Sementsverksmiðja ríkisins

150. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 18:57:54 (6748)

     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Þetta er ekki sambærilegt að breyta Jarðborunum ríkisins, Gutenberg eða Landssmiðjunni í hlutafélag eða Sementsverksmiðjunni. Þetta eru fyrirtæki sem eru allt annars eðlis og það var engin ástæða til þess að reyna að halda þeim fyrirtækjum í eigu ríkisins. Þau voru ekki einokunarfyrirtæki og þeirra tími sem ríkisfyrirtæki gat svo sem verið liðinn. Við tókum að vísu þarna áhættu eða það hefur komið í ljós að við tókum áhættu vegna lífeyrismála starfsmanna. Við framsóknarmenn höfum í stjórnarsamstarfi heimilað að sýna frv. um að breyta Sementsverksmiðjunni í hlutafélag á fyrri þingum en við höfum ekki látið það ganga fram. Við erum því ekki ábyrgir fyrir því. Það er ekkert annað en vantraust á þingkjörna fulltrúa í stjórn Sementsverksmiðjunnar að halda því fram að ráðherraskipuð stjórn yrði fyrirtækinu betri.