Sementsverksmiðja ríkisins

150. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 18:15:39 (6743)

     Frsm. meiri hluta iðnn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Greinilegt er að hinn öflugi þingflokksformaður Framsfl., hv. þm. Páll Pétursson, hefur brugðið öflugum múl á hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson því að hann er gersamlega málþola hér í þessum sölum. Hann tekur til máls í hverju málinu á fætur öðru og ég verð að segja að ég vildi gjarnan að þingmaðurinn talaði sjaldnar en þá um meira. Ég skil ekki hvers vegna menn eru að eyða tíma þingsins með því að lesa næstum því heilar greinar sem birtast í Morgunblaðinu.
    Að því er varðar ummæli mín sem hv. þm. vitnaði í þá vil ég að það komi alveg skýrt fram að ég talaði einmitt um það í fyrstu ræðu minni í dag að eitt af því sem hlutafélagaformið þjónaði væri einmitt það að það gerði fyrirtækjum kleift að afla eiginfjár með hlutafjárútboði. Það þýðir auðvitað að hlutir verða seldir úr fyrirtækinu. En ég vil að það komi skýrt fram alveg eins og ég sagði í fyrstu ræðu minni að ég

tel að miðað við eðli fyrirtækisins eigi ríkið ekki að sleppa hendi sinni af meirihlutaeign í fyrirtækinu. Ég vona að menn skilji það en fari ekki að gera mér upp einhverjar skoðanir.