Sementsverksmiðja ríkisins

150. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 17:15:28 (6735)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Hv. 11. þm. Reykv., Finnur Ingólfsson, hefur nú gert glögga grein fyrir afstöðu okkar stjórnarandstæðinga til þess frv. sem hér liggur fyrir í einstökum atriðum samkvæmt því nál. sem við höfum gefið út um málið og er á þskj. 869. Það er í sjálfu sér þess vegna ekki miklu við það að bæta né heldur ástæða til þess að fara ítarlega yfir þau sérstöku atriði sem þar eru, en þó eru nokkur atriði sem nauðsynlegt er að hnykkja aðeins á í framhaldi af umræðum sem urðu um þetta mál á síðasta þingi. Þá er kannski rétt að setja það í pínulítið lengra sögulegt samhengi.
    Ég hygg að það hafi verið hv. 2. þm. Reykv., hæstv. fjmrh., sem fyrstur flutti þetta mál á Alþingi á sinni tíð, um það að gera Sementsverksmiðjuna að hlutafélagi. Þannig hefur þetta mál um langt árabil verið mikið keppikefli Sjálfstfl. Sjálfstfl. hefur lagt á það áherslu að gera þessa stofnun að hlutafélagi þó svo að sjálfstæðismenn sem hafa verið í stjórn Sementsverksmiðjunnar hafi mjög oft verið andvígir þeim hugmyndum. Í því sambandi vil ég t.d. nefna hv. fyrrv. þm. og hæstv. ráðherra Friðjón Þórðarson. Engu að síður hefur tiltekinn armur í Sjálfstfl. barist fyrir því með kjafti og klóm að þessi stofnun, þessi verksmiðja, yrði skilyrðislaust hlutafélag og það væri í raun og veru alfa og omega, upphaf og endir alls góðs í tilverunni að Sementsverksmiðja ríkisins yrði Sementsverksmiðjan hf.
    Í síðustu ríkisstjórn er það svo þannig að hæstv. núv. og þáv. iðnrh. Jón Sigurðsson tekur þetta mál Sjálfstfl. upp á sína arma og þæfði það mjög í ríkisstjórninni, eiginlega alveg frá því að hún var mynduð. Það tókst þá með góðra manna hjálp að koma í veg fyrir að þetta frv. yrði afgreitt. Það gerðist innan ríkisstjórnarinnar til að byrja með og það gerðist að lokum í efri deild Alþingis ef ég man rétt.
    Nú er þetta kappsmál Sjálfstfl. hins vegar komið svo langt að ekki einasta hefur hæstv. iðnrh. lagt hér málið fram eins og hann gerði reyndar líka á síðasta þingi, heldur hefur það gerst sem er út af fyrir sig pólitísk tíðindi að hv. 17. þm. Reykv., sem er formaður þingflokks Alþfl., hefur lagst í þennan víking líka og þar með orðinn eins og hæstv. iðnrh. fórnarlamb Sjálfstfl. með vissum hætti og ber auðvitað að harma það því að þar er á ferðinni vænn drengur frá pólitísku sjónarmiði séð.

    Nú er það hins vegar svo að hv. 17. þm. Reykv., það verð ég að segja eins og er, virðulegi forseti, flytur mál sitt mikið betur heldur en hæstv. iðnrh. ( PP: Enda lærðari maður.) og er með miklar prófgráður eins og kunnugt er, en það dugir nú ekki alltaf til eins og hv. þm. þekkja líka. En það er greinilegt að hv. þm. er að efla sig til enn meiri mannvirðinga í Alþfl. og gerir það nú með því að vaða fram með hvert einkavæðingarfrv. á fætur öðru einmitt á þessum degi. Fyrr í dag var það Síldarverksmiðjan og nú er það Sementsverksmiðjan.
    Nú kunna menn að vera þeirrar skoðunar að það sé rétt að einkavæða einhver fyrirtæki og búa til úr þeim hlutafélög og það höfum við oft gert. Við breyttum Gutenberg, Jarðborunum og einhverjum fleiri

kannski í hlutafélög. Það er sjálfsagt mál og ekkert á móti því. Hins vegar hljóta menn að spyrja sig þeirrar spurningar, hvað er unnið með því að gera fyrirtækin að hlutafélögum og maður spyr þá um það frá fyrirtæki til fyrirtækis vegna þess að þeir sem segja að öll fyrirtæki eigi að vera hlutafélög eru ofstækismenn og þeir eru ekki marktækir í þessu sambandi. Þess vegna hljóta skynsamir menn að spyrja sig: Hvað er það sem mælir með því eða á móti að hvert fyrirtæki fyrir sig verði hlutafélag eða ekki hlutafélag?
    Hv. þm. 5. þm. Vesturl., Guðjón Guðmundsson, fór hér með trúarsetningarnar áðan mjög vel og var prýðilega flutt og samin ræða og þar gerði hann grein fyrir því að aðalástæðan væri sú að rekstrarformið og stjórnarkerfið yrði allt sveigjanlegra ef fyrirtækið yrði hlutafélag. Menn hafa komist upp með það að nota þetta orðafar ,,að rekstrarformið verði sveigjanlegra`` hver fram af öðrum á undanförnum vikum, mánuðum, missirum og árum. En hvað er til í þessu í sjálfu sér? Er það endilega þannig að það þurfi að breytast í grundvallaratriðum þó að fyrirtækið verði hlutafélag og það verði þar með sveigjanlegra? Er ekki alveg hugsanlegt að útbúa innra kerfi ríkisfyrirtækis þannig að það verði sveigjanlegra? Auðvitað er það hægt. Auðvitað er hægt fyrir menn að leggjast yfir það að reyna að finna form á ríkisfyrirtækjum sem gerir þau sveigjanlegri og samkeppnisfærari við allt sitt umhverfi. Auðvitað er það hægt. En menn hafa ekki viljað gera það af því að menn hafa tekið trú á hlutafélög og einkavæðingu í raun og veru burt séð frá efni málsins að öðru leyti.
    Hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur líka flutt ágæt rök út af fyrir sig út frá sínum bæjardyrum fyrir því að þetta fyrirtæki verði hlutafélag. En það eru aðalrökin að þetta verði sveigjanlegra. Af hverju er ekki lagst yfir það að reyna að breyta rekstri ríkisfyrirtækisins sem slíks þannig að það geti jafnvel sem ríkisfyrirtæki tekið með eðlilegum hætti þátt í almennri viðskiptasamkeppni sem um er að ræða í þjóðfélaginu á hverjum tíma? Það gera menn ekki. Menn taka trú á kennisetningar og það er slæmt.
    Það er sérstaklega slæmt, virðulegi forseti, vegna þess að það liggur um leið fyrir í þessu máli að því fylgja margir gallar að gera fyrirtækið að einkafyrirtæki. Í fyrsta lagi liggur það fyrir að verðið á sementinu mun hækka. Það er alveg augljóst mál að það hlýtur að hækka vegna arðsemiskröfu hluthafanna í þessu fyrirtæki og af ýmsum öðrum ástæðum sem menn hafa hér rakið þannig að verðið á sementinu mun ekki lækka. Það mun að öllum líkindum hækka.
    Í öðru lagi er það galli á málinu að það er greinilega stefnt í stórfelld málaferli við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja vegna þeirra opinberu starfsmanna sem eru inni í þessu fyrirtæki. Það hafa lögmenn BSRB sagt á fundum iðnn., bæði nú í vetur og í fyrra, að ríkinu muni verða stefnt jafnóðum og 4. gr. þessa frv. verður að lögum af því að í greininni felst ákvæði sem stangast á við 67. gr. stjórnarskrárinnar sem fjallar eins og kunnugt er um eignarrétt. Af hverju ekki þá með hliðsjón af þessu tvennu að skoða málið aðeins betur og kanna hvort ekki sé hægt að finna form á ríkisfyrirtækinu sem gerir það hæfara til almennrar samkeppni í þjóðfélaginu? Nei, það er ekki gert. Heldur er vaðið áfram með málið.
    Nú var þetta mál rætt ítarlega á síðasta þingi, m.a. í orðaskiptum sem við áttum hér, ég og hæstv. fjmrh. og þá komst ég þannig að orði: Auðvitað þarf að vera leið til þess að einkavæða fyrirtæki. Auðvitað þarf að vera til samkomulag um það við ríkisstarfsmenn að þeir geti orðið starfsmenn í einkafyrirtækjum. Auðvitað verður það að vera hægt, það segir sig sjálft. En til þess að það verði hægt, þá verða menn að semja sig í gegnum vandann við samtök opinberra starfsmanna þannig að ferlið sé samningsbundið frá því að maður er ríkisstarfsmaður og þangað til hann verður starfsmaður í einkafyrirtæki. Og ég fór fram á það við hæstv. fjmrh. á síðasta þingi að það yrði farið í viðræður við BSRB um almennar aðgerðir við einkavæðingu fyrirtækja þannig að menn lentu ekki í stöðugu stríði.
    Hæstv. fjmrh. tók því út af fyrir sig vel og sömuleiðis hæstv. forsrh. sem blandaði sér þá í þær umræður. En greinilegt er að það hefur ekkert gerst í þeim málum. Ríkisstjórnin hefur vanrækt þessar viðræður við opinbera starfsmenn. Það er mjög alvarlegur hlutur, hæstv. forseti, alvarlegur hlutur, sérstaklega kannski um þessar mundir því að nákvæmlega þessa daga standa yfir viðræður um kaup og kjör fólksins í landinu. Ríkisstjórnin á í þeim viðræðum ásamt aðilum vinnumarkaðarins. Ríkisstjórnin hefur verið treg til þeirra viðræðna. Það hefur tekið hana langan tíma, allt upp í sólarhring að koma sér til fundar við aðila vinnumarkaðarins í landinu. En viðræður standa yfir og á sama tíma og viðræður standa yfir er verið að keyra hér í gegn mál sem opinberir starfsmenn telja að stríði gegn lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og sjálfri stjórnarskránni. Ég segi alveg eins og er, virðulegi forseti, ég botna ekki í því af hverju jafnágætir menn og hv. 17. þm. Reykv. láta sig hafa það að reyna að fara í gegnum þingið með mál af þessum toga einmitt við núverandi aðstæður. Þegar þetta mál var tekið út úr iðnn. núna fyrir nokkrum vikum, þá ræddum við um það, fulltrúar stjórnarandstöðunnar, hvort ekki væri hugsanlegt að fá aftur til viðtals í nefndinni fulltrúa opinberra starfsmanna. Þá var því borið við að mig minnir að það hefði verið rætt við þá í fyrra. Það er alveg rétt, það var rætt við þá í fyrra. En það segir ekki neitt í þessu sambandi því það hefði þurft að ræða við þá núna. Og þegar við gagnrýnum meiri hlutann í iðnn., þá gerum við það vegna þess að við teljum að okkur hafi verið neitað um að fá þessa aðila til viðtals núna.
    Ég vil segja það fyrir mitt leyti, hæstv. forseti, ég tel að það sé óhjákvæmilegt með hliðsjón af því að nú standa yfir viðræður um kaup og kjör á hinum almenna vinnumarkaði og ríkisvinnumarkaðinum líka að málið verði á nýjan leik tekið inn í iðnn. á milli 2. og 3. umr. þannig að þá verði hægt að ræða við fulltrúa opinberra starfsmanna og aðra aðila sem hér eiga hlut að máli. Og ég er viss um að meiri hlutinn í iðnn. muni taka þeirri ósk vel, ekki síst með hliðsjón af því að núna standa þessar viðræður yfir. Það

er auðvitað ekki einleikið, virðulegi forseti, hvernig hæstv. ríkisstjórn tekur á málum af þessu tagi. Það eru fleiri mál í gangi þar sem menn eins og eru að gera sér skemmtun að því að storka verkalýðshreyfingunni í landinu.
    Annað mál er t.d. í félmn. þar sem gert er ráð fyrir því að gerbreyta stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins. Menn geta haft þá skoðun að það sé vitlaust kerfi eins og það er núna út af fyrir sig. Ég ætla ekki að ræða það hér. En núverandi stjórn Húsnæðisstofnunar er kjarasamningaatriði og auðvitað eiga menn þá við þessar aðstæður að segja: Úr því að kjarasamningar eru í gangi, þá á að ræða þessi mál við verkalýðshreyfinguna. En það er sagt nei við því og það er ákveðið að þverskallast og taka málin út úr nefndinni þó að kjarasamningar séu í gangi á sama tíma. Það getur auðvitað vel verið að ríkisstjórnin sé þeirrar skoðunar að verkalýðshreyfingin í landinu sé fullkomlega á hnjánum og hún sé ekki einu sinni viðtalsverð. En ég verð að segja alveg eins og er að þessi vinnubrögð, þessi forakt gagnvart verkalýðshreyfingunni er ný af nálinni því um langt árabil hefur það auðvitað verið regla að ríkisstjórnir, mér liggur við að segja að flokkar sem hafa verið í þeim á undanförnum 20 árum eða svo, hafa ævinlega rætt við fulltrúa aðila vinnumarkaðarins um mál af þessum toga. En nú er öldin önnur. Nú er komin stjórn sem er svo sigurviss og valdaviss að hún leyfir sér að vaða hér í gegnum þingið með frumvörp sem hafa í för með sér grundvallarbreytingu á stöðu verkafólks í landinu við viðkomandi fyrirtæki. Og það er ekki spurt um eitt eða neitt. Og þetta gengur ekki, virðulegi forseti. Það gengur ekki.
    Af þessum ástæðum er auðvitað óhjákvæmilegt að fara fram á það að með einhverjum hætti verði afgreiðslu þessa máls frestað og það verði tekið til viðræðna við verkalýðshreyfinguna og aðila vinnumarkaðarins um ákvæði 4. gr. frv.
    Þá kem ég að því, hæstv. forseti, og það eru rökin sem hv. talsmaður iðnn. stendur á í þessu máli, að fyrri stjórnir hafi samþykkt frumvörp með nákvæmlega eins ákvæðum. Það eru annars vegar lög um Jarðboranir ríkisins og hins vegar lög um Gutenberg og það er út af fyrir sig rétt, það hefur verið gert. Og þá er spurningin sú, ekki af hverju stóðu menn að því heldur er spurningin fyrst og fremst sú væntanlega, af hverju hafa opinberir starfsmenn þá ekki fari í mál út af þeim samþykktum? Það má svo sem stríða mér og hv. þm. Finni Ingólfssyni fyrir það að við höfum staðið að því, það er eitt, það er svona skemmtiatriði í sjálfu sér, en menn geta spurt sig: Af hverju hafa þá opinberir starfsmenn ekki farið í mál út af þessum ákvæðum sem voru samþykkt í lögunum um Ríkisprentsmiðjuna Gutenberg og Jarðboranir ríkisins? Svarið er það að þeir starfsmenn sem voru hjá Gutenberg tóku nær allir, ég veit ekki, hvort þeir voru alveg allir, en þeir tóku nær allir laun og höfðu kjör samkvæmt samningum á hinum svokallaða almenna vinnumarkaði.
    Samkvæmt upplýsingum sem ég fékk hjá Gesti Jónssyni hæstaréttarlögmanni núna fyrir nokkrum mínútum, þá er það aðalástæðan fyrir því að menn hafa ekki sótt ríkið vegna starfsmanna þessara fyrirtækja en hitt stendur eftir að opinberir starfsmenn og lögmenn þeirra munu sækja ríkið vegna starfsmanna þeirra fyrirtækja sem hér um ræðir, Sementsverksmiðjunnar og Síldarverksmiðjunnar. Þess vegna er það ekki málefnalegt innlegg að nefna Jarðboranir ríkisins og Ríkisprentsmiðjuna Gutenberg í þessu sambandi, en það getur hins vegar verið skemmtiatriði að spyrja mig og hv. þm. Finn Ingólfsson að því, af hverju við stóðum að þessum málum á sínum tíma. En það er ekki málefnalegt innlegg og staðan er sem sagt þessi, að það eru allar horfur á því að verði þetta samþykkt fái ríkið á sig stórfelld málaferli út af þessum hlutum.
    Hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði áðan og benti á að ekki væri gert ráð fyrir því að selja þetta fyrirtæki. Þetta yrði ríkisfyrirtæki og hann benti þar máli sínu til stuðnings á 8. gr. frv. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Ríkissjóður getur ekki boðið hlutabréf í Sementsverksmiðjunni til sölu nema hafa til þess samþykki Alþingis.`` Það er rétt.
    Hvað er samþykki Alþingis? Þarf sérstök lög? Nei. Það þarf heimild á fjárlögum, já. Ég tel að þetta sé of veikur fyrirvari ef menn eru á annað borð að tala um það að hafa einhvern fyrirvara. Ég teldi þess vegna eðlilegt að segja: Nema hafa til þess samþykki Alþingis í sérstökum lögum. Það er allt annað mál. Ég tel að sjöttu greinar fyrirvari haldi í raun og veru að engu leyti í þessu sambandi.
    Þá segir hv. 17. þm. Reykv. að í gildi verði áfram reglur eða lög um jöfnun sementsverðs. Og það er út af fyrir sig mikilvægt, en þá spyr ég hv. þm. og aðra þingmenn, ég hef ekki sett mig alveg inn í það mál, að því: Stenst það reglur á hinu Evrópsku efnahagssvæði að það sé jafnað sementsverði á Íslandi frá þessari verksmiðju, stenst það örugglega? Ég held að það sé hlutur sem menn þurfa að velta fyrir sér hvort það verður ekki þannig að fljótlega muni koma kröfur frá hinu Evrópska efnahagssvæði um það að menn aflétti þessari verðjöfnun þannig að um verði að ræða jafna stöðu hjá þeim fyrirtækjum sem kunna að koma við sögu á þessum markaði? Ég spyr. Ég held þess vegna að það sé þess vegna ekki rétt hjá hv. 17. þm. Reykv. að reyna að setja þetta mál þannig upp að þetta sé nú sakleysislegt frv. og ríkið eigi öll bréfin og Alþingi þurfi að samþykkja og Jöfnunarsjóðurinn sé áfram og allt í besta lagi þannig. Það er ekki þannig. Staðreyndin er sú að það er verið að ákveða að selja Sementsverksmiðju ríkisins og gera hana að einkafyrirtæki, það er svo einfalt, og henda henni út í hringiðu markaðarins, það er verið að ákveða það. Það er ekki nokkur leið að neita því. Ég er sannfærður um það að á bak við yfirlýsingar hv. 17. þm. Reykv. er alvara og þungi og ég vænti þess að vegur hans verði hinn mesti í Alþfl. áður en langur tími líður og

honum takist að leiða menn þar til betri vegar í öllum málum á komandi árum svo lengi sem hann verður þar sem hann verður kannski eitthvað þótt hann eins og alþjóð veit hafi þegar verið boðinn velkominn í fleiri stjórnmálaflokka ef þörf krefur. En ég segi bara alveg eins og er, ég efast um að hann ráði neitt við að bremsa þetta þó að hann vilji kannski. Og þó að ég meti hv. þm. mikils, þá tel ég að það sé ekki nægilega gott að samþykkja frv. sem gæti þá samkvæmt hans eigin rökstuðningi verið með sérstöku nýju bráðabirgðaákvæði sem kemur fram í lok frv. 11. gr.: ,,Lög þessi öðlast þegar gildi. Hlutafélag samkvæmt 1. gr. yfirtekur Sementsverksmiðju ríkisins 1. janúar 1994 og falla þá jafnframt úr gildi lög nr. 35/1948, um sementsverksmiðju.`` Össur Skarphéðinsson alþm. er ábyrgur fyrir því að þjóðin eigi þetta fyrirtæki. Þessi fyrirvari hans, sem er eina hálmstráið sem hann hangir á, dugir mér ekki þó ég meti hv. þm. mikils. Þess vegna tel ég skynsamlegast að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar.