Sementsverksmiðja ríkisins

150. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 19:22:15 (6760)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég mótmæli þessu. Eftir samkomulagi við hæstv. forseta féllst ég á að fresta máli sem átti að vera fyrsta dagskrármál morgundagsins um endurskoðun á lögum um vátryggingar sem er fylgifrv. EES og er mjög mikilvægt frv. Það hefur kostað að nú hafa liðið hartnær 10 dagar án þess að það mál hafi komist á dagskrá og ég mótmæli því að dagskrá morgundagsins sé breytt. Hins vegar er ég að sjálfsögðu reiðubúinn til þess að sitja hér eitthvað lengur til að hv. þm. Svavar Gestsson geti mælt fyrir frv. sínu um atvinnuleysistryggingar og hann komist til útlanda, eins og hann gerði ráð fyrir, næsta mánudag en ég get ekki ábyrgst að umræðum um það mál ljúki á þeim fáu mínútum sem eftir kunna að vera af þessu kvöldi. En mér er ekkert að vanbúnaði, virðulegi forseti, að sitja eitthvað fram eftir og greiða fyrir máli stjórnarandstæðings með sama hætti og stjórnarandstaðan hefur ávallt greitt mjög lipurlega fyrir málum ríkisstjórnarinnar þegar líkt hefur staðið á.