Sementsverksmiðja ríkisins

150. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 17:40:02 (6737)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er út af fyrir sig nauðsynlegt að halda því til haga að starfsmannamál hjá Gutenberg voru með nokkuð öðrum hætti eins og ég rakti áðan en þessara stofnana sem við erum að ræða um í dag. Ég verð hins vegar að segja að mér finnst satt að segja ekki skynsamleg aðferð hjá löggjafanum að afgreiða mál með verulegri áhættu um málssókn gegn ríkinu og viðurkenna hana, viðurkenna þá áhættu eins og hv. þm. gerði áðan í stað þess að reyna samkomulagsleið áður við opinbera starfsmenn. Þess vegna hlýt ég auðvitað að endurtaka þá áherslu sem fram kom í máli mínu áðan um það að hv. þm. beiti sér fyrir því að það fáist viðræður við BSRB milli 2. og 3. umr. um þetta mál um leið og ég þakka honum auðvitað fyrir að ég tel að hann hafi með orðum sínum, verði þetta frv. að lögum, í rauninni hjálpað lögmönnum BSRB með afgerandi hætti.