Sementsverksmiðja ríkisins

150. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 19:07:23 (6755)

     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það gengur nú auðvitað illa sem vonlegt er hjá hv. 1. þm. Vesturl. að koma því frá sér hvernig það kemur heim og saman að hann hefur þá skoðun að það eigi að selja af fyrirtækinu en hv. 5. þm. Vesturl. hefur allt aðra skoðun og hv. 17. þm. Reykv. hefur sömu skoðun og hv. 5. þm. Vesturl. að það eigi ekki að selja fyrirtækið.
    Auðvitað liggur það í augum uppi að ef það verður farið að selja hlut í þessu fyrirtæki þá munu varnirnar bresta. Forræði ríkisins á fyrirtækinu er auðvitað mjög mikilvægt vegna þess að þetta er einokunarfyrirtæki í eðli sínu. Og ég skil það aftur á móti betur núna af hverju hv. 1. þm. Vesturl. talar svona. Hann lýsti því mjög greinilega áðan að hann finnur engan mun á þessu fyrirtæki og einhverjum öðrum iðnfyrirtækjum í landinu. Hann telur engan mun vera á þessu og telur að samkeppni við þetta fyrirtæki með innflutningi sé raunhæf. Hún hefur ekki verið það á undanförnum árum, hún hefur alls ekki verið raunhæf.