Sementsverksmiðja ríkisins

150. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 18:59:22 (6749)

     Ingibjörg Pálmadóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 1. þm. Vesturl. gat þess réttilega að það eru mörg hlutafélög í landinu og jafnvel á Akranesi. Þá langar mig til að spurja hv. þm. að því: Gerir hann engan greinarmun á því hvort fyrirtæki er eitt sinnar tegundar á landinu eða samkeppnisfyrirtæki? Setur hann algerlega samasemmerki við það? Það geri ég ekki. Hann gerði það líka að máli hér að ég gagnrýndi það að Sementsverksmiðju ríkisins er gert að greiða arð, 15 millj., burt séð frá afkomu fyrirtækisins. Það fordæmi ég. Ofan á aðra skatta er Sementsverksmiðjunni gert að greiða 15 millj. kr. arð burt séð frá því hvernig staða fyrirtækisins er, sem er erfið um þessar mundir eins og allra fyrirtækja. Og hv. þm. talaði um það í lok máls síns að hann teldi eðlilegt að selja hlutabréf í fyrirtækinu þvert ofan á það sem hv. 5. þm. Vesturl. hefur sagt hingað til. Það þykja mér tíðindi.