Réttindi þeirra sem ekki hafa atvinnu

150. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 20:13:06 (6769)


     Flm. (Svavar Gestsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. heilbrrh. fyrir þær ábendingar sem hann kom með og ég geri ráð fyrir því að flm. taki þeim yfirleitt vel þegar málið kemur til meðferðar í nefnd. Ég verð þó að segja það varðandi fjórar vikurnar þá finnst mér að það líti kannski dálítið öðruvísi út en hjá öðrum vegna þess að við erum þar að tala um námsmenn t.d. og það er auðvitað eðlilegt að þetta eigi sér dálítinn aðdraganda og ég veit ekki hversu handfljót stjórn sjóðsins getur verið við að afgreiða slíka aðila sem eru utan hins almenna kerfis og það er hugsunin á bak við þetta að það verður kannski örlítið flóknara að taka þessa aðila inn í bótakerfið en aðra. Ef menn vilja hafa biðtímann styttri, þá er það náttúrlega að sjálfsögðu ágreiningslaust af okkar hálfu.
    Hæstv. heilbrrh. lagði á það mikla áherslu að okkur hafi legið mikið á í þessu máli. Út af fyrir sig er það alveg rétt. Ég tel að það hafi legið mikið á að taka þessi mál fyrir og satt að segja beið ég talsvert eftir því að hæstv. ríkisstjórn kæmi með frv. um þessi efni. Hæstv. ráðherra skýrði frá því mig minnir í september að það væri verið að vinna í því þannig að ég bjóst við því fyrir löngu og mér fannst nauðsynlegt orðið að koma þessu máli á dagskrá, líka með hliðsjón af því að þessi mál eru til meðferðar í þeim kjarasamningum sem nú standa yfir milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar þannig að ég vildi gjarnan koma þessum hugmyndum inn í þá umræðu. Hvort menn hafa svo flýtt sér um of að einhverju leyti getur auðvitað alltaf verið og það hefur bara sinn gang.
    En ég tel að umræðurnar hafi verið góðar og gagnlegar, bæði það sem kom fram hjá hæstv. ráðherra og hv. þm. Geir Haarde. Ég segi svo varðandi sinnaskiptin: Auðvitað er það alveg rétt. Við alþýðubandalagsmenn höfum viljað taka mjög mikið tillit til forustumanna okkar í verkalýðshreyfingunni varðandi þessi mál. Þeir hafa verið mjög andvígir því að bæta þarna fleirum við. Málið er leyst með tilteknum hætti í okkar frv. Mér er það alveg ljóst, menn geta kallað þetta sinnaskipti út af fyrir sig en veruleikinn er líka breyttur, því miður. Það eru núna fleiri atvinnuleysingjar á Íslandi en nokkru sinni fyrr.