Réttindi þeirra sem ekki hafa atvinnu

150. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 20:15:21 (6770)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Út af fyrir sig er það alveg rétt, enda kemur það fram í athugasemdum með frv. sjálfu að því er aðeins ætlað að vera umræðugrundvöllur því að ef menn færu að samþykkja þetta frv. eins og fram hefur komið, þá væri verr af stað farið en heima setið. Út af fyrir sig er gagnlegt að taka svona mál til umræðu á Alþingi, en það er alveg auðsjáanlegt að þetta frv. er aldrei hægt að samþykkja. Það vona ég að hv. flm. sé nú ljóst. Hvort þeir vilja engu að síður halda því til streitu eða draga það til baka og endurbæta það og flytja það aftur veit ég ekki. Það voru nú ekki nema örfáir dagar á milli þess að frv. hv. alþýðubandalagsmanna kom fram og frv. ríkisstjórnarinnar var lagt fram. Að sjálfsögðu kemur fram í grg. með því frv. hverjir sömdu það. Að sjálfsögðu var haft um það óopinbert samráð við verkalýðshreyfinguna og voru margir þar á bæ sem sáu það frv. í ýmsum myndum þess.
    Ástæðan fyrir því að það frv. kom ekki fram fyrr en núna var einfaldlega sú að menn vildu nýta þetta samráð sem allra best og sýna sem flestum þær hugmyndir sem þar var verið að vinna úr. Það er bara af hinu góða. Frv. ríkisstjórnarinnar liggur fyrir. Það er að sjálfsögðu framkvæmanlegt og verður vonandi samþykkt.