Sementsverksmiðja ríkisins

150. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 18:52:09 (6747)

     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Frv. um Sementsverksmiðju hefur verið til umræðu og verð ég að segja eins og er, virðulegur forseti, að það hefur verið heldur holur hljómur að mér hefur fundist í málflutningi þeirra stjórnarandstæðinga. Ekki síst þeirra ágætu hv. þm. sem hafa verið þátttakendur í einkavæðingu á borð við sölu Gutenberg og Jarðborana ríkisins og annarra fyrirtækja. Mér hefur fundist málflutningurinn afar sérkennilegur og ástæða þess að ég tek til máls í þessari umræðu var málflutningur hv. 1. þm. Norðurl. v. sem mér fannst vera þess eðlis að ekki væri hægt að láta því ómótmælt. Hv. þm. hélt því fram að þetta frv.

væri nánast sett fram til að ná sér eitthvað sérstaklega niður á þeim ágætu mönnum sem hafa setið í stjórn Sementsverksmiðju ríkisins. Slíkur málflutningur finnst mér fráleitur. Það er nú þannig að það breytist margt í þjóðfélaginu. Við höfum kynnst því m.a. að þær breytingar hafa náð til þeirra ágætu manna sem hafa haft með að gera stjórn Sambandsins og sambandsfyrirtækjanna, þeir hafa tekið eftir því að þær þjóðfélagsbreytingar sem hafa orðið hafa leitt það af sér að menn hafa talið það heppilegt rekstrarform að koma á hlutafélögum.
    Þær breytingar sem hafa átt sér stað í rekstri atvinnufyrirtækja og þátttöku ríkisins í rekstri atvinnufyrirtækja hafa leitt til þess að menn hafa komist að raun um að hlutafélagsformið væri ákjósanlegt rekstrarform og m.a. varðandi þau fyrirtæki sem ríkið jafnvel á að öllu leyti.
    Hér er til umfjöllunar frv. til laga sem felur það í sér að gera Sementsverksmiðju ríkisins að hlutafélagi og ég vil lýsa því yfir að ég tel að þetta sé mjög mikilvægt og æskilegt skref sem hér er verið að stíga. Og ég harma að það skuli hafa verið haldið uppi hræðsluáróðri gagnvart ágætu starfsfólki þessa fyrirtækis og ákveðnir stjórnmálamenn hafa lagt sig fram um að gera þetta mál tortryggilegt.
    Þá vil ég einnig nefna að mér finnst undarlegur málflutningur eins og hjá hv. 2. þm. Vesturl., þegar þingmaðurinn gerir mikið úr því og reyndar fordæmir að það skuli vera gerð krafa um það að ríkisfyrirtæki eins og Sementsverksmiðjan skili einhverjum arði í ríkissjóð. Ég verð að segja alveg eins og er að það ber að fagna því alveg sérstaklega að svo vel skuli vera hægt að standa að rekstri slíks fyrirtækis að slík krafa sé gerð og hún er í fyllsta máta eðlileg að mínu mati.
    Að öðru leyti vil ég segja það að ég tel að hér sé ekki á nokkurn hátt hætta á ferðinni fyrir starfsfólk þess fyrirtækis sem hér um ræðir. Það eru hlutafélög um allar jarðir, m.a. eru á Akranesi rekin fjölmörg öflug og mjög stór hlutafélög, jafnvel leitað til almennings um þátttöku í þeim rekstri, það viðgengst um allt land. Þannig að ég held að það sé engin hætta á ferðinni þó Sementsverksmiðja ríkisins verði gerð að hlutafélagi.
    Ég vil taka undir með hv. 17. þm. Reykv. að ég tel að það sé eðlilegt að ríkið eigi meiri hluta í þessu félagi en það komi að sjálfsögðu til greina að hlutafé þess verði aukið og öðrum gefið færi á að verða hluthafar í rekstri fyrirtækisins og þar á meðal að sá möguleiki verði að starfsfólk verði hluthafar. En ég tel að þetta sé framfaraspor. Það er í takt við okkar veruleika í fyrirtækjarekstri að gera Sementsverksmiðju ríkisins að hlutafélagi og ég styð þetta frv. heils hugar og lýsi því yfir, ekki síst vegna orða hv. 9. þm. Reykv., sem var að velta fyrir sér afstöðu einstakra þm. Sjálfstfl.