Vátryggingarstarfsemi

151. fundur
Föstudaginn 02. apríl 1993, kl. 10:50:49 (6775)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Aðdragandi þess frv. sem hér liggur fyrir, er nú orðinn alllangur. Nefnd til að endurskoða lög um vátryggingarstarfsemi var skipuð í ágústmánuði árið 1989 af þáv. trmrh., hv. þm. Guðmundi Bjarnasyni. Gildandi lög, nr. 50/1978, eru í meginatriðum frá árinu 1973 þegar fyrsta heildarlöggjöfin var sett hér á landi á þessu sviði. Var löggjöfin því komin til ára sinna og endurskoðunar þörf í ljósi breyttra tíma og breyttra aðstæðna.
    Nefndin starfaði með nokkrum hléum á þessu tímabili en samningaviðræður EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsins um myndun Evrópsks efnahagssvæðis hófust á svipuðum tíma og nefndin var skipuð. Sú stefna var mörkuð í nefndinni að við heildarendurskoðun laganna yrði miðað við aðlögun að Evrópulöggjöfinni í samræmi við niðurstöður þessara samningaviðræðna. Störf nefndarinnar á árunum 1989 og 1990 voru því einkum fólgin í undirbúningsvinnu og öflun gagna en nú liggur fullbúið frv. fyrir.
    Sérstök löggjöf er hvarvetna í gildi um vátryggingarstarfsemi undir eftirliti opinberra stjórnvalda og hefur svo verið víðast hvar frá því um seinustu aldamót eða jafnvel fyrr. Löggjöf Norðurlandaþjóða í þessum efnum stendur á mjög gömlum merg og þegar sett var fyrsta heildarlöggjöfin hér á landi á áttunda áratugnum, miklu seinna en víðast hvar annars staðar, var löggjöf Norðurlanda einkum höfð til hliðsjónar.
    Einnig er nú tekið mið af sambærilegri löggjöf nágrannaþjóða í frv. þessu. Einkum hefur í því sambandi verið litið til dönsku laganna en ástæðan fyrir því er sú að þau hafa verið löguð að reglum Evrópubandalagsins og eru gild á hinu Evrópska efnahagssvæði. Einnig hefur verið fylgst með því lagastarfi sem á sér stað annars staðar vegna EES-samningsins, einkum í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Hér er þó um sjálfstætt frv. að ræða sem miðast við íslenskar aðstæður og á sér ekki nákvæma fyrirmynd neins staðar annars staðar.
    Ástæða þess að sett er sérstök löggjöf um vátryggingarstarfsemi og um opinbert eftirlit með henni er einkum hið félagslega hlutverk vátrygginga. Hlutverk slíkra trygginga er að veita vernd og fjárhagslegt öryggi gegn ófyrirsjáanlegum áföllum og tjónum sem sífellt eiga sér stað. Vátryggingar varða flesta ef ekki alla þegna í nútímaþjóðfélagi og mikil nauðsyn er að starfsemi vátryggingarfélaga sé rekin á heilbrigðum og traustum grundvelli og að gætt sé hagsmuna þeirra sem sækja til þeirra þjónustu og rétt eiga á bótum.
    Vátryggingarfélög bera mikla áhættu og mikið fjármagn fer um þeirra hendur. Þau hafa með höndum vörslu fjár vátryggingartaka sem lagt er í sameiginlegan sjóð til greiðslu bóta til þeirra sem verða fyrir tjóni. Hinir vátryggðu hafa yfirleitt ekki aðstöðu til að meta fjárhagsstöðu þeirra sem þeir skipta við eða gera sér grein fyrir þeim kjörum sem þeir semja um. Af þessum ástæðum er hvarvetna talið nauðsynlegt að ríkisvaldið taki að sér að hafa eftirlit með starfsemi vátryggingarfélaga og fái ríkar heimildir til að taka í taumana ef eitthvað fer úrskeiðis. Þess vegna er löggjöf um vátryggingarstarfsemi fyrst og fremst löggjöf í þágu neytenda.
    Miklar breytingar hafa átt sér stað bæði hér á landi og annars staðar frá því að lögin voru sett á áttunda áratugnum og frv. sem hér er lagt fram tekur mið af þeirri þróun. Lengst af hefur vátryggingarstarfsemin hér á landi verið mjög afmarkað og þröngt svið. Staðlaðir skilmálar hafa verið í boði og samræmdir iðgjaldataxtar oft með beinum afskiptum og ákvörðunum hins opinbera um þá fyrir fram, samkeppni takmörkuð og samstarf og samráð ríkt milli félaga í markaðsmálum. Starfsemin hefur auk þess að mörgu leyti búið við þröng ytri skilyrði, svo sem varðandi ávöxtun fjármuna og fjárfestingar. Þetta hefur verið að breytast að undanförnu þrátt fyrir óbreytta löggjöf. Vátryggingarstarfsemi tengist nú æ meir öðrum sviðum viðskipta, fjármála og þjónustustarfsemi í kjölfar þess að ýmsar reglur hafa verið rýmkaðar og hömlum verið aflétt innan lands og milli landa og ávöxtunarmöguleikar eru nú mun fjölbreyttari en þeir voru áður. Samkeppni eykst og stöðugt fjölbreyttari tegundir vátrygginga eru á boðstólum. Jafnframt eykst þörfin fyrir upplýsingar og þjónustu vátryggingartökum til handa og að áhersla sé lögð á neytendavernd.
    Sú stefna er mörkuð í frv. að á sama tíma og heimildir vátryggingarfélaga til starfsemi á sviðum er tengjast vátryggingarstarfseminni eru rýmkaðar og ýmsum hömlum og takmörkunum er aflétt verði ákvæði á sviði neytendaverndar og varðandi verksvið og skyldur Tryggingaeftirlitsins skýrarari og skilvirkari. Vátryggingarfélögin beri sjálf ábyrgð á eigin starfsemi en afskipti hins opinbera verði fólgin í eftiráeftirliti í stað fyrirframforsjár en að heimildir til slíks eftirlits og afskipta séu mjög ríkar og skýrar.
    Frv. gerir ráð fyrir því að fullnægt verði ákvæðum samningsins um Evrópskt efnahagssvæði eins og hann liggur fyrir nú á Alþingi. Samningurinn gerir ekki ráð fyrir myndun sameiginlegs vátryggingarmarkaðar á öllu svæðinu nema að takmörkuðu leyti. Starfsleyfi heimaríkis veitir rétt til að veita þjónustu hvar sem er á svæðinu án sérstakrar atvinnustöðvar í þeim greinum vátrygginga sem nefndar eru stóráhætta, en það eru vátryggingar fyrst og fremst í stærri atvinnurekstri og í sjótryggingum, t.d. í fiskiskipatryggingum, í flugtryggingum og farmtryggingum. Nokkrir tugir fyrirtækja hér á landi, eigendur skipa og flugvéla og farmflytjendur, munu því frá gildistöku samningsins geta vátryggt hjá erlendu vátryggingarfélagi á hinu Evrópska efnahagssvæði ef þeir svo kjósa án þess að félagið þurfi að hafa starfsleyfi sem gefið er út hér á landi eða sérstaka atvinnustöð hér á landi.
    Sama gildir á líftryggingasviðinu þegar menn kaupa líftryggingu að eigin frumkvæði án atbeina líftryggingarfélags eða umboðsmanna þeirra.
    Menn hafa hins vegar farið mun hægar í sakirnar hjá Evrópubandalaginu á vátryggingarsviðinu en á ýmsum öðrum sviðum fjármála, viðskipta og þjónustu í þá átt að samræma löggjöf, aflétta hömlum og falla frá gildandi reglum heima fyrir. Lög um vátryggingarsamninga verða ekki samræmd á þessu stigi í aðildarríkjunum og því geta lög annarra ríkja átt við um vátryggingar sem keyptar eru annars staðar. Vátryggingarskilmálar geta verið torskildir og ýmis vandamál komið upp þegar sækja þarf bætur úr hendi vátryggingaraðila í fjarlægu landi. Nauðsynlegt er því að huga að neytendahliðinni jafnframt því sem hömlum er aflétt á fjármála- og viðskiptasviði og að gæta þannig réttarstöðu hinna vátryggðu.
    Menn hafa verið nokkuð á eftir, ekki síst hér á landi, að móta stefnu í neytendamálum og samkvæmt EES-samningnum er látið nægja að aflétta nú hömlum í þeim greinum vátrygginga og fyrir þá þjóðfélagshópa sem ekki eru taldir í jafnmikilli þörf fyrir neytendavernd og ýmsir aðrir. Starfsleyfi útgefið hér á landi og atvinnustöð hér er því áfram skilyrði samkvæmt frv. þegar um er að ræða vátryggingar sem nefndar eru fjöláhætta, þ.e. einkum vátryggingar heimila, fjölskyldna og minni fyrirtækja. Á næsta ári er ætlunin að fella inn í EES-samninginn ákvæði tilskipana sem Evrópubandalagið hefur nýlega samþykkt og heimila vátryggingarstarfsemi á grundvelli starfsleyfis heimaríkis á svæðinu öllu án þess að sérstök atvinnustöð sé skilyrt þar sem vátryggt er. Gert ráð fyrir því að þetta taki gildi frá miðju árinu 1994.
    Þess ber að geta að skilyrði þess að félag megi veita hér þjónustu án atvinnustöðvar verður ávallt að eftirlitsstjórnvöld heimaríkis félagsins hafi fjallað um málið og sent Tryggingaeftirlitinu hér á landi m.a. staðfestingu þess að félagið uppfylli tilskildar kröfur um gjaldþol vegna starfseminnar í heild og að það hafi starfsleyfi í þeim greinum sem það hyggst veita þjónustu. Má félagið ekki hefja þessa starfsemi fyrr en eftirlitið hér á landi hefur staðfest að það hafi fengið öll tilskilin gögn í hendur.
    Þess ber einnig að geta að vátryggingarfélagi verður ávallt skylt að hafa hér á landi sérstakan fulltrúa í lögboðnum ábyrgðartryggingum ökutækja til að annast tjónsuppgjör þó að ekki sé að öðru leyti atvinnustöð hér á landi. Það er sem sagt fyrst og fremst eftirlit með fjárhag og útgáfu starfsleyfis sem verður í höndum erlendra eftirlitsstjórnvalda. Eftirlit gistiríkis hefur áfram ríkar heimildir til afskipta í samræmi við gildandi löggjöf sem þar gildir og almennt er gert ráð fyrir auknu samstarfi milli eftirlitsstjórnvalda aðildarríkjanna. Slíkt samstarf hefur raunar um langt skeið átt sér stað á Norðurlöndum og í Evrópu á sviði eftirlitsmála.
    Um erlend félög með staðfestu utan Evrópsks efnahagssvæðis gilda samkvæmt frv. hliðstæðar reglur og í gildi eru samkvæmt núgildandi lögum, þ.e. hér verður ávallt að vera föst atvinnustöð í öllum greinum vátrygginga í formi aðalumboðs og einn aðalumboðsmaður með heimilisfesti hér á landi og varnarþing. Þó eru skýrari reglur en áður líkt og í frv. almennt um heimildir eftirlitsins til að grípa til ráðstafana þegar hætta er á að hagsmunir hinna vátryggðu kunni að vera í hættu. Þá er nýmæli að setja sem skilyrði starfsleyfis til handa félagi með aðalaðsetur utan Evrópsks efnahagssvæðis að íslensk vátryggingarfélög njóti ekki lakari réttar í heimalandi þess en hið erlenda félag hér og er það að sjálfsögðu gert til þess að tryggja að sömu reglur geti gilt um íslensk vátryggingarfélög á slíkum svæðum eins og verið er að veita erlendum vátryggingarfélögum hér.
    Samkvæmt EES-samningnum ber eftirlitsstjórnvöldum aðildarríkja að hafa samráð við stofnanir Evrópubandalagsins og EFTA um veitingu starfsleyfis til félaga sem hafa staðfesturétt utan svæðisins og sérreglur gilda um aðild þeirra að svæðinu öllu. Þetta er eðlileg krafa þar eð starfsleyfi í einu aðildarríki veitir sjálfkrafa aðgang að öllu svæðinu til jafns við félög sem þar starfa. Er því mikilvægt að samræmdum reglum sé beitt um aðgang að mörkuðum aðildarríkja og að upplýsingum sé miðlað um þá aðila sem fá slíkan aðgang.
    Ekki er til í lögum tæmandi skilgreining á vátryggingarstarfsemi en slík starfsemi er bæði viðskiptalegs, fjármálalegs og félagslegs eðlis og er rekin af einkafélögum og félögum og stofnunum samkvæmt sérlögum. Lagt er til að lögin eigi við um vátryggingarstarfsemi í víðum skilningi en takmarkist ekki einvörðungu við vátryggingarstarfsemi á viðskiptalegum grundvelli eins og er samkvæmt núgildandi lögum. Þó er ekki gert ráð fyrir breytingu á því sem nú gildir að lögin ná ekki til lífeyrissjóða, sjúkrasjóða, eftirlaunasjóða atvinnulífsins, Tryggingasjóðs eða þess háttar nema þessir sjóðir hafi með höndum aðra vátryggingarstarfsemi.
    Nýmæli er einnig í frv. að kveðið er á um að félög sem stofnuð eru með sérlögum skuli með sama hætti og einkavátryggingarfélög vera í hlutafélagsformi, gagnkvæmu formi eða öðru lögmæltu félagsformi. Lagareglur EES-samningsins kveða á um að félög stofnuð með lögum skuli starfa á jafnréttisgrundvelli og við sömu rekstrarskilyrði og einkafélög. Verða að vera fyrir hendi skýrar reglur t.d. um ábyrgðarfé, um eignaraðild, um slit og um ráðstöfun eigna. Skort hefur á það hér á landi við stofnun sérfélaga með lögum að þess hafi verið gætt að setja slík ákvæði. Þá hefur skort lagaákvæði um hið gagnkvæma félagsform vátryggingarfélaga. Úr því er bætt í frv., t.d. varðandi stofnun félaga, og með öðrum sérákvæðum um gagnkvæm vátryggingarfélög sem ekki hafa áður verið í lögum um vátryggingarstarfsemi.
    Sú meginregla gildir áfram samkvæmt frv. að vátryggingarfélag má ekki reka starfsemi sem er óskyld vátryggingarstarfsemi. Á hinn bóginn er eins og fyrr segir talið rétt að rýmka möguleika vátryggingarfélaga á að reka hliðarstarfsemi sem er í eðlilegum tengslum við hefðbundna vátryggingarstarfsemi og að ávaxta fjármuni með fjölbreyttara hætti en til þessa hefur verið heimilt. Er lagt til að vátryggingarfélög megi eiga meiri hluta í fyrirtæki sem rekur fjármálastarfsemi að því tilskildu að fyrirtækið sé háð opinberu eftirliti en það er óheimilt nú. Einnig mega þau samkvæmt frv. eiga meiri hluta eða hafa virk yfirráð í félagi sem rekur leyfilega hliðarstarfsemi. Þetta er í samræmi við þróunina hvarvetna á þessu sviði og ætti að styrkja samkeppnisstöðu íslenskra vátryggingarfélaga á markaðinum. Jafnframt er gert ráð fyrir heimildum Tryggingaeftirlitsins til að hafa eftirlit með félögum sem reka slíka hliðarstarfsemi og eftirlitið getur gert kröfu um að slík starfsemi sé rekin í sérstöku félagi.
    Þá er einnig lagt til að heimilað verði að mynda félagasamstæður þar sem margháttuð starfsemi á fjármála- og þjónustusviði og vátryggingarstarfsemi, bæði líf- og skaðatryggingarsvið, geti farið saman og að móðurfélag í slíkri samstæðu þurfi ekki að vera vátryggingarfélag. Tryggingaeftirlitinu er þá falið eftirlit með slíkri félagasamstæðu í heild og skarast þá starfssvið þess og bankaeftirlitsins sem einnig getur haft eftirlitsskyldum að gegna varðandi slíkar samstæður. Til greina getur komið, og raunar mjög vel til greina, að rétt sé að sameina Tryggingaeftirlitið og bankaeftirlitið í eina stofnun því það má segja að þessi eftirlit starfi á sambærilegum vettvangi að skyldum eftirlitsstörfum. Þó er ekki gerð tillaga um að það sé gert í þessu frv.
    Meginreglan er, eins og í núgildandi lögum, að líftryggingar skuli reka í sérstöku félagi vegna þess hve skuldbindingar eru oft til langs tíma á því sviði. Rétt þykir þó, sem er nýmæli í frv., að heimila undanþágur frá því þegar um áhættulíftryggingar er að ræða sem eru reknar með öðrum vátryggingum og til skamms tíma í senn og megi þá reka þær í skaðatryggingarfélagi. Þetta á t.d. við um hóptryggingar félaga og félagasamtaka sem teknar eru sem ein heild og eðlilegt þykir að verið geti hjá einu og sama félagi.
    Í frv. er felld niður krafan um íslenskan ríkisborgararétt stofnenda vátryggingarfélags en gerð er krafa um búsetu meiri hluta þeirra hér á landi. Þá er gerð krafa um búsetu stjórnenda vátryggingarfélags stjórnenda hér á landi. Ráðherra getur þó veitt undanþágu frá búsetuskilyrðinu. Nýmæli er að krafist er óflekkaðs mannorðs og að stofnendur og stjórnendur hafi aldrei verið sviptir forræði á búi sínum. Er það í samræmi við ákvæði frumvarpa sem lögð hafa verið fram á Alþingi í tengslum við EES-samninginn á viðskipta- og fjármálasviði og þykir rétt að gera eigi minni kröfur á sviði vátryggingarstarfsemi. Sömu kröfur eru gerðar til miðlara og umboðsmanna vátryggingarfélaga sem hér kunna að starfa í sjálfstæðri atvinnustarfsemi. Á hinn bóginn er samkvæmt frv. ekki gert ráð fyrir að veita aðalumboðsmanni erlends félags með staðfestu utan Evrópsks efnahagssvæðis undanþágu frá skilyrðinu um búsetu hér á landi, enda mundi slík undanþága heimila félagi að starfa á Evrópsku efnahagssvæði án þess að þurfa að vera staðsett þar.
    Ítarlegri ákvæði er að finna í frv. en áður um hvernig staðið skuli að stofnun vátryggingarfélags en um það hafa hingað til eingöngu verið ákvæði í hlutafélagalögum. Í nokkrum atriðum eru reglur samkvæmt frv. strangari eins og þegar um er að ræða mat á greiðslu hlutafjár, stofnfjár eða ábyrgðarfjár í öðru en reiðufé. Leita þarf undanþágu hjá Tryggingaeftirlitinu sem veitt getur heimild til að greiða megi með öðrum hætti en þá liggi fyrir matsgerð um verðmæti þess sem greitt er með. Sama gildir samkvæmt nánari reglum um aðra fjármuni sem lagðir eru fram og eru ekki ætlaðir til greiðsluhluta.
    Þá er nýmæli samkvæmt frv. að samþykktir félags skuli ávallt háðar samþykki Tryggingaeftirlitsins og að breytingar á þeim öðlist ekki gildi fyrr en Tryggingaeftirlitið hefur samþykkt þær. Nýmæli er einnig í samræmi við reglur EES-samningsins að krafist er áætlunar um rekstur og efnahag næstu þrjú árin er ávallt skal fylgja umsókn félags um starfsleyfi. Lagt er til að ráðherra veiti starfsleyfi eins og í núgildandi lögum en jafnframt að meðmæli Tryggingaeftirlitsins skuli liggja fyrir. Einnig er þess krafist líkt og í reglum EES-samningsins að það skuli stutt rökum og tilkynnt umsækjanda skriflega mæli eftirlitið gegn umsókninni. Hafi félag hins vegar þegar fengið starfsleyfi en hyggst taka upp nýja grein vátrygginga eða breyta starfsemi sinni í verulegum atriðum er lagt til í frv. að Tryggingaeftirlitið veiti leyfi.
    Eins og í núgildandi lögum er lagt til að stjórn vátryggingarfélags skipi þrír menn hið fæsta. Hins vegar er lagt til að fellt verði niður gildandi ákvæði um að a.m.k. einn stjórnarmaður vátryggingarhlutafélags skuli valinn sérstaklega með það fyrir augum að gæta hagsmuna vátryggingartaka og hinna vátryggðu reki félagið ekki einvörðungu endurtryggingarstarfsemi. Þetta ákvæði hefur ekki verið virt og lítt verið leitað til þeirra stjórnarmanna sem þannig hafa verið valdir um úrlausnir mála. Er hentugra það fyrirkomulag sem hvarvetna tíðkast að unnt sé að leita til sérstakrar kvörtunar- og neytendaþjónustu eins og frv. gerir ráð fyrir.
    Nýmæli er að kveðið er á um tilkynningarskyldu stjórnar til Tryggingaeftirlitsins við tilteknar aðstæður eins og þegar stjórnendur öðlast vitneskju um málefni sem geta haft úrslitaþýðingu um starfsemi félagsins. Þegar stjórnendur hafa sérstakra fjárhagslegra hagsmuna að gæta vegna þátttöku í umboðs- eða miðlunarstarfsemi vátrygginga og þegar samstæða vátryggingarfélaga er mynduð eða félag mun öðlast meiri hluta eða virk yfirráð í öðru félagi.
    Frv. gerir ráð fyrir að þær reglur verði alfarið teknar upp sem eiga að gilda á Evrópsku efnahagssvæði um gjaldþol vátryggingarfélaga og lágmark þess eigin fjár sem ávallt verður að vera til staðar sem skilyrði starfsleyfis. Gert er ráð fyrir að í reglugerð verði kveðið nánar á um hin tæknilegu atriði útreiknings í þessum efnum. Núgildandi reglur eru um margt hliðstæðar reglum Evrópubandalagsins samkvæmt EES-samningnum en í nokkrum atriðum eru gerðar meiri kröfur sérstaklega á líftryggingarsviðinu.
    Öll hin stærri vátryggingarfélög hér á landi munu uppfylla þessar kröfur nú en nokkur minni félög, fjögur líftryggingarfélög og fjögur skaðatryggingarfélög, þurfa að auka eigið fé sitt til að standast þær. Þessi félög geta samkvæmt sérstöku ákvæði í EES-samningnum fengið allt að tveggja ára aðlögunartíma til að uppfylla þessar kröfur en mega ekki starfa á hinu Evrópska efnahagssvæði utan Íslands fyrr en skilyrðin eru uppfyllt.
    Nýmæli er að vátryggingarfélag skal á hverjum tíma og í öllum greinum vátrygginga halda skrá yfir eignir samsvarandi vátryggingarskuldbindingum sínum en í gildandi lögum eru slík ákvæði einvörðungu á sviði líftrygginga. Í samræmi við reglur EES-samningsins eru settar sérstakar reglur á sviði skaðatrygginga en reglurnar rýmkaðar verulega á sviði líftrygginga. Er það gert í því skyni að tryggja að ávallt séu fyrir hendi eignir í vátryggingarfélagi til að mæta skuldbindingum vegna gerðra vátryggingarsamninga. Á hinn bóginn er aflétt hömlum er tengjast fjármálahlið og ávöxtun. Skulu í reglugerð settar sérstakar reglur um tegund og samsetningu þessarra eigna.
    Helstu frávik frá gildandi reglum er varða ársreikninga vátryggingarfélaga og endurskoðun er að ekki er gert ráð fyrir ítarlegri upptalningu í lögum á þeim gögnum sem fylgja eiga í ársreikningi til Tryggingaeftirlitsins og er talið eðlilegra að þær verði í reglugerð og að Tryggingaeftirlitið sjálft geti sett síkar reglur. Ákvæði eru um sameiginlegan löggiltan endurskoðanda fyrir félagasamstæðu í heild og í þeim sérstöku félögum sem mega reka hliðarstarfsemi. Nýmæli er að kveðið er á um í hvaða formi ársreikningur félags skuli vera og hvað þar skuli koma fram þegar félag eða samstæða félaga birtir reikninga sína opinberlega.
    Þá er lagt til í frv. að vátryggingarfélögum verði skylt að tryggja sér þjónustu tryggingarstærðfræðings eða sérfræðings með sambærilega menntun en samkvæmt gildandi lögum nær sú skylda eingöngu til líftryggingarfélaga. Jafnmikil nauðsyn getur verið á þjónustu af þessu tagi í félögum sem sinna annarri starfsemi en líftryggingarstarfsemi. Hlutverk tryggingarstærðfræðings er m.a. að meta áhættu, reiknigrundvöll, tjónareynslu og vátryggingarskuldbindingar félags. Samkvæmt frv. er stjórn vátryggingarfélags skylt að sjá til þess að félagið hafi yfir að ráða nægilegri sérþekkingu á þessu sviði. Þó má veita undanþágu frá skyldunni að hafa tryggingarstærðfræðing sé að mati Tryggingaeftirlitsins ekki talin þörf á slíku vegna þess að starfsemin er takmörkuð eða af öðrum ástæðum.
    Þá er nýmæli líka að lagt er til að ekki verði í þessum lögum kveðið á um almennt starfsleyfi tryggingarstærðfræðinga en að viðurkenning Tryggingaeftirlitsins þurfi að koma til í hverju tilviki fyrir sig. Samþykki eftirlitið ekki tryggingarstærðfræðing sem félagið hefur mælt með er eftirlitinu skylt að rökstyðja ákvörðun sína. Fleiri nýmæli eru í þessu frv. varðandi störf tryggingarstærðfræðinga, svo sem um rétt þeirra til gagna hjá félagi sem þeir starfa fyrir og rétt til að sitja stjórnarfundi. Þá er fellt niður hefðbundið ákvæði um að tryggingarstærðfræðingur beri mjög víðtæka ábyrgð á því að farið sé eftir grundvelli líftrygginga hjá félagi og þykir tímabært að þeir beri ábyrgð líkt og aðrir bera almennt á störfum sínum.
    Lagt er til að stofnunin sem eftirlit hefur með starfsemi vátryggingarfélaga heiti Vátryggingareftirlitið í staðinn fyrir Tryggingaeftirlitið eins og stofnunin heitir nú. Í frv. er almennt reynt að fylgja þeirri stefnu, eins og unnt er, að skeyta orðinu ,,vá-`` fyrir framan orðið trygging til aðgreiningar en trygging merkir einnig ábyrgðir sem kunnugt er og er einnig oft notað á sviði almannatrygginga og líftrygginga. Í samsetningum og þar sem hefð er komin á er þó yfirleitt orðinu vá sleppt.
    Í frv. er gerð tillaga um mjög veigamiklar breytingar frá ákvæðum gildandi laga um yfirstjórn Tryggingaeftirlitsins en nefndin var ekki einhuga í því efni og skilaði formaður nefndarinnar séráliti. Samkvæmt gildandi lögum skipar ráðherra forstöðumann ótímabundið og heyrir hann beint undir ráðherra og ráðuneyti. Meiri hluti nefndarmanna vill að þriggja manna stjórn sem skipuð er til fjögurra ára í senn fari með yfirstjórn stofnunarinnar. Einn sé tilnefndur af Neytendasamtökunum, annar af Sambandi ísl. tryggingafélaga og einn sé án tilnefningar og jafnframt formaður. Hafi stjórnin eftirlit með starfsemi stofnunarinnar, móti stefnu hennar og fjalli m.a. um árlega fjárhagsáætlun. Skilyrði er samkvæmt núgildandi lögum og einnig samkvæmt frv. að starfsmenn eftirlitsins séu í störfum sínum óháðir vátryggingarfélögum eða þeim aðilum öðrum sem falla undir lögin. Hæfisskilyrði stjórnarmanna eru aftur á móti samkvæmt meirihlutaáliti nefndarinnar einungis þau að þeir séu óháðir einstökum vátryggingarfélögum en meiri hlutinn telur eðlilegt að tilnefningaraðili, hvort heldur er Samband ísl. tryggingafélaga eða Neytendasamtökin, geti tilnefnt stjórnarmenn Tryggingaeftirlitsins úr sínum röðum. Formaður nefndarinnar telur ekki rétt að starfsmenn samtaka vátryggingarfélaga, þeirra aðila sem eftirlit er haft með, eigi að geta setið í stjórn eftirlitsins, haft áhrif á eftirlitsstörfin og m.a. þann fjárhagsgrundvöll sem ákveður svigrúm og umfang þess eftirlitsstarfs en tekjustofn Tryggingaeftirlitsins er gjald sem vátryggingarfélögin greiða árlega til eftirlitsins.
    Formaðurinn telur að Tryggingaeftirlitið eigi að vera óháð neytendastofnun sem starfi í þágu þeirra sem vátryggja hjá vátryggingarfélögum undir yfirstjórn ráðherra og ráðuneytis. Einnig sé óheppilegt að fulltrúar innlendra vátryggingarfélaga sitji í stjórn eftirlitsins í ljósi opnunar markaðarins á Evrópsku efnahagssvæði. Í séráliti formannsins kemur einnig fram að hann telur að athuga beri í ljósi æ nánari tengsla vátryggingarfélaga og annarra fyrirtækja á fjármálasviði hvort henti hér á landi að fara þær leiðir sem farnar hafa verið í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, að sameina eftirlitsstofnanir á þessu sviði í eitt fjármálaeftirlit, þ.e. að sameina Tryggingaeftirlitið og bankaeftirlitið í eina stofnun eins og rætt var um hér áðan.
    Eins og frv. er úr garði gert er stuðst við álit meiri hluta nefndarinnar um þessi áhorfsmál. Ég tel hins vegar eðlilegt og meira en eðlilegt, ég tel æskilegt, að hv. heilbr.- og trn., sem málið mun fá til umfjöllunar, skoði þessi mál sérstaklega sem ágreiningur hefur orðið um í nefndinni. Ég er jafnreiðubúinn til að styðja þá niðurstöðu hvort heldur hún er í samræmi við sérálit formannsins eða álit meiri hluta nefndarinnar.
    Þá er í frv. lagt til að skipun forstöðumanns sé tímabundin til sex ára í senn en ekki ótímabundin eins og nú er og er þar fylgt sömu reglu og um skipun forstöðumanns bankaeftirlits Seðlabanka Íslands.
    Þá er nýmæli að lagt er til að Tryggingaeftirlitinu verði heimilað að veita eftirlitsstjórnvöldum annarra ríkja upplýsingar á því sviði sem lögin ná til sé það liður í samstarfi ríkja um eftirlit með vátryggingarstarfsemi. Þagnarskylda í hlutaðeigandi landi er ávallt skilyrði. Sama gildir um upplýsingar sem Tryggingaeftirlitið kann að fá frá öðrum eftirlitsaðilum. Ákvæði þessi eru sett vegna aukinna alþjóðlegra samskipta og aukins frelsis þjónustuviðskipta sem munu hafa í för með sér nauðsyn víðtæks samstarfs eftirlitsaðila í hinum ýmsu löndum og upplýsingamiðlun í auknum mæli og samræmingu eftirlitsreglna.
    Í frv. er verksvið Tryggingaeftirlitsins skilgreint með mun ítarlegri hætti en í gildandi lögum. Meginverkefni eftirlitsins er að hafa eftirlit með gjaldhæfi og greiðsluhæfi vátryggingarfélaga, mati vátryggingarskuldbindinga, eftirlit með skilmálum á iðgjaldagrundvelli, með viðskiptaháttum, sölustarfsemi og tjónsuppgjöri og að starfrækja neytendamáladeild. Öll þessi svið hafa verið á verkefnaskrá Tryggingaeftirlitsins frá upphafi og eru talin rúmast innan ramma gildandi laga en ákvæði þar að lútandi hafa ekki verið nógu skýr, einkum varðandi neytendaþátt þessarar starfsemi.
    Ströng ákvæði eru fyrir í gildandi lögum um eftirlit með vátryggingarskilmálum og iðgjöldum vátryggingarfélaga og skal senda alla fyrirhugaða skilmála og breytingar á þeim til eftirlitsins til skoðunar og staðfestingar áður en þeir eru teknir í notkun.
    Sama gildir samkvæmt lögunum um iðgjöld. Ákvæðin um fyrirframeftirlit með skilmálum og iðgjöldum eru nú felld niður samkvæmt þessu frv. Samkvæmt því verða skilmálar og iðgjöld vátryggingarfélaga alfarið á ábyrgð félaganna en Tryggingaeftirlitið skal eftir sem áður hafa eftirlit með þeim. Senda skal almenna skilmála og upplýsingar um iðgjaldagrundvöll með umsókn um starfsleyfi í fjöláhættugreinum og ávallt þegar um lögboðnar vátryggingar er að ræða.
    Engin bein ákvæði eru um starfrækslu neytendamáladeildar í gildandi lögum en Tryggingaeftirlitið hefur eftir föngum sinnt kvörtunarþjónustu allt frá árinu 1974 og frá árinu 1981 hefur verið um formlega auglýsta neytendaþjónustu að ræða. Þjónusta af því tagi er nauðsynlegur þáttur í eftirliti með vátryggingarskilmálum og iðgjöldum, sölustarfsemi, tjónsuppgjöri og viðskiptaháttum vátryggingarfélaga. Slík starfsemi veitir eftirlitsaðila mikilvæga vitneskju um hvar skórinn helst kreppir í þessum efnum og hvaða atriði það eru sem eftirlitinu ber að fylgja eftir með sérstökum könnunum og öðrum ráðstöfunum.
    Neytendaþjónustan hefur um árabil mætt þörf sem óumdeilanlega hefur verið fyrir hendi á þessu sviði. Er það mikilvægt atriði í frv. að lagt er til að lögfest verði að eftirlitið skuli starfrækja neytendamáladeild. Sú starfræksla kemur ekki í veg fyrir að þörf geti verið fyrir neytendaþjónustu á þessu sviði á vegum fleiri aðila eins og tíðkast í nálægum löndum, svo sem á vegum vátryggingarfélaganna sjálfra og neytendasamtaka.
    Eins og í gildandi lögum eru samkvæmt frv. engar takmarkanir á heimildum Tryggingaeftirlitsins til að gera þær kannanir sem eftirlitið telur ástæðu til hverju sinni á hinum ýmsu þáttum starfseminnar og það á rétt á að fá öll þau gögn og upplýsingar sem það telur þörf á til að geta sinnt eftirlitshlutverki sínu. Samkvæmt frv. ná þessar heimildir nú einnig til leyfilegrar hliðarstarfsemi félaganna að því leyti sem nauðsyn krefur, svo og til starfsemi miðlara og umboðsmanna.
    Í frv. er reynt að móta skýrari reglur um verkaskiptingu milli eftirlitsins annars vegar og ráðherra og ráðuneytis hins vegar. Almenna reglan er sú að veiting starfsleyfis og afturköllun þess er í höndum ráðherra svo og að setja almennar reglur, t.d. um fjárhagsskilyrði og reikningsskil, og að veita undanþágur frá gildandi ávæðum en ýmiss konar tæknileg atriði og nánari útfærsla gildandi reglna verði í höndum eftirlitsins.
    Sú stefna er óbreytt samkvæmt frv. sem verið hefur og er í nálægum löndum að litið er svo á að starfsemi eftirlitsins sé fyrst og fremst í þágu vátryggingartaka og vátryggðra og því sé rétt að kostnaðurinn við starfsemina sé borinn af þeim og greiddur af vátryggingaraðilum. Samkvæmt frv. er ábyrgð ríkissjóðs á greiðslu kostnaðar umfram álagt gjald alfarið felld niður en samkvæmt núgildandi lögum ber ríkissjóði að greiða það sem umfram kann að vera hrökkvi álagt gjald ekki til að mæta kostnaði við rekstur eftirlitsins. Starfsemin verði alfarið reist á sértekjum og er lagt til að hámark eftirlitsgjald verði hækkað nánast um þriðjung til að auka svigrúm vegna óvæntra útgjalda. Þá er nýmæli að heimilt verður samkvæmt frv. að leggja á einstök félög sérstakt gjald þegar þörf er sérstakra kannanna sem ekki telst eðlilegt að jafna á öll félögin og ákveði Tryggingaeftirlitið álagningu þess.
    Sérstakur kafli í frv. er helgaður miðlun vátrygginga og umboðs- og sölustarfsemi og er kaflinn í heild nýmæli í íslenskum lögum að fáeinum ákvæðum undanskildum. Hér á landi hefur miðlun eða umboðsstarfsemi a.m.k. síðari ár verið rekin í mjög litlum mæli sem sjálfstæð atvinnustarfsemi en talið er víst að þessi starfsemi muni gegna æ mikilvægara hlutverki á vátryggingarmarkaði í náinni framtíð í framhaldi af myndun Evrópsks efnahagssvæðis og sameiginlegs innri vátryggingarmarkaðar. Neytendur munu í auknum mæli þurfa á upplýsingum og aðstoð að halda um kjör og innihald við kaup vátrygginga og við tjónsuppgjör. Er því mikilvægt að settar verði reglur í þágu neytenda um þessa starfsemi og að eftirlit verði haft með henni og eru þær reglur settar í frv. þessu.
    Nýlega var ítrekað með sérstökum tilmælum frá Evrópubandalaginu, sem líka munu eiga við um EES-samninginn, að setja beri nánari reglur m.a. um skráningu þessarar starfsemi og að kröfur verði gerðar um menntun og fagþekkingu. Reglur aðildarríkjanna eru mismunandi í þessum efnum. Sums staðar eru vægar kröfur gerðar og starfsemin ekki háð sérstöku starfsleyfi, annars staðar hafa verið sett sérstök lög.
    Það er skilyrði samkvæmt gildandi lögum að enginn hafi atvinnu af því að miðla vátryggingum til vátryggingarfélaga sem ekki hafa starfsleyfi á Íslandi og gildir sú meginregla áfram samkvæmt frv. Heimilt verður að miðla vátryggingum sem teljast til stóráhættu til vátryggingarfélaga á Evrópsku efnahagssvæði svo og líftryggingum teknum að eigin frumkvæði líftryggingartaka enda verði gætt skilyrða um tilkynningarskyldu vátryggingarfélagsins til eftirlitsstjórnvalda heimaríkis og um skyldur þess eftirlits að láta Tryggingaeftirlitinu í té tiltekin gögn og upplýsingar.
    Rétt þykir, sem er nýmæli, að veita heimild til undanþágu frá meginreglunni þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi svo sem þegar áhætta er af því tagi að hún fæst ekki vátryggð hjá félögum sem hér hafa starfsleyfi og nauðsyn ber til að fá fleiri aðila til að taka þátt í að bera vátryggingaráhættuna. Nefna má t.d. virkjanir hér á landi eða náttúruhamfarir sem dæmi um áhættu af þessu tagi.
    Fellt er niður gildandi ákvæði sem gerir einstaklingum og öðrum skylt að sækja um leyfi til ráðherra hyggist þeir vátryggja erlendis verðmæti sem eru í eigu viðkomandi. Hefur verið erfitt að framfylgja þessu ákvæði í reynd og er það raunar í andstöðu við almenn ákvæði EES-samningsins að binda slíkt í lög.
    Miðlunar- og umboðsstarfsemi sem sjálfstæð atvinnustarfsemi er skilgreind í frv. í samræmi við reglur EES-samningsins. Gerður er greinarmunur á vátryggingarmiðlurum, sem starfa hlutlaust gagnvart vátryggingarfélögum og ekki á vegum þeirra, og vátryggingarumboðsmönnum sem starfa fyrir tiltekin vátryggingarfélög. Þriðji hópur starfsmanna á þessu sviði eru vátryggingarsölumenn einstakra vátryggingarfélaga sem bjóða vátryggingar í þeirra nafni og eru annaðhvort fastir starfsmenn þeirra eða lausráðnir til sölustarfa. Kveðið er á um skilyrði leyfis til að miðlunar- og umboðsstarfsemi sem rekin er sem sjálfstæð atvinnustarfsemi og hún skal skráð hjá Tryggingaeftirlitinu og vera undir eftirlit þess.
    Hér á landi er nú enga sérmenntun eða þjálfun að fá á þessu sviði og er gert ráð fyrir að ráðherra setji nánari reglur þar um svo og um tryggingar sem lagðar skulu fram. Vátryggingarmiðlara ber að aðstoða við að koma á vátryggingarsamningi og veita áfram almenna aðstoð, svo sem við endurnýjun samnings og leiðbeiningar þegar tjón ber að höndum hafi hann miðlað vátryggingunni.
    Sérstakar reglur eru settar um miðlun trygginga til líftryggingarfélaga á Evrópsku efnahagssvæði sem hér hyggjast veita þjónustu án sérstakra atvinnustöðvar og um undirritun sérstakrar yfirlýsinga hjá miðlara í þeim efnum í samræmi við ákvæði EES-samninga og er ætlað að tryggja það að líftryggingartaka sé ljóst frá byrjun að um hið erlenda líftryggingarfélag sem hann leitar upplýsinga hjá gilda reglur sem áhrif geta haft á réttarstöðu hans samkvæmt vátryggingarsamningi og að eftirlitsreglur erlends ríkis gildi. Einnig felst í yfirlýsingunni staðfesting líftryggingartakans á því að hann leiti upplýsinganna að eigin frumkvæði.
    Miðlarinn skal svo fljótt sem auðið er koma fjármunum sem hann tekur við og eru í vörslu hans í hendur réttra aðila. Hann skal að öllu leyti halda fjármunum þessum aðgreindum frá eigin fjármunum. Þá er hann skyldugur að upplýsa viðskiptavini um þá þóknun sem hann fær frá vátryggingarfélagi vegna viðskiptanna sé þess óskað. Miðlarinn er einnig skyldur að veita Tryggingaeftirlitinu upplýsingar um þá samninga sem hann á aðild að.
    Kveðið er á um sjálfsagða skyldu umboðsmanna og sölumanna að upplýsa viðskiptavini um skilmála og iðgjöld áður en gengið er frá vátryggingarsamningi og er vátryggingarfélagi gert skylt að sjá til þess að starfsemi sölumanna þeirra fari fram með hagsmuni vátryggingartaka og vátryggðra fyrir augum. Gerð er sú krafa að í öllu sem frá vátryggingarmiðlurum eða vátryggingarumboðsmönnum fer til almennings skuli koma fram að þeir séu skráðir. Sölumenn skulu bera og framvísa skilríkjum við störf sín. Tryggingaeftirlitinu ber að hafa eftirlit með því að vátryggingarmiðlarinn starfi sjálfstætt og skal miðlarinn gera grein fyrir því hversu dreifð viðskiptin eru á einstök vátryggingarfélög. Þetta ákvæði er samhljóða ákvæði í reglum EES-samningsins.
    Meginbreytingin á gildandi lögum varðandi flutning vátryggingarstofnana og samruna félaga er að orðalagi og hugtökum verði breytt í það horf sem er að finna í tilskipunum félagaréttar Evrópubandalagsins um hlutafélög sem verða hluti EES-samningsins og ítarlegri ákvæði er að finna í frv. um þetta efni. M.a. skulu drög að samrunaáætlun og yfirfærslu stofnana liggja frammi við umsókn. Kveðið er á um flutning vátryggingarstofna erlendra félaga sem hafa aðsetur á Evrópsku efnahagssvæði. Meginreglan er að eftirlitsstjórnvöld heimaríkis félags sem tekur við stofninum skal staðfesta að gjaldþol þess félags sé fullnægjandi að teknu tilliti til hins nýja stofns. Samþykki Tryggingaeftirlitsins fyrir flutningi stofnsins þarf þó ávallt að liggja fyrir, einnig í þeim tilvikum þegar félag veitir þjónustu án atvinnustöðvar. Auglýsa skal í Lögbirtingablaði og tilkynna vátryggingartökum eftir reglum sem gilda hér á landi. Þegar félag sem tekur við

stofninum er ekki staðsett í heimaríki sínu, þ.e. ekki er um aðalstöðvar þess að ræða, þarf einnig að hafa samráð við eftirlitsstjórnvöld þess ríkis um flutninginn.
    Þegar um er að ræða vátryggingarstofna erlendra félaga með staðfestu utan Evrópsks efnahagssvæðis hefur Tryggingaeftirlitið samkvæmt frv. mjög ríkar heimildir til afskipta og getur eftirlitið m.a. ákveðið ráðstöfun slíkra stofna til innlendra félaga við aðstæður þegar starfsemi er hætt eða starfsleyfi afturkallað. Tryggingaeftirlitinu ber að gæta þess að réttarstaða vátryggingartaka og vátryggðra verði eigi lakari eftir flutning stofns en áður. Vátryggingarsamningar halda sjálfkrafa gildi sín og vátryggingartakar eru ekki sjálfkrafa lausir frá samningum sínum við flutning stofnsins. Nýmæli er að vátryggingartakar hafa heimild til að segja upp samningi sínum skriflega innan eins mánaðar frá flutningsdegi vilji þeir eigi vera hjá því félagi sem stofninn er fluttur til.
    Í gildandi lögum er einungis að finna mjög almenn ákvæði um hvað gera skuli fari eitthvað úrskeiðis hjá vátryggingarfélagi og gera þurfi ráðstafanir til úrbóta. Tilefni athugasemda geta verið af margvíslegum toga og afleiðingar þess að ekki eru gerðar þær ráðstafanir sem krafist er eru mjög mismunandi. Að öðru leyti en varðar líftryggingar hafa engin ákvæði verið í lögum um þátt Tryggingaeftirlitsins og afskipti þegar grípa þarf til sérstakra ráðstafana, t.d. vegna þess að félag uppfyllir ekki fjárhagsskilyrði og getur ekki rétt við hag sinn, svo og eftir að starfsleyfi er fellt niður. Nýmæli er að kveðið er á um að Tryggingaeftirlitið skuli í öllum tilvikum þegar starfsleyfi er afturkallað gegna því hlutverki að ráðstafa vátryggingarstofni og meta vátryggingarskuldbindingar í því skyni að gætt verði hagsmuna vátryggingartaka og vátryggðra. Sérstök ákvæði eru um meðferð líftryggingarstofns í þessu sambandi og í nokkrum atriðum eru þau ákvæði einnig ítarlegri en í gildandi lögum.
    Í frv. eru sérstök ákvæði um hvernig brugðist skal við þegar erlent félag með staðfestu á Evrópsku efnahagssvæði uppfyllir ekki tilskildar fjárhagskröfur og hefur Tryggingaeftirlitið þá samráð við eftirlitsstjórnvöld heimaríkis um aðgerðir í samræmi við reglur EES-samningsins. Getur Tryggingaeftirlitið gripið til ráðstafana gagnvart slíku félagi sé það talið nauðsynlegt vegna hagsmuna hinna vátryggðu. Þegar um er að ræða starfsemi erlendra félaga hér á landi með staðfestu utan Evrópsks efnahagssvæðis eru Tryggingaeftirlitinu fengnar mjög víðtækar heimildir til afskipta. M.a. er nýmæli að Tryggingaeftirlitið getur útnefnt nýjan aðalumboðsmann til að ljúka viðskiptum og uppgjöri vegna starfseminnar hér og heimilað honum að ráðstafa eignum félagsins sé þannig komið málum að hagsmunum hinna vátryggðu sé talið stefnt í hættu og tilskildar ráðstafanir hafa ekki verið gerðar.
    Í frv. er nánar skilgreint hvað gera skuli við hinar ýmsu aðstæður, hvenær eftirlitið skuli setja félagi frest eða grípa þurfi til skjótra ráðstafana og hvenær lagt skuli til við ráðherra að starfsleyfi verði afturkallað. Nýmæli er einnig að Tryggingaeftirlitið hefur almennt heimildir til að takmarka eða jafnvel banna ráðstöfun félags yfir fjármunum sínum þegar það er liður í nauðsynlegum aðgerðum til að koma fjárhag félagsins á réttan kjöl og á það jafnt við um innlend og erlend félög. Einnig er nýmæli að gert er ráð fyrir að þegar frjáls slit vátryggingarfélags eru fyrirhuguð skuli Tryggingaeftirlitið hafa hönd í bagga með eftirliti vátryggingarskuldbindinga og er félaginu gert að leggja fyrir eftirlitið greinargerð um skuldbindingarnar og hvernig þeim skuli lokið.
    Loks er þess getið að þar eð gildandi lög, nr. 50/1978, eru samkvæmt frv. felld niður ásamt reglugerðum sem settar hafa verið á grundvelli þeirra laga er nauðsynlegt að kveða á um framkvæmd ársuppgjörs og reikningsskils vátryggingarfélaga fyrir árið 1992 og skal þá miðað við gildandi reglugerðarákvæði. Á hinn bóginn munu ákvæði nýrra laga gilda, m.a. um fjárhagsleg skilyrði starfseminnar, nema að því er varðar þau félög sem samkvæmt sérstökum lista fá aðlögunartíma allt að tvö ár til að uppfylla þessi skilyrði svo sem áður er getið.
    Virðulegi forseti. Ég legg svo til að að lokinni þessari umræðu verði frv. þessu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.