Útboð opinberra aðila

151. fundur
Föstudaginn 02. apríl 1993, kl. 13:02:52 (6782)

     Árni Johnsen :
    Virðulegi forseti. Íslenskur iðnaður stendur nú á þeim tímamótum að þurfa að mæta enn harðari samkeppni frá erlendum fyrirtækjum en áður. Aðstöðumunur erlendra og íslenskra fyrirtækja er mikill og meiri og fjölþættari en menn hafa kannski almennt gert sér grein fyrir og skulu nefnd hér nokkur dæmi um þessa mismunun.
    Útboðsgögn opinberra aðila eru oft þannig upp byggð að gert er ráð fyrir og jafnvel beinlínis fyrirskipað að í verkin skuli notuð erlend vara þrátt fyrir að samsvarandi vara sé til frá innlendum framleiðendum. Erlenda varan fær oft aðra umfjöllun en innlend framleiðsla. Þannig er algengt að ekki sé athugað hvort erlendar byggingarvörur uppfylli þær kröfur sem gerðar eru á Íslandi til bygginga og byggingahluta þrátt fyrir að skilmerkilega sé tekið fram í byggingarreglugerð að byggingarfulltrúi skuli krefja hlutaðeigandi innflytjendur eða framleiðanda um vottorð frá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins um að þær standist þær styrktar- og gæðakröfur sem gerðar eru á Íslandi. Verið er að flytja athugasemdalaust inn til

landsins vörur frá nágrannalöndum okkar á lægri verði en þessar vörur eru seldar á í heimalandinu og dæmi eru til þess að stimplað hafi verið á erlendar verðskrár að verðin á Íslandi séu lægri en í heimalandinu.
    Auk þessa er fjöldi annarra atriða sem snúa að rekstrarumhverfi fyrirtækjanna sem gerir aðstöðu erlendu fyrirtækjanna allt aðra og betri en innlendra fyrirtækja. Sem dæmi má nefna að lánstími fjárfestingarlána er víða erlendis tvöfalt lengri en hér, vextir á lánum lægri, lánin lántökugjaldslaus og lánshlutfallið mun hærra. Ef verið er að byggja upp iðnfyrirtæki í dreifbýli í þessum löndum eru sums staðar veittir sérstakir styrkir til uppbyggingarinnar sem geta numið allt að 35% af stofnkostnaðarverði. Fyrirtækin fá styrki og aðstoð við að þjálfa upp starfsmenn auk styrkja til vöruþróunar, skipulagsmála og hagræðingaraðgerða.
    Þegar fyrirtækin vilja flytja út vöru er algengt að ríkið greiði 75% af kostnaðinum við sölumennskuna auk þess að fyrirtækjunum eru boðin hagstæð lán vegna útflutningsins. Öll tæknileg þjónusta og aðstoð vegna uppbyggingar og reksturs og nýsköpunar í fyrirtækjunum er auk þess mun viðameiri og betri en hér á landi og auðvelt er að fá styrki til að niðurgreiða þá þjónustu sem stofnanir veita þó að það sé kannski ekki endilega eðlilegasta og skynsamlegasta leiðin.
    Hér er aðeins bent á brot af þeirri mismunum sem fyrirtækin verða að búa við og hlýtur að vera brýnt fyrir íslenska aðila að kortleggja þennan mismun nánar ef við ætlum ekki að leggja af allan iðnað hér á landi. Sem frekari rökstuðning má nefna nokkur dæmi. Í Gerðahreppi er verið að byggja íþróttahús og voru tilboð opnuð í húsið 1. júní 1992. Á húsið var hannað þak með þakeiningum frá dönsku fyrirtæki. Á síðustu stundu gafst bjóðendum kostur á að bjóða aðrar þakgerðir sem frávik og einn bjóðenda bauð innlendar einingar, sömu gerðar og einingarnar sem settar voru á íþróttahúsið í Grafarvogi. Innlendu einingarnar áttu að vera á sama verði og dönsku einingarnar. Þrátt fyrir mikið atvinnuleysi á Suðurnesjum og hvatningarorð ráðamanna þar um eflingu íslensks atvinnulífs var ákveðið að velja erlenda vöru þrátt fyrir að samsvarandi innlend vara stæði til boða á sama verði. A.m.k. fóru sex mánuðir í árangurslausa leit Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins að upplýsingum varðandi þessar vörutegundir erlendis frá. Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins hefur enn ekki fengið upplýsingarnar eftir því sem ég best veit.
    Annað dæmi. Verið er að byggja stúdentaíbúðir og leikskóla við Eggertsgötu í Reykjavík. Í útboðsgögnum er tekið fram að ákveðnir gluggar skuli vera í húsinu, þ.e. frá Velux í Danmörku, og tiltekið hvaða gerð skuli notuð nákvæmlega. Ekki er gefinn kostur á að nota aðra samsvarandi glugga. Þetta dæmi er enn nöturlegra fyrir þær sakir að þær gerðir sem voru tilteknar í útboðinu uppfylla ekki þær kröfur sem gerðar eru í verklýsingu til annarra glugga í húsinu og fyrirskipað er í byggingarreglugerð.
    Þriðja dæmi. Póstur og sími eru að byggja við Ármúla 27 í Reykjavík. Í útboðsgögnum er tekið fram að einangrunargler skuli vera af gerðinni Thermopane frá Belgíu og gluggarnir frá Nordan í Noregi. Ekki er gefinn kostur á að nota aðra samsvarandi vöru.
    Það er því spurning til hæstv. iðnrh. hvaða aðgerðir eru fyrirhugaðar hjá iðnrn. til þess að jafna aðstöðumun íslenskra og erlendra iðnfyrirtækja og koma í veg fyrir slíka mismunun þar sem erlendu vörunni er gert hærra undir höfði en íslensku vörunni, jafnvel í opinberum útboðum.
    Að lokum má skjóta fram spurningu hvort það sé rétt að Iðnlánasjóður, sem byggður var upp með skattlagningu á iðnaðinn, sé í miklum mæli farinn að lána keppinautum iðnaðarins, heildsölum og innfytjendum, til fjárfestinga og jafnvel til rekstrar og er þá hægt að fá upplýst hverjum sjóðurinn hefur lánað sem ekki borga iðnlánasjóðsgjald.