Sementsverksmiðja ríkisins

150. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 16:24:33 (6720)

     Frsm. meiri hluta iðnn. (Össur Skarphéðinsson) :
    Frú forseti. Ég mæli fyrir meiri hluta áliti hv. iðnn. um frv. til laga um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins. Álitið hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og mælir meiri hluti hennar með því að það verði samþykkt.
    Nefndin fékk umsagnir um málið frá bæjarstjórn Akraness og Starfsmannafélagi Sementsverksmiðju ríkisins, auk þess sem stuðst var við umsagnir frá síðasta þingi.``
    Undir þetta rita Össur Skarphéðinsson formaður, Tómas Ingi Olrich, Sigríður Anna Þórðardóttir, Pálmi Jónsson og Einar K. Guðfinnsson.
    Það hafa staðið deilur, virðulegi forseti, um það hvort rétt sé að gera Sementsverksmiðju ríkisins að hlutafélagi. Það var mikill ágreiningur um þetta mál innan hv. iðnn., bæði á þessu þingi og eins á síðasta löggjafarþingi þegar þetta frv. lá líka fyrir. Það er afstaða meiri hlutans að það sé í mörgum tilvikum eðlilegra og heppilegra að fyrirtæki í eigu ríkisins séu rekin á formi hlutafélaga, jafnvel þó ríkið hafi engin áform um að selja hluta eða allt félagið úr hendi sér. Þetta teljum við að gildi alveg sérstaklega um framleiðslufyrirtæki eins og Sementsverksmiðjuna.
    Rökin fyrir hlutafélagsforminu eru margvísleg. Í fyrsta lagi gefur hlutafélagaformið fyrirtækinu miklu meiri sveigjanleika, t.d. varðandi þátttöku í annarri atvinnustarfsemi, og í tilviki Sementsverksmiðjunnar liggur það fyrir að hún kann í náinni framtíð að gerast þátttakandi í öðrum nýjum fyrirtækjum sem tengjast hennar starfssviði. Slíkar hugmyndir eru nú þegar á kreiki.
    Í öðru lagi mætir fyrirtækið öðrum fyrirtækjum í atvinnulífinu á jafnréttisgrundvelli en þau eru vitanlega flest á formi hlutafélags. Þetta gefur fyrirtækinu aukið svigrúm, m.a. til að verða sér úti um aukið fjármagn. Það vegur í okkar huga þungt að hlutafélagsformið vekur möguleika á því að fyrirtækið kunni einhvern tímann síðar að geta með hlutafjárútboði aflað sér aukins eigin fjár. Fyrir Sementsverksmiðjuna er það ekki síst mikilvægt miðað við núverandi stöðu hennar.
    Í þriðja lagi þá er í hlutafélagalögunum ákvæði um ábyrgð stjórnarmanna og fleiri ákvæði sem skapa almennar leikreglur og stuðla að auknum aga í atvinnurekstri. Slík ákvæði skortir hins vegar í núgildandi lögum en þau taka auðvitað sjálfkrafa gildi um leið og rekstrarformi verksmiðjunnar er breytt í form hlutafélags.
    Í fjórða lagi þá breytist ábyrgð ríkissjóðs á rekstri verksmiðjunnar við að færa hana yfir í hlutafélag, frá því að vera ótakmörkuð ábyrgð yfir í að takmarkast einungis við hlutafjáreign ríkisins í henni.
    Þá má nefna að skattalegt umhverfi verksmiðjunnar breytist líka til samræmis við önnur atvinnufyrirtæki í landinu en eins og menn muna var aðstöðugjaldi létt af þeim en landsútsvar áfram við lýði. Verksmiðjan þarf því á núverandi formi að greiða landsútsvar sem félli niður með löggildingu þessa frv. og vitanlega styrkir það fyrirtækið í þeirri þröngu stöðu sem það er í dag. Menn hljóta líka að horfa til þessa atriðis.
    Síðan vil ég nú nefna það til upplýsingar fyrir þá ágætu hv. framsóknarmenn sem hér eru í þingsölum að einmitt sökum þeirra ávinninga sem menn í atvinnulífinu telja fólgna í hlutafélagaforminu þá er hér á landi ör þróun yfir til þess forms frá öðrum formum atvinnurekstrar. Það má sérstaklega minna á það að mjög áberandi aðili í íslensku athafnalífi, þ.e. Samband ísl. samvinnufélaga, hefur kosið að fara þessa leið og það tel ég auðvitað merkilegt og gott. ( JGS: Það sýnir nú að formið bjargar engu.) Hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson kallar fram í að ekkert geti bjargað Sambandinu, ég vona að það sé ekki alveg rétt.
    Því hefur líka verið haldið fram að það eigi ekki að breyta Sementsverksmiðju ríkisins yfir í hlutafélag vegna þeirrar einokunaraðstöðu sem félagið nýtur í krafti fjarlægðarverndar. Það þykja mér engin rök. Hlutafélagsformið hentar einfaldlega rekstri verksmiðjunnar betur en hið núverandi.
    Það hefur jafnframt verið sagt að fyrir liggi að selja verksmiðjuna eftir að búið er að breyta henni í hlutafélag. Það er rétt að einstakir stjórnmálamenn hafa haft þá skoðun uppi. ( Gripið fram í: Hvað um

hvítu bókina?) Ég legg hins vegar áherslu á það og vænti þess að hv. þm. Jóhann Ársælsson hlusti nú, af því að ég veit að hann er vel læs og hefur lesið það frv. sem við ræðum hér, að í því frv. er ekki leitað heimildar til þess að selja hluta úr hinu tilvonandi hlutafélagi og það skiptir miklu máli. Það er alls ekki leitað heimildar til sölu.
    Ég vil jafnframt líka minna á það að þau lög sem eru í gildi um jöfnun flutningskostnaðar breytast ekki neitt. Það er mikilvægt atriði. Síðast en ekki síst þá hefur því verið haldið fram af andstæðingum þessa frv. að með því að breyta Sementsverksmiðju ríkisins yfir í hlutafélag sem kynni fræðilega einhvern tímann í framtíðinni að verða selt, komast í einkaeigu, e.t.v. að meiri hluta, þá mundi það leiða til þess að verð á sementi mundi hækka. Þetta er rangt. Það eru sérstök lög í landinu sem gilda einmitt um fyrirtæki sem búa við einokunaraðstöðu eða fákeppni eins og Sementsverksmiðja ríkisins. Hér á ég við lögin um hið nýja samkeppnisráð. Það er auðvitað alveg ljóst að samkeppnisráð hefur fullan möguleika á að grípa inn í verðþróun og það skiptir verulega miklu máli.
    Virðulegi forseti. Það er afstaða meiri hluta hv. iðnn. að þetta frv. verði samþykkt sem fyrst.