerkari menn en Snorri heitinn Hallgrímsson prófessor sem voru með

litla stöð á Keldum og það var þar sem tilraunirnar voru gerðar af honum og Kristni Guðbrandssyni. Ég hafði raunar enga trú á því að það væri hægt að græða á því að rækta fisk. Ég mundi nú halda að það væri betra bara að veiða hann og éta hann. Það væri ódýrara en ég skipti brátt um skoðun þegar staðreyndirnar lágu fyrir. Svo urðum við fyrir stóráfalli eins og menn líka muna þegar einhver stærsta bylgja sem um getur reið yfir Vestmannaeyjar þar sem stofnarnir voru. En þó fórust ekki allir stofnanirnir eins og hér hefur verið rakið. Norski stofninn er hér enn og hann er ósýktur. Það eru engir sjúkdómar í þeim stofni, og ber ég nú í tréð, sem hættulegir eru eldinu. Við höfum að því leyti til forskotið. Við getum miklu fyrr og með miklu meira öryggi ef við förum rétt að og gætum okkar að verja náttúruna í þessu tilfelli eins og öðrum, þá gætum við auðvitað selt seiði, ósýkt seiði vegna þess að markaðurinn fyrir Atlantshafslax gæti verið mjög mikill. Það er spurning um verð. Laxinn er kannski 10 sinnum verðmætari en þorskur eða slíkt, getur verið það og þess vegna er þetta ánægjuleg stund að menn eru að gera sér grein fyrir því sem hægt er að gera.
    Ég hef ekki talað ærið mikið um þetta síðustu árin. Mér hefur stundum blöskrað þegar menn hafa talað um það sem eitthvert óskaplegt ólán að við skyldum leggja út í fiskeldi og raunar eldi á mörgum tegundum og við hljótum að gera það. Ég geri mér nú vonir um að það sé hægt ekki bara að tvöfalda afla með því að nýta þau svæði hafsins sem við eigum, 350 mílur á Reykjaneshrygg, 600 mílur á Hatton-Rockall bankanum. Það má kannski tvöfalda aflafeng okkar með því að yrkja skynsamlega fiskinn sem er í sjónum í ofanálag með því að ala meira af þessum fiski, taka ódýra vöru og breyta henni í dýra vöru. Þetta er margsögð saga og ánægjulegt að nú skuli hvert málið af öðru flutt um þetta og ég þakka flm. sérstaklega fyrir það og þeim sem af mikilli kunnáttu og skynsemi hafa rætt um málið.