Sementsverksmiðja ríkisins

150. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 16:55:51 (6726)

     Frsm. meiri hluta iðnn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvernig menn rökræða innan Framsfl. en rökræður eru bersýnilega það sem hv. þm. Finnur Ingólfsson kallar þrýsting og fortölur. Staðreyndin er sú að innan hv. iðnn. hef ég ævinlega orðið við öllum óskum sem hafa komið frá stjórnarandstöðunni um að leita umsagnar tiltekinna aðila. Það gilti líka um Starfsmannafélag Sementsverksmiðjunnar og bæjarstjórnarinnar. Mér hefði verið í lófa lagið að leggjast af mínum 105 kg þunga á stjórnarandstöðuna og hafna þeirri beiðni vegna þess að það lágu fyrir umsagnir frá þessum aðilum frá því í fyrra. Ég gerði það ekki.
    Varðandi það sem hv. þm. sagði um að verið væri að brjóta gerða kjarasamninga, þá er það ekki rétt hjá honum. Í fyrra gaf ríkisstjórnin yfirlýsingu í tengslum við kjarasamninga um að ekki yrðu gerðar breytingar á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. En Friðrik Sophusson lýsti því yfir úr þessum stóli að hann hefði eigi að síður gert talsmönnum BSRB glögga grein fyrir því að það hefði ekki áhrif á afstöðu ríkisstjórnarinnar varðandi þau tvö frumvörp sem þetta mál varðar. Hér er því ekki verið að brjóta eitt eða neitt.
    Síðan langar mig, virðulegi forseti, að minna á að 31. des. 1985 voru sett lög um Jarðboranir hf. Nákvæmlega sama grein var þar inni. 20. maí 1988 voru sett lög um breytingu á lögum um skipulag ferðamála. Nákvæmlega sama grein var inni. 23. maí 1989 voru sett lög um stofnun hlutafélags um Gutenberg. Nákvæmlega sama grein var inni. Og hvað eiga allar þessar dagsetningar sameiginlegt, virðulegi forseti? Jú, þær eiga það sameiginlegt að Framsfl., flokkur hv. þm., var þá í stjórn og átti aðild að þessu, nákvæmlega því sama og maðurinn er að mótmæla hérna núna. Hvers konar þverstæða er eiginlega föst í kolli hv. þm.?